Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Mál þetta er komið aftur í þessa hv. deild eftir nokkrar breytingar sem hafa verið gerðar í hv. Nd. á máli þessu. Málið er þaulrætt og skal ég takmarka ræðu mína við að greina frá þeim breytingum sem helstar hafa verið gerðar á málinu.
    Þá er í fyrsta lagi að í 4. gr. frv. er ákveðin fjölgun í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs frá því sem áður var. Gert var ráð fyrir að í stjórn Atvinnutryggingarsjóðs sætu fimm menn sem tilnefndir væru samkvæmt því sem sagði í frv. og enn segir í þessari grein, en við þann fjölda hefur verið bætt þremur mönnum í stjórn sjóðsins og er gert ráð fyrir því að þeir verði skipaðir af forsrh. í samráði við formenn þingflokka. Þessa breytingu gerði fjh.- og viðskn. Nd. tillögu um til að mæta gagnrýni sem fram hafði komið á skipun sjóðsstjórnarinnar.
    Önnur mikilvæg breyting varðar hlutafjársjóð Byggðastofnunar. Tillaga hafði komið fram frá stjórnarandstöðunni um hlutafjársjóð. Þessi mál voru rædd í fjh.- og viðskn. og ákveðið að flytja brtt. við frv. um stofnun slíks sjóðs í tengslum við þá fjárhagslegu endurskipulagningu sem fram fer með Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina. Um hlutafjársjóð þennan er fjallað í 8., 9. og 10. gr. frv.
    Í 9. gr. frv. segir að við Byggðastofnun skuli starfa hlutafjársjóður. Fjh.- og viðskn. Nd. taldi eðlilegt að þessi sjóður væri þó greindur frá Byggðastofnun með sjálfstæðri stjórn og lagði til að hann leiddi stjórn þriggja manna sem skipaðir væru af forsrh. Er það meginbreytingin á upphaflegri tillögu um þennan sjóð.
    Í meðferð málsins í Nd. flutti ég auk þess þrjár brtt. sem allar vörðuðu sjóð þennan og var það gert eftir að farið hafði verið ítarlega yfir þessa starfsemi. Í fyrsta lagi gerði ég tillögu um þá breytingu, sem var samþykkt, að hlutafjársjóðurinn verði undanþeginn öllum opinberum gjöldum, eins og segir í 8. gr. frv. Í öðru lagi gerði ég tillögu um að um sérstakt framlag ríkissjóðs gæti orðið að ræða ef Alþingi ákveður svo. Það þótti rétt að hafa þetta í lögum þótt að sjálfsögðu sé Alþingi ætíð heimilt að ákveða slíkt framlag. Þetta undirstrikar að þarna kann að þurfa sérstakt framlag til þess að standa undir rekstri sjóðsins sérstaklega. Í þriðja lagi var í 10. gr. ákvæði sem gerði ráð fyrir að sjóðurinn skyldi birta kaupgengi hlutdeildarskírteina. Að höfðu samráði við bæði lögfræðinga, banka og fleiri var talið að slík skylda gæti orðið afar erfið. Það er út af fyrir sig ekkert á móti því að það sé gert og að mörgu leyti æskilegt, en þeir menn sem um þetta hafa fjallað lögðu eindregið til að slík skylda yrði a.m.k. ekki í lögum.
    Telja verður að slíkur hlutafjársjóður sé afar mikilvægur í tengslum við þá fjárhagslegu endurskipulagningu sem fram fer. Ég vil geta þess að nú hafa verið afgreiddar hjá Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina u.þ.b. 90 umsóknir af nálægt 200 sem þangað hafa komið. Af þessum 90 hafa u.þ.b., ég hef ekki alveg nákvæmar tölur, 55 verið afgreiddar jákvætt og hafa þau fyrirtæki fengið skuldbreytingu og sömuleiðis hafa nokkur fengið lán til

hlutafjáraukningar. Hins vegar hafa u.þ.b. 34 eða 35 fengið neitun að tillögu samstarfsnefndar sem við Atvinnutryggingarsjóðinn starfar og er það að sjálfsögðu byggt á þeirri niðurstöðu samstarfsnefndarinnar að þessi fyrirtæki fullnægi ekki ákvæðum reglugerðar um rekstrargrundvöll þegar til lengri tíma er litið. Flest þessara fyrirtækja eru með neikvæða eiginfjárstöðu. Þó er ekki ætíð svo. Í sumum tilfellum er framlegðin of lítil þótt eiginfjárstaðan kynni að vera nálægt núllinu.
