Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Í máli hv. 6. þm. Vesturl. Birnu K. Lárusdóttur og 6. þm. Reykv. Guðrúnar Agnarsdóttur kom mætavel fram hver afstaða kvennalistakvenna er til þessa máls og veit ég ekki til þess að um hana sé ágreiningur í okkar röðum. Það er vafalaust óþarft að ítreka það, en við erum algerlega andvígar auknum hernaðarlegum umsvifum hér á landi hverju nafni sem þau nefnast og má þá vitaskuld einu gilda þótt reynt sé að klæða slík umsvif í grímubúning.
    Það er nánast hlálegt og nær væri þó að segja grátlegt þegar reynt er að halda því fram að varaflugvöllur byggður af mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins yrði ekki hernaðarmannvirki. Hvers vegna ættu ráðamenn slíks sjóðs að bjóðast til að opna sínar hirslur ef þeir litu ekki á framkvæmdina sem lið í hernaðaruppbyggingu? Einhvern tíma hefði verið talað um nytsama sakleysingja í þessu samhengi.
    Ég kann því betur að kalla hlutina réttum nöfnum. Það er verið að reyna að tosa áfram brennandi áhugamáli bandaríska hersins og hershöfðingjanna í Atlantshafsbandalaginu að hér verði hægt að reka hernað, ekki aðeins frá suðvesturhorni landsins heldur einnig frá norðausturhorninu ef á þarf að halda.
    Hæstv. núv. utanrrh. er augljóslega áhugamaður um málið og ekki virðist áhuginn hafa dofnað eftir fundinn með hr. Baker hinum bandaríska í flugstöðinni nýlega. Þangað snaraðist hæstv. utanrrh. svo að hr. Baker þyrfti ekki að eyða allt of löngum tíma í spjall við ráðamenn á Íslandi og af fréttum má ráða að vel fór á með þeim svo og ýmsum úr fylgdarliði þeirra. Og nú vill hæstv. utanrrh. láta gera svokallaða forkönnun, áhugasamur sem aldrei fyrr eftir þennan fund vafalaust, og segist ekki þurfa að spyrja annan en sjálfan sig um heimild til þess. Og hingað hefur komið hver af öðrum, sem betur fer ekki allir þó sem hér hafa talað, og tekið undir og hvatt hæstv. utanrrh. til dáða og gert sér jafnvel upp undrun. Er ekki allt í lagi með svona forkönnun? spyrja menn. Hvers lags einstrengingsháttur er þetta eiginlega? En hæstv. ráðherra og aðrir sem svo tala. Það er fyrsta skrefið. Forkönnun er fyrsta skrefið og við sem erum andvíg auknum hernaðarumsvifum hér segjum: Nei takk. Ekki þetta skref. Svo einfalt er það og óþarft að fjölyrða um það sem áður er margsagt og miklu betur.
    Hv. 8. þm. Reykv. talaði um að slíkur völlur, sem af slíkri könnun leiddi hugsanlega og yrði e.t.v. byggður, yrði fráhrindandi, ef ég skildi hann rétt, á stríðstímum. Þar er ég nú algerlega ósammála. Ég held að réttara væri að tala um orðið ,,aðlaðandi`` í slíku samhengi.
    Þá kem ég að því sem er aðalerindi mitt hingað í þennan ræðustól. Sá staður sem málið snýst sennilega fyrst og fremst um er Aðaldalsflugvöllur. Það er svo að e.t.v. rísa tilfinningarnar hærra þegar málið varðar stað sem maður þekkir vel og þennan stað þekki ég vel og hann þekkja margir hér inni. Ég verð að segja að tilhugsunin um herflugvöll í þessu umhverfi er ekki aðeins ógeðfelld, hún er skelfileg. Og það væri

óbætanlegt umhverfisslys ef hernaðarbrölti yrði beint á þessar slóðir. Slík fullyrðing er ekki út í bláinn, enda studd fréttum af samþykktum þar norður frá. T.d. ályktaði stjórn Félags landeigenda við Laxá í Aðaldal og Mývatn á fundi nýlega þar sem fyrirætlunum um varaflugvöll í Aðaldal á vegum Atlantshafsbandalagsins var mótmælt harðlega. Í ályktun fundarins var mótmælt þeim hugmyndum sem fram hafa komið varðandi byggingu flugvallar á vegum NATO í Aðaldal. Í ályktuninni var minnt á að þessi flugvöllur yrði mjög nærri bökkum Laxár og mundi ógna tvímælalaust lífríki árinnar og umhverfi hennar, t.d. Skjálfandaflóa, og í ályktuninni segir:
    ,,Olíubirgðastöð er ein sér nægileg ástæða auk slysahættu og margvíslegra náttúruspjalla. Laxá og bakkar hennar eru verndað svæði samkvæmt lögum frá 1974. Landeigendafélag Laxár og Mývatns mun hér eftir sem hingað til standa vörð um þetta svæði. Því skorum við á ráðamenn þjóðarinnar að taka þegar af allan vafa um að hér verði flugvöllur sem þessi ekki byggður.``
    Þennan fund munu hafa setið Vigfús B. Jónsson formaður, Eysteinn Sigurðsson, Arnarvatni, Mývatnssveit, Jón Jónasson, Þverá, Laxárdal, Árni Halldórsson, Garði, Mývatnssveit og Þorgrímur Starri Björgvinsson, Garði, Mývatnssveit. Flestir þessara manna eru vel kunnir ýmsum hér inni. Einn þeirra er t.d. varaþingmaður Sjálfstfl. í Norðurlandi eystra og mig undrar að hv. 2. þm. Norðurl. e. skyldi ekki minnast á þessa samþykkt sem honum hlýtur að hafa verið kunnugt um og honum hefði þá átt að renna blóðið til skyldunnar.
    Hugsanlegt er og um það hafa heyrst raddir að flugvöllur af því tagi sem hér er til umræðu gæti að einhverju leyti leyst þann vanda sem við er að fást í atvinnumálum í nálægum byggðarlögum. Ég vara menn eindregið við að trúa á slíkar lausnir. Í því efni nægir að vísa til reynslunnar á Suðurnesjum þar sem nálægðin við ,,Völlinn`` hefur haft mjög svo óæskileg áhrif á atvinnulífið og vinnumarkaðinn. Það er staðreynd sem ekki verður á móti mælt og heilög forsjónin forði Þingeyingum frá slíkum hremmingum og ég hlýt að fagna orðum síðasta ræðumanns, hv. 5. þm. Norðurl. e.
    Virðulegi forseti. Ég taldi mér skylt að koma þessari samþykkt með þessum sjónarmiðum þeirra norðanmanna á framfæri í þessari umræðu. Ég fullyrði að sú umræða sem nú ber svo hátt í þjóðfélaginu og hefur orðið tilefni þessarar umræðu hér hljómar ekki sem nein þjóðvísa í eyrum þeirra sem búa á þessum slóðum heldur sem argasta gaddavírsrokk.