Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Valgerður Sverrisdóttir:
    Hæstv. forseti. Það hafa verið svo áhugaverðar umræður sem hér hafa farið fram í kvöld að ég hef ekki einu sinni gefið mér tíma til að fara í kaffi. Það hafa nokkrir hv. þm. haft sérstaklega áhuga á og lýst sérstaklega eftir afstöðu framsóknarmanna í því máli sem hér er á dagskrá og einn hv. þm. sýnt okkur þá virðingu að lesa upp úr okkar samþykktum og annar hv. þm. gerði sér lítið fyrir og las upp nærri því heilt Tímabréf sem hann taldi ritskoðað af forsrh. sem mun ekki vera rétt.
    Ég verð að segja að mér finnst þessar umræður nokkuð sérkennilegar. Það er nefnilega svo að þeir hv. þm. sem endilega vilja heimila framkvæmdir fjármagnaðar af mannvirkjasjóðnum eru finnst mér fyrst og fremst að vilja einhverjar hernaðarframkvæmdir, einhverja hernaðarpeninga eða einhverja bandaríkjagreiðasemi. Það kom fram í ræðu hæstv. samgrh. að það hefur aldrei komið ósk um varaflugvöll frá íslenskum né erlendum flugyfirvöldum --- var það ekki rétt tekið eftir? --- og að öryggi farþega er alls ekki fyrir borð borið. Þrýstingurinn er því ekki kominn frá flugyfirvöldum eða flugfarþegum. Þrýstingurinn er kominn frá Atlantshafsbandalaginu eða kannski fyrst og fremst Bandaríkjamönnum sem eiginlega hafa þó ekkert með flugvöllinn að gera nema þá ef vera skyldi að stunda æfingar í takmörkuðum mæli ef marka má fréttir. Ætli staðreyndirnar séu ekki þær að Atlantshafsbandalagið vantar æfingaflugvöll þar sem það er orðið frekar þröngt á þeim suður í Keflavík og sjálfsagt víðar í heiminum?
    Margir hv. ræðumenn hafa sagt eða a.m.k. einhverjir hv. þm. hafa sagt að meiri hluti þjóðarinnar styðji aðild að NATO og þar með styðji meiri hluti landsmanna þessa framkvæmd fjármagnaða af mannvirkjasjóði NATO. Ég tel að þetta þurfi ekki endilega að fara saman. Nú er nóg komið, gætu nefnilega einhverjir sagt og þar sem friðvænlegar horfir nú í heiminum en um langt skeið er hernaðarframkvæmd á Íslandi upp á 11 milljarða ekki í takt við tímann, ekki í takt við þann friðartón sem nú heyrist í henni veröld.
    Nú er það svo að á Íslandi eru samdráttartímar og þá sérstaklega á landsbyggðinni. Það getur því verið freistandi að slá til og skapa aukna atvinnu í landinu og þá sérstaklega á því landsvæði sem fyrir valinu yrði. Við Íslendingar getum ekki byggt okkar atvinnulíf upp á þann hátt. Freistingarnar fyrir auðfengnum gróða tengdum hernaði eru til þess að standast þær og það álít ég að við munum gera í þessu tilfelli, enda er það svo að það er allt að því undantekningarlaus regla að þar sem herstöðvar eru staðsettar líður ekki langur tími þar til annar atvinnuvegur hættir að þrífast í nágrenninu.
    Þá tel ég rétt að fram komi að landeigendur á því landsvæði og í þeim fagra dal, Aðaldal, sem nefndur hefur verið sem hugsanlegur staður fyrir umræddan völl, hafa margir hverjir tjáð sig opinberlega algerlega andstæða þessum hugmyndum. Grænland hefur verið

nefnt sem hugsanlegt ákvörðunarland fyrir umræddan völl. Varaflugvöll fyrir hvað getur flugvöllur á Grænlandi verið? Er það varaflugvöllur fyrir Keflavík? Þangað er þó einhverra klukkutíma flug. Hvað ef veður breytist á flugtíma til Grænlands? Hefur þá flugvélin eldsneyti á annan flugvöll? Spyr sá sem ekki veit. Mér finnst einhvern veginn að þessi Grænlandsumræða sé nokkurs konar grýla á okkur Íslendinga eða m.ö.o. til að þrýsta á.
    Mín skoðun er sem sagt sú að best væri að sleppa títtnefndri forkönnun þar sem umræddur flugvöllur verði ekki byggður.
    Það hefur komið fram hjá tveimur hv. þm. að það sé Framsfl. að kenna að hér hefur ekki verið byggður þessi völlur. Ef þetta hefur verið sagt til að niðra Framsfl. er ég sannfærð um að þegar upp verður staðið verður þetta okkur til framdráttar og álitsauka.