Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Vitanlega mætti hafa mörg orð um margan fróðleik sem hér hefur komið fram, en ég skal takmarka ræðu mína mjög, enda mun vera samkomulag um að afgreiða frv. hér í hinni hv. deild og fagna ég því. Ég vil þó svara þeim spurningum sem sérstaklega var til mín beint.
    Hæstv. sjútvrh. er staddur hér og hefur verið seinni hluta umræðnanna og mun svara þeim spurningum sem sérstaklega var til hans beint, t.d. um Verðjöfnunarsjóðinn. Ég vil taka það fram að yfirlýsingar hæstv. sjútvrh. í því sambandi njóta fulls stuðnings í ríkisstjórninni og fer þar ekkert á milli mála. Ég tel samt ekki rétt að breyta textanum í frv. Ég lít svo á að yfirlýsing sjútvrh. í því sambandi eigi að nægja.
    Spurt er um eigið fé og rýrnun þess. Þar mun einnig sjútvrh. fjalla um málið, en þær tölur sem ég nota í þessu sambandi eru beint úr skýrslu Seðlabanka Íslands um þróun peningamála með þeirri einu breytingu að sú upphæð sem Seðlabankinn gaf fyrir árið 1987 og hins vegar 1988, eða í lok þeirra ára, var uppfærð með tilliti til verðlags. Ef ég man það rétt, og reyndar hef ég það hér á línuritinu, þá gaf Seðlabankinn upp að eigið fé í sjávarútvegi í lok ársins 1987 miðað við þjóðarauðsmat hefði verið 22,9 milljarðar kr. en í lok ársins 1988 13,6 milljarðar kr. Og þegar þetta var fært til verðlags var það helmingsrýrnun. Þessar sömu tölur nota samtök fiskvinnslustöðva í þeim línuritum sem ég veit að margir þingmenn hafa fengið.
    Hæstv. sjútvrh. óskaði eftir því að þetta eigið fé yrði endurmetið og hefur þá fengið töluvert skárri tölu, sem betur fer, út úr þessu endurmati. Ég hugsa að allir fagni því þó að þarna hafi verið um verulega rýrnun að ræða. Hins vegar var því lýst hér að einn maður, sem afar kunnugur er þessari þróun í sjávarútvegi, hafi reyndar talið að rýrnunin hafi orðið enn þá meiri og kann ég ekki að dæma um það. Ég hef óskað eftir því við Þjóðhagsstofnun að þetta verði vandlega skoðað. Þetta staðfestir fyrst og fremst að afkoman hefur verið erfið, eigið fé hefur rýrnað.
    Hv. þm. Halldór Blöndal endurtók a.m.k. tvisvar í ræðu sinni að ég hefði sagt að gengið skipti ekki máli, orðrétt skrifað niður, og sömuleiðis að gengisfellingar hafi ekki komið að gagni. Þetta er einhver mjög mikill misskilningur og ég vek athygli á því að hv. formaður Sjálfstfl. tók fram hvað eftir annað í Nd. að ég hefði sagt að gengið væri of hátt skráð og þyrfti að lækka. Vitanlega skiptir gengi gífurlega miklu máli í þessu sambandi, en ég hef sagt að fyrir þessi mjög skuldsettu fyrirtæki hefur það sýnt sig aftur og aftur að þau hafa verið komin í sömu stöðuna eftir örfáar vikur eða mánuði. Fyrir þessi mjög skuldsettu fyrirtæki, ég verð að undirstrika það. Ég lét einmitt reikna það sem ég kalla stílfært dæmi fyrir svona meðalfyrirtæki í sjávarútvegi sem ég hef greint ítarlega frá hér á hinu háa Alþingi. Þetta hefur verið afhent öllum þingmönnum og mun ég því ekki lengja umræðu með því að fara yfir það. Þar kom

hins vegar mjög greinilega í ljós að jafnvel með 20% gengisfellingu var þetta stílfærða meðalfyrirtæki í sjávarútvegi samt í greiðsluvandræðum, þurfti aukið fjármagn upp á um það bil, ef ég man rétt, 4--5% fyrstu árin til að komast ekki í greiðsluvandræði vegna þess hvað skuldirnar eru miklar. Ég vakti athygli á því að í flestum tilfellum er það svo fyrir gengisfellingar að veðsetningar eru komnar langt upp fyrir 75% og þá er það venja hjá viðskiptabönkunum að krefja greiðslu og lækka veðsetningarnar. M.ö.o., þetta sýndi að miðað við þessa miklu skuldabyrði varð að halda áfram að veita ný lán til þess að fyrirtækið kæmist ekki í greiðsluvandræði. Sömuleiðis sýndi það sig að ef svokölluð löng lán --- sem eru það ekki í öllum tilfellum, eru oft þriggja til fjögurra ára lán og reyndar er það fremur regla en undantekning í viðskiptabönkunum --- voru lengd í 12--14 ára lán gjörbreyttist greiðslustaða þessara fyrirtækja sem vitanlega sýndi að til þess að gengisfelling komi þessum skuldsettu fyrirtækjum að góðum notum er nauðsynlegt að gera fleiri aðgerðir.
