Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með virðulegum forseta að það er full ástæða til að hafa gott samstarf um þinghaldið, ekki síst um það mál sem hefur dregist úr hömlu og á að taka til við að ræða nú. En áður en umræða hefst vil ég minna á það, af því að það virðist vera full ástæða til þess þar sem nú er nokkuð langt um liðið síðan síðast var verið að ræða um þetta mál, að fjöldi fyrirspurna hafði komið fram til ýmissa ráðherra, þar á meðal hæstv. fjmrh., og þess er nú sérstaklega óskað að hann verði við umræðuna og hann svari þeim fyrirspurnum sem til hans hefur verið beint og mun verða beint til hans.
    Það er svo, virðulegur forseti, að það bar auðvitað ekki brýna nauðsyn til fyrir ríkisstjórnina að tilkynna sérstaklega innan dagskrár efnahagsaðgerðir, en því ber þó að fagna og er gott út af fyrir sig. Það er hins vegar algerlega út í bláinn að hefja slíkar umræður nú þegar klukkan er að verða eitt að nóttu nema þeir sem bera mestu ábyrgðina á því sem við köllum efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar séu hér. Ég veit að hæstv. forsrh. er viðstaddur, en hæstv. fjmrh. hafði ekki fyrr tekið þátt í umræðunni, til hans hafði verið beint ýmsum fyrirspurnum og ég mælist til þess að hann verði viðstaddur umræðuna. Ég veit að virðulegur forseti á afar hægt með að biðja sinn ágæta flokksmann, formann Alþb., um að koma og vera viðstaddan þessa umræðu, enda trúi ég því ekki að hann þurfi lengri svefn en aðrir hv. þm. eða þingmannsígildi.