Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Svo sem fyrir er mælt í þingsköpum þá hefur fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar fjallað um frv. þegar það kemur til okkar til einnar umræðu að lokinni umfjöllun Nd. þar sem málinu var breytt frá því það var samþykkt í Ed. á sínum tíma. Það höfðu komið fram óskir um að fá ýmsa fulltrúa til fundar við nefndina á þessum morgni og við því var að sjálfsögðu orðið. Skylt er að geta þess að ýmsir þeirra, hverra nærveru var óskað, komu með mjög stuttum fyrirvara og raunar án nokkurs undirbúnings. Þar nefni ég sérstaklega Þórð Ólafsson, forstöðumann bankaeftirlitsins, Gunnar Hilmarsson, formann stjórnar Atvinnutryggingarsjóðs, og Jón Sveinsson, aðstoðarmann forsrh., en allir þessir aðilar komu nánast fyrirvaralaust á fund nefndarinnar til að svara þeim spurningum sem nefndarmenn báru fram.
    Hæstv. forsrh. hefur gert allítarlega grein fyrir þeim brtt. sem hér er um fjallað og mun ég ekki hefja þá umræðu að nýju. Ég vil aðeins bæta því við að á fund nefndarinnar í morgun komu einnig fulltrúar ýmissa verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, svo sem Gunnar Helgi Hálfdánarson og Pétur Blöndal, og á fundinn komu einnig fulltrúar LÍÚ, fulltrúar Sambands fiskvinnslustöðva og framkvæmdastjóri þess og Árni Benediktsson, fulltrúi fiskvinnslufyrirtækja sem starfa á vegum Sambands ísl. samvinnufélaga.
    Nefndin hélt u.þ.b. þriggja klukkutíma fund um þetta í morgun þar sem umræður fóru allvíða og óskað var ýmissa upplýsinga og reynt að verða við því eftir bestu getu. Mér skilst að stjórnarandstaðan telji sig hafa þær upplýsingar sem þurfi og á þótti skorta að fyrir hendi væru í morgun þannig að málið verður þá væntanlega afgreitt héðan frá deildinni í dag.
    Rétt er að geta þess að Samtök fiskvinnslustöðva komu sérstakri ályktun á framfæri við nefndina, ályktun stjórnar Samtaka fiskvinnslustöðva frá 20. febr. Rétt er að sú ályktun komi hér inn í umræðuna, en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Meðal ráðstafana núverandi ríkisstjórnar við upphaf starfstíma síns var ákvörðun um að verðbætur skyldu greiddar á frystar sjávarafurðir til skamms tíma og Verðjöfnunarsjóði heimiluð lántaka að upphæð 800 millj. kr. með ríkisábyrgð til að standa undir þessum greiðslum. Þessi bráðabirgðaleið var farin í stað þess að taka á vandanum með almennum efnahagsaðgerðum sem tryggt hefðu rekstrarafkomu fiskvinnslunnar. Engar líkur eru á að Verðjöfnunarsjóður eða fiskvinnslan muni geta greitt þetta lán af tekjum sínum og í umfjöllun ráðamanna, m.a. sjútvrh., hefur ætíð verið gert ráð fyrir að það félli á ríkissjóð.
    Stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva mótmælir því að stjórnvöld skuli ekki breyta texta bráðabirgðalaganna nú þegar verið er að afgreiða þau á Alþingi. Gera þarf ráð fyrir endurgreiðslu ríkissjóðs á láninu og þar séu tekin af öll tvímæli.``
    Hér geri ég hlé á lestrinum og get þess að á

fundinum í morgun kom fram af hálfu stjórnarandstöðunnar ósk þess efnis að texta bráðabirgðalaganna yrði breytt þannig að skýrt væri tekið fram að ríkissjóður ætti að greiða þetta lán. Það mál hefur verið athugað og eðlilegast þykir að texti bráðabirgðalaganna sé óbreyttur þar sem fram hefur komið að þessi lántaka Verðjöfnunarsjóðs er með ríkisábyrgð. Því þarf enginn að velkjast í vafa um á hverjum lendir að greiða þetta lán að lokum ef til þess kemur að lántakandinn getur ekki undir því staðið, eins og á hefur verið bent. Lánið er með ríkisábyrgð þannig að það kemur ekki tillaga um það frá meiri hl. um að þessu verði breytt, enda sjáum við ekki að það breyti efnislega neinu í rauninni að því er málið varðar. Þá segir enn fremur, með leyfi forseta: ,,Í þessari ályktun þá mótmælir stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva harðlega stofnun hlutabréfasjóðs Byggðastofnunar. Þessi sjóðstofnun getur leitt til mismununar fyrirtækja og byggðarlaga og virðist einungis eiga að tryggja kröfur skuldareigenda í fyrirtækjum sem komin eru í þrot. Stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva ítrekar að almennar aðgerðir sem breyti langvarandi taprekstri fiskvinnslunnar í hagnað er eina leiðin út úr vandanum.``
    Ég vík aftur að þessari setningu ,,... þá mótmælir stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva harðlega stofnun hlutabréfasjóðs Byggðastofnunar``. Ég tel rétt að það komi fram að formaður Samtaka fiskvinnslustöðva sagði á fundinum að hann teldi alveg sjálfsagt og eðlilegt að fjármagn frá Byggðastofnun væri notað til þess að styrkja þau fyrirtæki sem væru burðarásar atvinnulífsins á einstökum stöðum úti um land. Fengum við ekki alveg séð, sumir nefndarmenn, hvernig þetta kæmi heim og saman því auðvitað hlyti þar að vera um sértækar en ekki almennar aðgerðir að ræða.
    Meiri hl. nefndarinnar skilar ekki sérstöku nál. við þessa umræðu málsins í deildinni en leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það kom frá Nd.