Varaflugvöllur
Mánudaginn 20. febrúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara mikið ítarlegar út í þessa umræðu. Ég tel að hún hafi verið gagnleg. Það eru þó þrjú atriði sem ég vil nefna að lokum og það er fyrst þetta með mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins og að hann borgi þessar framkvæmdir í Noregi og að Norðmenn greiði í sjóðinn og sæki um fé úr honum sem fullgildir aðilar að sjóðnum. Og lái mér það hver sem vill, en ég tel að á því sé nokkur munur eða því að taka við ölmusum eða fjárframlögum til að geta haldið uppi almennum samgöngumannvirkjum eins og hv. síðasti ræðumaður var að tala um.
    Norðmenn hafa á undanförnum áratugum frá því að mannvirkjasjóðurinn var stofnaður greitt um það bil 3,1% af framlögum til sjóðsins í heild sem hafa numið um 12 milljörðum dollara frá upphafi. Hér er þess vegna um að ræða upphæð, sem er líklega 360--370 millj. dollara, sem Norðmenn hafa greitt í sjóðinn. Það liggur ekki fyrir í þeim gögnum sem ég hef undir höndum né heldur í þeim upplýsingum sem fram komu áðan hjá hæstv. utanrrh. hversu mikla fjármuni Norðmenn hafa sótt í þennan sjóð, en það væri nokkuð fróðlegt og gæti verið til umhugsunar.
    Í öðru lagi vil ég nefna það, sem hér hefur komið fram í þessari umræðu í kvöld og hefur verið mér lengi nokkurt umhugsunarefni, og það eru óljósar reglur um það í íslenskum lögum og lagavenjum hvernig land verður varnarsvæði. Það voru teknar um það ákvarðanir með svokölluðum varnarsamningi á sínum tíma og viðauka við hann að tiltekin svæði skyldu vera varnarsvæði. Síðan hefur eitt og annað gerst í þessum efnum án þess að það liggi fyrir hver hafi tekið ákvörðun um hvaða svæði og hvernig það skyldi verða fyrir valinu. Það liggur ekki fyrir. Það getur ekki verið að utanrrh. einn, vegna þess að það væri óeðlilegt stjórnskipulag, geti ákveðið í samkomulagi við Bandaríkjastjórn að nýtt svæði af okkar landi verði svokallað varnarsvæði. Það hlýtur að vera málefni Alþingis og á að vera málefni Alþingis. Um þetta mál og þetta ferli hefur hins vegar mjög lítið og undarlega lítið verið fjallað.
    Ég lagði fyrirspurnir um þetta efni fyrir fyrrv. hæstv. utanrrh. Matthías Mathiesen á sínum tíma sem var ítarlega svarað með skriflegum hætti á Alþingi. Þar kom fram að venjur í þessum efnum eru óljósar og of óskýrar til þess að það sé boðlegt vegna þess hvað hér er um stórar ákvarðanir að ræða. M.a. er ljóst að Helguvík er ekki á landi sem lýst hafði verið varnarsvæði. Helguvík er ekki á slíku landi. Þess vegna ættu framkvæmdirnar í Helguvík samkvæmt þeim skilningi sem lagður hefur verið í þessi mál hér fyrr í kvöld af hæstv. utanrrh. samkvæmt orðanna hljóðan, samkvæmt lögum að heyra undir samgrh. af því að það liggur ekki fyrir að hér sé um varnarsvæði að ræða. Þetta svæði hefur ekki verið tekið undir varnarsvæði með þeim hætti sem fyrri svæðin voru ákveðin á sínum tíma. Ég tel að þetta sé stóralvarlegt mál og hættulegt að venjur verði til í þessum efnum án þess að Alþingi taki á því.

    Ég er ekkert að gera því skóna að núv. hæstv. utanrrh. muni ganga fram í þessu efni með ósæmilegum hætti, en ég tel að það hljóti að vera skylt Alþingi að íhuga mjög vandlega að utanrrh. séu settar skýrar reglur í þessu efni og skýr fyrirmæli ef til þess kemur að viðbót verður á því svæði sem kallað er varnarsvæði.
    Í þriðja lagi vildi ég segja að það var athyglisvert, sem kom hér fram í þessari umræðu í kvöld og rétt eins og ég hefði heyrt það áður, að heimild til fjárveitingar falli niður á árinu ef hún verður ekki notuð. Það er rétt eins og ég hafi heyrt það áður að beitu af þessu tagi hafi verið veifað fyrir framan menn, ráðherra, ríkisstjórnir og þingmenn á undanförnum áratugum, og sagt: Ef þið notið þetta ekki núna fer þetta í Grænland eða Færeyjar og þið tapið því. Þetta er hlutur sem við kynntumst t.d. í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens ákaflega vel, hvernig því var lýst yfir að ef tiltekin fjárveiting yrði ekki notuð félli hún niður á því ári og væri óvissa um hana. Það er hrikalegt þegar stórveldi beita sér þannig með þessum hætti gagnvart smáþjóð og þegar þing smáþjóðarinnar eða ríkisstjórn ákveður að bíta á þessa beitu. (Gripið fram í.) Það er auðvitað eins og venjulega þegar kemur að hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldóri Blöndal að það tjáir ekki að eiga við hann málefnaleg orðaskipti í seinni tíð yfirleitt um eitt eða neitt og læt ég því frammíköll hans mér sem vind um eyrun þjóta.
    Að lokum, hæstv. forseti, vil ég nota þetta tækifæri til að óska hæstv. utanrrh. til hamingju með afmælið, óska honum aukinnar víðsýni og mannvits á síðari hluta þeirrar aldar sem hann er nú að ganga inn í.