    Vitanlega kemur gengisfelling sterkum fyrirtækjum og skuldlitlum þegar að mjög miklum notum og ég ráðlegg hv. þm., af því að ég veit að hann hefur aðgang að því, að líta við hjá Útgerðarfélagi Akureyringa og spyrjast fyrir um hver framleiðnin sé nú hjá því mjög góða fyrirtæki. Ég hef fengið upplýsingar um það og ég veit að hv. þm. getur eflaust fengið þær. Reyndar hef ég spurt fleiri fyrirtæki, sem eru að vísu ekki eins vel stödd og Útgerðarfélag Akureyringa, um framleiðni í þessum mánuði og þau staðfesta við mig að hún hafi gjörbreyst. Stóri erfiðleikinn núna er vitanlega hjá þessum skuldmiklu fyrirtækjum og svo þar sem afli hefur brugðist sem er því miður mjög víða og er vitanlega mjög alvarlegt mál.
    Hv. þm. spurði af hverju samstarfsnefndarinnar væri ekki lengur þörf hjá hlutafjársjóðnum. Flest þau fyrirtæki sem koma til hlutafjársjóðsins, ef ekki öll, hafa farið í gegnum athugun samstarfsnefndar Atvinnutryggingarsjóðs og því var ekki talið nauðsynlegt að hafa slíka nefnd þar starfandi fasta, enda er gert ráð fyrir að hlutafjársjóðurinn starfi til margra ára en Atvinnutryggingarsjóðurinn sé skammtímalausn.
    Hv. þm. spurði hvers vegna þetta væri bundið við burðarása, eins og hann orðaði það, í einstökum byggðarlögum. Ég tel þá spurningu mjög eðlilega og þarf hún að athugast vel sem ég mun óska eftir af stjórn hlutafjársjóðsins áður en endanleg reglugerð verður gefin út og er tilbúinn að hafa um það samráð við hverja sem er. Þarna er vandrataður hinn gullni meðalvegur eins og svo oft áður, að opna ekki fyrir allt, við ráðum bara hreinlega ekki við það, en engu að síður að hlutafjársjóðurinn geti náð til þeirra fyrirtækja sem mikilvægust eru.
    Hér er enn rætt mjög um hlutafjársjóðinn og honum fundið flest til foráttu. Ég vek athygli á því að Sjálfstfl. lagði til í hugmyndum að efnahagsaðgerðum í september að setja á fót sjóð með 1 milljarði kr. til

að bæta eiginfjárstöðu fyrirtækja. Þetta var alveg augljóslega skynsamleg tillaga. Mér var ekki ljóst þá hvernig þetta átti að gerast. Hér er leið sem menn eru að fara til að reyna að ná bönkum og sjóðum inn í þessa eiginfjáraukningu svo að þetta þurfi nú ekki allt að koma af fé ríkissjóðs. Þessi drög að reglugerð hafa verið sýnd t.d. bæði Byggðastofnun og Landsbanka sem hafa talið hana geta þjónað þessu markmiði.
    Ég vona að ég sé ekki að uppljóstra um neitt þó að ég segi að hjá Byggðastofnun er talið að 400 millj. kr. þurfi að breytast í hlutafé, í fljótu bragði skoðað. Og hvernig á stofnunin að gera það? Við vonum að Landsbankinn, sem er langstærsti aðilinn í þessum skuldamálum sjávarútvegsins, taki virkan þátt í þessu, og því hefur verið haft samráð við Landsbankann um málið. Hér er því á ferðinni hugmynd sem er ekki mjög frábrugðin því sem af öðrum hefur verið nefnd og byggir fyrst og fremst á þeirri sannfæringu að bæta þurfi eiginfjárstöðu fyrirtækjanna.
