Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hæstv. menntmrh. ávarpaði mig hér eins og hv. þm. heyrðu og óskaði eftir því að ég skýrði hvort af hálfu sjálfstæðismanna væri eitthvað breytt afstaða varðandi ,,aronsku`` svo að við notum það orð. Það er líklega rétt að ég hafi búið það orð til eða skrifað það fyrst í leiðara og mín afstaða er óbreytt og ég held mikils meiri hluta Sjálfstfl. Það hafa verið til raddir í Sjálfstfl. og eru til enn sem telja verjandi að við tökum gjald fyrir að láta verja okkur. Það er ekki mín afstaða og ekki mikils meiri hluta Sjálfstfl. og ég held einskis þingmanna flokksins, það sé alveg á hreinu. Þessari spurningu er því mjög fljótsvarað. Afstaðan er óbreytt.
    Það sem núna er um að ræða er spurning um hvort mannvirkjasjóður NATO fái leyfi til þess, skulum við segja, að athuga með forkönnun, er það kallað hér, jafnvel kannski forhönnun, ég veit það ekki. Ég held að við höfum verið sammála um það í æðilangan tíma og við hæstv. núv. forsrh., sem var utanrrh. í allmörg ár á sama tíma og ég var formaður utanrmn., ræddum oft um þau mál hvort ekki væri eðlilegt að Íslendingar tækju virkari þátt í störfum á hernaðarsviði innan NATO en við áður höfum gert, þ.e. kynntum okkur hvað þar væri á döfinni, við gætum séð með eigin augum eitthvað af þeim gífurlegu vandamálum sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir og við auðvitað sem aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Um þetta held ég að við hæstv. forsrh. höfum verið sammála alla tíð, að þetta bæri að gera. Það var byrjað á þessu í tíð Geirs Hallgrímssonar sem utanrrh. og hæstv. núv. forsrh. hélt þessu góðu heilli áfram.
    Við höfum betri yfirsýn yfir þessi mál nú en nokkru sinni áður. Áður urðum við að sjá allt með annarra augum. Þetta erum við líklega öll sammála um. Svo gæfusamlega tókst til að vorið 1985, nánar tiltekið hinn 5. maí, sameinaðist allt Alþingi Íslendinga um ályktun í öryggis-, varnar-, kjarnorku- og afvopnunarmálum í einni ályktun. Það var mikið gæfuspor. Ég er þess vegna sammála hæstv. menntmrh. um að við eigum ekki að óþörfu að efna til nýrra átaka eins og voru hér á tímum kalda stríðsins og ég ætla ekki að gera það. Ég held að það sé mikils um vert að við reynum að sameinast sem mest í þessum málum, ekki síst með þeirri von sem nú hefur kviknað um að stórveldin séu að nálgast og að einhver von sé til að draga úr vígbúnaði og hættu á hernaðarátökum.
    Þessi ályktun Alþingis hefur staðið óbreytt alla tíð og allir utanríkisráðherrar hafa fylgt henni, túlkað hana á erlendri grund. Utanrmn. og undirbúningsnefnd eða starfsnefnd hennar sameinaðist um að skýra hugsanlegt kjarnorkulaust svæði í norðrinu þannig að það næði til eyjanna í nyrstu höfum, það næði frá, eins og orðrétt segir í skýringum með ályktuninni sem mér var falið að flytja sem formanni nefndarinnar af öllum nefndarmönnum, ,,allt frá Grænlandsströndum til Úralfjalla, Norður-Þýskalands og eyjanna á Atlantshafi``. Það einkennilega hefur gerst að þetta orðalag, frá Atlantshafi til Úralfjalla, er núna tekið

upp í ályktanir bæði Varsjárbandalags og Atlantshafsbandalags. Það fæddist í þessum þingsölum. Ég veit ekki hver bjó það til. Einhvern veginn varð það til í miklum umræðum sem stóðu vikum og mánuðum saman að kjarnorkuvopnalaust svæði væri tilgangslaust öðruvísi en það næði yfir meira en Norðurlöndin ein og einkum og sér í lagi að það næði yfir höfin. Það er alveg rétt, sem hefur komið hér fram hjá mörgum ræðumönnum, að hættan sem að okkur steðjar núna er kannski fyrst og fremst vígbúnaður í höfunum og einmitt að flota þessara stórvelda verði beitt þar.
