Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Mér þótti leitt að ég gat ekki verið hér í allt kvöld, en ég hafði því miður bundið mig af öðrum skyldum. Ég skal með ánægju koma að þeim málum sem ég hef heyrt hér nefnd. Hér er fyrst og fremst verið að ræða um forræði einstakra ráðherra yfir ákveðnum málaflokkum. Það fer ekkert á milli mála að hæstv. utanrrh. fer með forræði utanríkismála og m.a. tengslanna við Atlantshafsbandalagið og varnir þessa lands í því sambandi. Samgrh. fer að sjálfsögðu með forræði samgöngumála. Í þessu sambandi vísa ég til þess, sem oft hefur verið sagt úr þessum ræðustól, að íslenskt stjórnvald er fjölskipað stjórnvald. Í þessu tilliti er þó þess að gæta að forræði utanrrh. er að því leyti takmarkað að í samkomulagi á milli flokkanna er sérstaklega tekið fram að utanrrh. er ekki heimilt að ákveða ný meiri háttar varnarmannvirki. Í raun og veru er hér um það að ræða.
    Þess vegna hefur umræða í ríkisstjórninni, umræða sem alls ekki er lokið, m.a. fjallað um þetta: Er hér um meiri háttar hernaðarmannvirki að ræða? Einn aðili að þessari ríkisstjórn hefur lýst mjög ákveðnum efasemdum um að þær upplýsingar sem fengist hafa frá aðalforstjóra Atlantshafsbandalagsins sýni að hér sé ekki um hernaðarmannvirki að ræða og hefur fært fyrir því rök. Ég sagði hér áðan að það verði ekki ráðist í svona mannvirki, sem augljóslega er meiri háttar, mannvirki upp á 11 milljarða er meiri háttar, nema allir sem að ríkisstjórninni standa séu sammála um, annaðhvort að hér sé ekki um hernaðarmannvirki að ræða eða menn vilja þá víkja frá þessu samkomulagi og þrátt fyrir það samþykkja að í slíkt hernaðarmannvirki verði ráðist. A.m.k. einn flokkur í ríkisstjórninni hefur afdráttarlaust lýst því yfir að hann sé ekki tilbúinn til slíkra ákvarðana. Málið er því afar einfalt. Í tíð þessarar ríkisstjórnar verður ekki ráðist í þetta mannvirki hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. (Gripið fram í.) Já, ég kem að því.
    Ég sagði áðan að utanrrh. hefur að sjálfsögðu forráð okkar varnarmála og tengsla við Atlantshafsbandalagið og honum er vitanlega frjálst að láta fara fram könnun á öllum hugsanlegum framkvæmdum sem hann og Atlantshafsbandalagið telja að mundi styrkja t.d. varnir þessa lands eða þátttöku okkar í vestrænu samstarfi. Honum er það frjálst. Honum er frjálst að samþykkja forkönnun á byggingu nýrrar flugbrautar í Keflavík o.s.frv. En stjórnarsáttmálinn segir hins vegar að í það verði ekki ráðist, það verði engar framkvæmdir ef um meiri háttar hernaðarframkvæmdir er að ræða. Menntmrh. getur látið fara fram könnun á því að byggja nýjan háskóla á Austfjörðum, en hann gerir það ekki nema fjárveiting fáist til málsins. ( Menntmrh.: En á varnarsvæðunum?) Kannski gæti hann það líka. Ég er ekki að segja það. Að vísu heyrir allt á varnarsvæðunum undir utanrrh. svo það skiptir öðru máli, en ég ætla líka að koma að því.
    Hins vegar er þetta mál ekki að öllu leyti svo einfalt. Mér sýnist að ef utanrrh. ræðst í slíka könnun hljóti það að vera byggt á því að hann telji vörnum

landsins betur borgið með þessu móti. Hann getur ekki ráðist í forkönnun á byggingu samgöngumannvirkis sem samgrh. á síðan að reka. Ég held að það sé alveg ljóst að samgrh. hlýtur að ákveða og marka þá stefnu sem við ætlum að hafa í samgöngum og þá líka við flugið. Þetta mál er vitanlega að þessu leyti töluvert flóknara og þess vegna sagði ég áðan að ég ætti bágt með að trúa því að skynsamlegt verði talið að ráðast í slíka forkönnun, sem yrði eflaust mest á skrifborðinu gerð, ef ekki liggur fyrir að samkomulag sé um að byggja slíkan flugvöll. Um það er ekki samkomulag, a.m.k. ekki í dag, alls ekki. Ef ætti að byggja slíkan flugvöll sem lið í íslensku samgöngukerfi er alveg ljóst að samgrh., sem fer með forræði þessara mála, yrði a.m.k. að vera tilbúinn að taka við slíkum flugvelli og reka sem lið í hinu íslenska samgöngukerfi.
    Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér sýnist við vera að deila um keisarans skegg í þessu sambandi. Það er sérstaklega fjallað um þessi mál í stjórnarsáttmálanum. Það er tekið undan forræði utanrrh. í varnarmálum að byggja meiri háttar hernaðarmannvirki og það verður ekki byggt nema full samstaða sé með þeim aðilum sem að ríkisstjórninni standa.