    Hér eru því um u.þ.b. 40% þeirra fyrirtækja sem hafa fengið afgreiðslu að ræða sem fá neitun og það er mat sjóðsstjórnarinnar að það hlutfall kunni að haldast. Hér gæti því orðið um að ræða í sjávarútveginum einum u.þ.b. 70 fyrirtæki sem ekki eru talin hafa rekstrargrundvöll við eðlilegar aðstæður og til lengri tíma litið. Þetta er að sjálfsögðu hið alvarlegasta mál. Mörg þessara fyrirtækja eru meginstoð atvinnulífs og þar með byggðar í þorpum í kringum landið. Ég lít svo á og ríkisstjórnin öll að það hljóti að verða meginverkefni í framhaldi af starfsemi Atvinnutryggingarsjóðs að koma í veg fyrir það atvinnuleysi og þá byggðaröskun sem því mun fylgja ef slíkar meginstoðir byggðar stöðvast og beri ríkisvaldi skylda til að skoða allar leiðir í því sambandi. Hér er þó í mörgum tilfellum um afar viðkvæm mál að ræða. Að sjálfsögðu verða þeir aðilar sem eiga slík fyrirtæki að ákveða fyrst og fremst framtíð þeirra. Sveitarfélög koma því mjög að þessum málum einnig. Því óskaði ríkisstjórnin eftir því við Landsbanka Íslands, Fiskveiðasjóð og Byggðastofnun að þessar stofnanir tækju fyrirtæki sem eru mjög skuldsett hjá þeim til sérstakrar athugunar og gerðu það án afskipta ríkisvaldsins og hefur það síðan verið gert. Að mati framkvæmdastjóra Byggðastofnunar virðast um 15--20 fyrirtæki vera slíkar meginstoðir byggða víða um landið.
    Við erum þeirrar skoðunar að hlutafjársjóðurinn geti orðið mikilvægur til að bæta eiginfjárstöðu þessara fyrirtækja. Ég vil hins vegar taka það mjög skýrt fram að það er alls ekki ætlun stjórnvalda að hafa afskipti af því hvernig eða
hvaða fyrirtæki hljóta aðstoð frá hlutafjársjóðnum. Það verða fyrst og fremst sjálfir eigendur fyrirtækjanna, viðkomandi sveitarfélög og slíkir aðilar að ákveða. Þeir verða að óska eftir því. Þetta mál er raunar að mörgu leyti nokkuð erfitt í meðferð og alls ekki einfalt, t.d. að ákveða hvaða fyrirtæki hljóti aðstoð hlutafjársjóðsins.
    Í Nd. var eftir því óskað að hugmyndir að reglugerð yrðu sýndar og ég varð við því og bað jafnframt minn aðstoðarmann að ræða það við fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Ég veit að það hefur verið gert. Ég ætla því ekki að eyða mörgum orðum í að gera grein fyrir þessari reglugerð en nefna þó fáein atriði sem sérstaklega hafa verið til umræðu.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að hlutafjársjóðurinn þjóni útflutningsgreinum. Þetta er að sjálfsögðu umhugsunarefni og spurning hvort á að takmarka starfsemi hlutafjársjóðsins við útflutningsgreinar. Sumir

telja að takmarka eigi starfsemi sjóðsins enn meira og binda t.d. starfsemina við sjávarútveginn. Hins vegar er nauðsynlegt að lesa þessa 1. gr. með 12. gr. í drögum að reglugerð því að þar eru ýmsar takmarkanir, t.d. þær að viðkomandi fyrirtæki teljist vera meginuppistaða í útflutningi og atvinnurekstri á viðkomandi starfssvæði, í öðru lagi að sýnt sé að fyrirtækið búi við jákvæða rekstrarafkomu og viðunandi greiðslustöðu að lokinni endurfjármögnun og í þriðja lagi að samhliða hafi tekist með frjálsum samningum, nauðasamningum eða öðrum aðgerðum að gera eiginfjárstöðu viðkomandi fyrirtækis jákvæða miðað við matsverð fasteigna, véla, tækja og áætlað endursöluverð skipa. Ég kem nánar að þessari grein síðar.
    Þegar þetta er lesið saman hygg ég að niðurstaðan verði sú að þau fyrirtæki verði ekki mörg sem fá fyrirgreiðslu hjá þessum sjóði eða þátttöku hans í atvinnurekstri nema fyrirtæki í sjávarútvegi. Fá önnur fyrirtæki munu geta talist meginuppistaða atvinnu í einstökum byggðarlögum.
    Í reglugerðinni er gert ráð fyrir, eða eins og segir í lögunum, að forsrh. skipi til fjögurra almanaksára í senn þrjá menn í stjórn hlutafjársjóðs Byggðastofnunar og þrjá til vara. Þetta ákvæði hefur einnig verið mjög til meðferðar og verður að skoðast með 6. gr. reglugerðarinnar þar sem sett eru ströng skilyrði um þátttöku stjórnarmanna í meðferð mála hjá sjóðnum og þar segir að hann megi ekki taka þátt í meðferð mála er varða fyrirtæki ef hann situr í stjórn eða er starfsmaður þess. Að sjálfsögðu þarf að velja þessa menn að höfðu samráði við ýmsa aðila sem hér hafa hagsmuna að gæta, en hins vegar, ef gæta á þessara skilyrða sem ætlað er í 6. lið, er ekki einfalt að ákveða, t.d., svo að ég nefni einn aðila, að Byggðastofnun tilnefni mann í sjóðsstjórnina þótt ég telji afar æskilegt að maður tengdur Byggðastofnun komi í þessa stjórn því að ég hygg að það sé alveg ljóst að Byggðastofnun mun taka mikinn þátt í þeirri fjárhagslegu endurskipulagningu og aukningu eiginfjár sem hlutafjársjóðurinn ákveður.