    Við vitum að Bandaríkjamenn hafa styrkt sinn flota. Við vitum líka að Ráðstjórnarríkin hafa styrkt og eru að styrkja sinn flota miklu meira. Og hvar eru þau að styrkja hann nema á Kola-skaga fyrst og fremst til að beita honum í norðurhöfum væntanlega, sér til varnar segja þeir auðvitað? Og viljum við hafa allan þennan flota eftirlitslausan í okkar höfum? Ég er ekki að segja að ég sé reiðubúinn að samþykkja að þessi flugvöllur verði byggður, en ég styð mjög eindregið að þessi könnun fari fram þannig að sjálfsögðu að við Íslendingar með okkar fámenna starfsliði fáum allar upplýsingar um allt sem að því snýr, hvað slíkur flugvöllur gæti gert til að létta á hugsanlegum flotaátökum á hinum nyrstu höfum og hvort þessi varnarbúnaður, og þá er þetta orðinn herflugvöllur að einhverju leyti ef stríð vofir yfir eða spenna vex í heiminum nákvæmlega eins og samið var um með flugstöðina, gæti hugsanlega létt á þessari spennu. Ég er ekki dómbær á það og enginn hérna inni sjálfsagt að segja til um nú á þessari stundu hvort svo sé, en ég held að við séum öll manneskjur til þess að vilja skoða þetta mál og skoða það niður í kjölinn.
    Það er alveg rétt, sem kom fram í ágætri ræðu varaþingmanns áðan, að Atlantshafsbandalagið er engin góðgerðarstofnun. Við erum í Atlantshafsbandalaginu okkar vegna sjálfra væntanlega. Allir sem greiða atkvæði með því og hafa barist fyrir því, m.a. staðið hér undir þingveggnum 30. mars 1949 til að tryggja að hér gæti farið fram ótrufluð atkvæðagreiðsla um það hvort við ættum að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu eða ekki, ég held að við hljótum öll, hvort sem okkur greinir á skoðanir um þetta málefni,
sem styðjum veru okkar í bandalaginu, að gera það sjálfra okkar vegna. Við erum ekkert góðgerðarfólk heldur, Íslendingar. Við erum hvorki neitt betri né verri en aðrir menn. Það reyndum við á hafréttarráðstefnu að enginn er annars bróðir í leik. Menn sameinuðust um sameiginleg sjónarmið. Það tók ellefu ár að koma þeim sáttmála í gegn, kannski merkasta áfanga í sögu mannkyns, þar sem lögsaga yfir yfirborði hnattarins, tveim þriðju hlutum heimsins, var ákveðinn án þess að nokkurn tíma kæmi til atkvæðagreiðslu fyrr en á síðasta degi, allt gert með samkomulagi og einmitt með því að menn ræddust við og sáu að eitt áttu menn þó sameiginlegt og það var að ná einhvers konar réttarreglum á hafinu. Þess

vegna náðist þessi samningur og þess vegna erum við í Atlantshafsbandalaginu að við trúum því, mikill meiri hluti íslensku þjóðarinnar fullyrði ég, að þannig sé okkar hag best komið í samfélagi lýðræðisþjóðanna og við skulum ekkert búast við að þeir séu neitt gjafmildari en við.
    Ég hygg að þjóðirnar við nyrstu slóðir, þar á meðal Norðurlandaþjóðir af því að þær voru hér nefndar, leggi mikla áherslu á að hugað sé að vörnum norðursins. Við erum öll sammála um að reyna að vernda höfin. Við getum náð yfirráðum með nágrönnum okkar og erum að gera það yfir öllu hafinu frá Noregs- og Skotlandsströndum til Kanada, nýtt það, ræktað og átt það, átt allan hafsbotninn og meginhluta þessa hafs. það er hægt að semja um þetta á nokkrum vikum. Það geta þessir tveir heiðursmenn hér, ráðherrarnir, gert. Ég veit það. Þeir geta það. Það er meiri árangur þegar að því kemur, og það er ekki í dag og það er ekki á morgun og þessi ríkisstjórn þarf ekki að vera hrædd um líf sitt þess vegna þó að hæstv. ráðherra sem hefur þetta vald tæki þá ákvörðun núna í kvöld að samþykkja að þessi skoðun yrði gerð. Ég veit svo ekkert um það og ekkert okkar hvað mikið að þessari skoðun hefur verið unnið. Það herlið sem búið er að vera hér áratugum saman veit auðvitað um landið nokkurn veginn eins og okkar verkfræðingar, hvað það býður upp á, hvað veðurfar býður upp á o.s.frv. Og það veit auðvitað miklu meira um hernaðarmátt, sinn eigin og annarra.
