Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Mér finnst hlutirnir með þeim hætti að eðlilegt sé að halda þessari umræðu áfram, enda þótt einhverjir séu ekki á mínútunni til staðar. Hér var í upphafi beint fyrirspurn til hæstv. utanrrh. sem hefur setið fundinn. Hér hefur auk þess hæstv. samgrh., sem hafði afskipti af þessu máli, verið til staðar. Það hefur verið beðið um að hæstv. forsrh. kæmi hér og hann er kominn að vörmu spori. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þegar fundir eru boðaðir með stuttum fyrirvara að kvöldi hafa menn e.t.v. verið búnir að skipuleggja sinn tíma örlítið öðruvísi. En eins og hv. þm. Eiður Guðnason sagði: Þetta kannski bendir okkur á að við þurfum að skipuleggja örlítið betur umræður sem slíkar, að við getum fengið utandagskrárumræður meira en í hálftíma þar sem fulltrúar flokkanna fá tækifæri til að koma fram sínum skoðunum án þess að það verði um það almennar umræður. Hér er beint fyrirspurn til utanrrh. Það er eðlilegt að samstarfsaðilar hans í ríkisstjórn komi með sín sjónarmið. Það er eðlilegt að stjórnarandstaðan og hennar fulltrúar komi með sín sjónarmið og að þeir skipuleggi það eftir því sem hægt er. En mér sýnist að við höfum þó nokkurn tíma til miðnættis til að ljúka þessu og þar sem hæstv. forsrh. er til staðar og þar sem sá sem hóf þessar utandagskrárumræður er líka til staðar ætti allt saman að vera fallið í ljúfa löð þannig að menn gætu lokið þessu og haldið áfram.
    En ég vil ekki gagnrýna hæstv. forseta Sþ. í sambandi við hvernig skipulagið á þessum málum hefur verið.