    Í 5. gr. reglugerðar eru ýmis ákvæði um skyldur verkefnisstjórnar og ég vil aðeins geta þar um einn lið sem ég tel að eigi að strikast út og hef reyndar ákveðið að svo skuli gert. Það er 9. liður. Þar segir að verkefnisstjórnar sé m.a. að ákveða laun til þeirra stjórnarmanna í hlutafélögum sem stjórnin skipar og setja þeim erindisbréf.
    Við þetta kom athugasemd í Nd. og ég tel hana réttmæta og tel ekki eðlilegt að stjórn sjóðsins ákveði slíkt. Það er í verkahring stjórnar viðkomandi fyrirtækja.
    Ég vil einnig geta þess að um það var spurt í Nd. hvort við hlutabréfasjóðinn ætti að starfa einhvers konar matsnefnd eins og er við Atvinnutryggingarsjóð. Mér þykir það ekki nauðsynlegt en hins vegar er í 5. gr. ákvæði sem segir að sjóðsstjórnin geti leitað sérfræðiaðstoðar við mat á hlutabréfum, skipulagsbreytingum og aðgerðum til hagræðingar sé þess talin þörf.

    Í frv. er gert ráð fyrir að 600 millj. af hlutdeildarskírteinum njóti ríkisábyrgðar. Þetta setur nokkurn vanda á herðar sjóðsstjórnar því að það er spurningin hverjir eiga að njóta slíkrar ríkisábyrgðar. Í reglugerðardrögum er gert ráð fyrir að hlutdeildarskírteini verði tvenns konar, a- og b-hlutdeildarskírteini, og yrðu a-hlutdeildarskírteini með ríkisábyrgð og þau fái þeir sem eru með trygg veð fyrir þeim skuldum sem til greina kæmi að breyta í hlutafé. Ég tel þetta alls ekki sjálfgefið og ég tel að þetta verði væntanleg stjórn að skoða betur.
    Ég gat áðan um 12. gr. Þar hafa komið fram ábendingar sem þarf að athuga eins og t.d. um að gera það hugsanlega að skilyrði að skuldir við lífeyrissjóði séu gerðar upp áður en hlutafjársjóðurinn kemur inn í fyrirtækið. Þar er um mikilvæg réttindi starfsmanna að ræða sem að öðrum kosti kynnu að glatast og er afar mikilvægt að réttinda þeirra sé gætt.
    Í reglugerðinni er gert ráð fyrir að endurgreiða að fullu og öllu hlutdeildarskírteini innan 10 ára. Gert er ráð fyrir að starfsmenn og eigendur hafi þar vissan forgang að slíkum bréfum og fleira sem ég ætla ekki að rekja hér, en ég held að ég hafi nefnt atriði sem helst voru í umræðunni í hv. Nd.
og í umræðu á milli manna sem þetta hafa skoðað.
    Ég vil segja það að lokum, herra forseti, að um starfsemi hlutafjársjóðsins hefur virst ríkja nokkur tortryggni. Mér þykir það leitt því ég held að menn séu allir sammála um að leita verði leiða til að aðstoða þessi fyrirtæki sem eru meginstoð atvinnu og byggðar á fjölmörgum stöðum í kringum landið. Ríkisstjórnin er tilbúin til að hlusta á allar hugmyndir í því sambandi. Margir hafa talið að rétta leiðin væri meiri gengisfelling en ég hef látið skoða það mjög vandlega og það kom afar greinilega fram, jafnvel þegar margfaldar gengisfellingar eru skoðaðar í tengslum við þessi fyrirtæki sem eru með mjög neikvæða eiginfjárstöðu o.s.frv., að hún dugar ekki til að skapa þeim rekstrargrundvöll nema í mjög skamman tíma. Þannig að það er vafalaust að skuldbreyting og aðgerðir til að auka eigið fé eru mjög mikilvægar í þessu sambandi. Það hefur vitanlega verið séð fyrr, t.d. voru þær hugmyndir uppi í fyrri ríkisstjórn að grípa til aðgerða til að auka eigið fé fyrirtækja í sjávarútvegi og að sjálfsögðu með þetta sama markmið í huga að styrkja rekstrargrundvöll þeirra fyrir almennar aðgerðir.