    Ég held þess vegna af því að nú er liðið að miðnætti og annað mál á víst að taka fyrir á eftir að ég fari ekkert lengra út í þessa sálma. Það er hægt að tala um þetta klukkutímunum saman. En ég var ekki spurður að öðru en þessu. Ýmsar spurningar aðrar hafa komið hér fram eins og um hvort hæstv. utanrrh. hafi vald til að samþykkja þetta. Hann hlýtur að hafa það. En þegar að því kemur að við tökum ákvörðun um hvort við eigum að gera þetta sjálfra okkar vegna af því að við teljum öryggi í því og ekki bara öryggi fyrir almennt flug heldur líka hernaðaröryggi ef til styrjaldar dregur eða átaka, að þetta sé fráhrindandi fyrir hugsanlega árásaraðila og kannski meira og hættuminna kannski en hafa einhvern gífurlegan flota kjarnorkuskipa í höfunum í kringum okkur. Þetta verðum við öll að meta kalt og fast þegar þar að kemur. Þá kemur þetta mál auðvitað fyrir Alþingi. Það á enginn að taka slíka ákvörðun nema Alþingi.
    En við skulum ekkert vera að dylja okkur þess að auðvitað hefur t.d. fyrirrennari núv. hæstv. forsrh., fyrrv. formaður Framsfl. tekið örlagaríkar ákvarðanir þó ekki kannski jafnmiklar og þær að það yrði byggður hér nýr völlur. Það gerði hann auðvitað þó að kommúnistar eins og þeir eru kallaðir hér í kvöld eða alþýðubandalagsmenn væru heldur betur að derra sig. Og hvað sagði sá ágæti maður í sjónvarpi? Þeir éta það. --- Þeir átu það. Auðvitað éta þeir það. Þeir vita að staða þeirra er ekki með þeim hætti að þeir geti stoppað meiri hluta íslensku þjóðarinnar í þeim vörnum sem Íslendingar sjálfir telja vera nauðsynlegar. Þess vegna voru byggð flugskýli og höfn í Helguvík

og þess vegna getur Alþingi tekið ákvörðun um að það verði byggður slíkur flugvöllur. Hann er auðvitað ekki eingöngu vegna varnarstöðunnar. Auðvitað er gífurlegt öryggi að því fyrir þann geysilega flota flugvéla sem við eigum að stjórna að hafa tvo velli hérna. Það er gífurlegur sparnaður í því fyrir öll flugfélög og Ísland kemst meira í miðpunkt heimsins fyrir friðsamleg samskipti og viðskipti. Það hljótum við þó öll að vilja. Ég veit að yngri kynslóðin í þessu landi þorir alveg að hafa samskipti við erlenda menn. En ef kjör hennar eru lakari en aðrir bjóða og framfarir eru minni er hætta á ferðum. Við vonum öll að þó að þessi flugvöllur yrði byggður, kannski eitthvað minni en nú er verið að tala um, verði hann aldrei notaður í styrjöld. En það eru slíkir flugvellir í tugavís, ekki bara í Noregi, þeir eru miklu fleiri á Kola-skaga og verið að byggja þá upp hraðar en nokkru sinni áður. Það liggur fyrir.
    En stefna beggja bandalaganna, Atlantshafsbandalags og Varsjárbandalags, er sú sama og okkar varðandi afvopnun nú, þessi hefðbundnu vopn sem svo eru kölluð, sem eru þó allt önnur drápstæki en þau voru í síðustu styrjöld. Það þarf engin atómvopn lengur til að útrýma mannkyninu og heldur ekki eiturvopn. Við vitum að framfarir eru svo gífurlegar á hernaðarsviði. Þessar þjóðir hafa samþykkt það allar og þar með við að afvopnunin nú í Evrópu verði að ná frá Atlantshafi til Úralfjalla. Það er stefna okkar og við skulum skoða þetta mál alveg rólega og yfirvegað. Það ætla ég að gera.