Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanrrh. fyrir mjög fróðlega og góða ræðu sem hann flutti og jafnframt vil ég óska honum til hamingju með fimmtugsafmælið sem mér skilst að sé runnið upp.
    En það var mjög fróðleg ræða sem hæstv. utanrrh. hafði í frammi áðan og ég tek undir margt af því sem hann sagði í þessari ræðu. Hann kom mjög inn á hvernig hefur verið farið með þessi mál í Noregi og ég held að við getum lært töluvert af því hvernig Norðmenn hafa farið að þessu. Þeir hafa ekki verið hræddir við að byggja upp sín samgöngumál með aðstoð frá þessum mannvirkjasjóði og ég held að við ættum að gera það líka.
    Það hefur oft komið til tals í sölum Alþingis einnig hvað menn hafa verið hrifnir af vegakerfi Færeyja. En hvernig væri ef það vegakerfi hefði ekki verið byggt upp að hluta til af mannvirkjasjóði NATO? Það væri ekki upp á marga fiska. Við skulum einmitt huga að því að þessir sjóðir eru sérstaklega til að styrkja samgöngur á þeim stöðum þar sem ekki er mikið fjármagn fyrir hendi og þar sem samgöngur eru ekki nógu tryggar.
    Ef við lítum til þess að það eru nær 650 millj. manna í þeim löndum sem eiga aðild að Atlantshafsbandalaginu sjáum við að framlög í þennan sjóð mundu ekki vera ýkja há þótt við værum aðilar að honum og borguðum í hann, en ég gat ekki skilið orð hæstv. menntmrh. áðan öðruvísi en svo að hann væri að gefa í skyn að ef við værum nú aðilar að mannvirkjasjóði NATO og borguðum í hann væri allt í lagi að þiggja úr honum. Ég fagna þeirri tillögu hans og óska eftir því að hæstv. utanrrh. kanni hvort við getum ekki orðið fullir aðilar að þessum mannvirkjasjóði og borgað í hann miðað við okkar styrkleika í fjármálum og stærð. Ég held að við mundum ekki þurfa að borga býsna mikið í hann þannig að við réðum vel við það. Það er mjög mikilvægt að við fáum framlag til að efla okkar samgöngur úr slíkum sameiginlegum sjóði vegna þess að þjóðir Vestur-Evrópu, Bandaríkin og Kanada, eru þjóðir sem standa sameiginlega og með styrkum stoðum að frelsi og mannréttindum hér í heimi og án þeirra væri lífið öðruvísi í Vestur-Evrópu. Við skulum gera okkur grein fyrir því að sú samstaða og sameiginleg niðurstaða á mörgum sviðum, þar á meðal uppbygging á samgöngumannvirkjum, hefur breytt töluvert miklu hjá mörgum þjóðum.
    Staðreyndin er sú að sum mannvirki hefðu annars aldrei risið. Það var rétt sem utanrrh. sagði áðan um flugvellina í Noregi. Norðmenn voru lengi vel töluvert á eftir í flugmálum þangað til þeir hófu mikla uppbyggingu og til þess nutu þeir hárra framlaga úr mannvirkjasjóði NATO og hefðu sennilega aldrei náð að byggja upp í svo stóru landi með svo fátt fólk sem er þó miðað við það stóra land svo öfluga flugvelli á mörgum stöðum. Við sem höfum flogið um Noreg og alveg norður í nyrstu byggðir gerum okkur grein fyrir því að það er töluvert sem kostar að byggja upp slíkt.

    Sama er að segja um okkur hér á Íslandi. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum ekki nema 250 þús. manns. Við höfum takmarkaða fjármuni til að byggja upp landið og þegar vinir okkar og samstarfsaðilar úr Evrópu og Bandaríkjunum eru tilbúnir að standa með okkur að varanlegri uppbyggingu á mannvirkjum eigum við auðvitað að gera það því að það er ekki nokkur efi á að það er ekki neinn skaði að því. Það er til framfara og það er til bóta og það er ekki svo að við sköðumst neitt á því.
    Við höfum séð að sameiginlegt átak ekki síður á þessum sviðum en á öðrum er auðvitað það sem við þurfum að standa að og ég fagna því sem utanrrh. hefur sagt um að hann muni meta sjálfur hvort forkönnun fari fram og ef honum sýnist svo muni hann láta hana fara fram.
    Að öðru leyti vil ég þakka fyrir þessa umræðu og vonast til að hún verði að miklu gagni í framtíðinni.