    Ég tek svo sannarlega undir það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að aukin miðstýring er ekki af hinu góða og við skulum vona að hér sé um bráðabirgðaaðgerð að ræða sem við getum smám saman losnað út úr og fyrirtækin komist yfir á eðlilegar hendur.
    Í öðru lagi vil ég vona að hlutafjársjóðurinn verði aldrei nema að litlum hluta eða minni hluta, skulum við segja, eigandi hlutafjár í einstökum fyrirtækjum, aðrir komi þar inn einnig.
    En stóra spurningin er náttúrlega þessi: Hvernig á að bjarga þessum fyrirtækjum? Þar heyri ég þrenns konar hugmyndir. Á fundi Samtaka fiskvinnslustöðva stóð upp einn maður með mjög góða eiginfjárstöðu í sínu fyrirtæki og sagði: Það á ekkert að gera. Það á bara að láta þau fara á hausinn o.s.frv.
    Hvað gerist þá í mörgum byggðarlögum? Skipin fara í burtu og byggðarlagið er í rúst, algjörlega í rúst. Ég er ekki tilbúinn að taka þátt í slíkri aðgerð, það ætti að koma skýrt fram. Ég tel að það eigi af opinberri hálfu með beinum og óbeinum aðgerðum að beita sér fyrir því að t.d. skipin haldist sem mest í byggðarlögunum. Ef menn vilja selja skip eiga menn að gera það af frjálsum vilja en ekki í gjaldþrotaskiptum þar sem enginn ræður við neitt.
    Það er ótrúlegt að hlusta á þessa samþykkt Samtaka fiskvinnslustöðva. Við mig hafa talað fjölmargir meðlimir í þeim samtökum og sagt: Þetta má ekki gerast að skipin fari burt úr byggðarlögunum. Það bara má ekki gerast. Og þeir koma í hópum og segja: Þið verðið að tryggja það af opinberri hálfu að þetta gerist ekki --- svo samþykkja þeir svona endaleysu, ef ég má orða það svo, sem mér finnst fullkomlega óábyrg.
    Benedikt Bogason var nefndur hér af því að ég hafði farið fram á að hann hefði forustu um þessa athugun. Það gerði ég hreinlega vegna þess að ég kynntist Benedikt Bogasyni þegar ég var sjútvrh. Þá starfaði hann fyrir mig að skuldbreytingu og gerði það af miklum ágætum. Hann er þaulkunnugur þessum málum og að höfðu fullu samráði, að sjálfsögðu, við

framkvæmdastjóra Byggðastofnunar vorum við sammála um að nauðsynlegt væri að fela einum ákveðnum manni með þekkingu og reynslu á þessum sviðum að hafa yfirumsjón með þeirri athugun sem hér fer fram. Annað lá ekki þarna að baki.
    Af því að Ólafsfjörður hefur verið svo oft sérstaklega nefndur og ég veit að hv. þm. Halldór Blöndal ber hann mjög fyrir brjósti, sem ég get vel skilið, væri út af fyrir sig mjög áhugavert að skoða hvað þar hefur gerst og það er eflaust hárrétt sem hv. þm. sagði um þá aflastöðvun sem var þar um lengri tíma. En þar hefur líka gerst það að þangað hafa komið tveir frysti- og fiskvinnslutogarar og ef ég man rétt hefur ísfisktogurum fækkað í tvo og afleiðingin hefur orðið sú að það hefur ekki verið nægur fiskur fyrir fiskvinnslustöðvarnar í landi. Þar hafa verið miklar eignir sem hafa ekki verið arðbærar. Getur ekki verið, þó ég sé alls ekkert að vefengja það að æskilegt hefði verið að fá þangað frysti- og fiskvinnsluskip, að þess hafi ekki verið gætt að hagræða og aðlaga hlutina í landi þessari breytingu sem varð á staðnum? Þetta er umhugsunarefni. Ég held að benda megi á mjög marga staði á landinu þar sem þessa var ekki gætt.
    Hæstv. sjútvrh. mun tala um smábátaútgerðina. Hann hefur verið með þau mál í athugun. Ég get ekki annað en sagt það sama og sagt var við nefndarmenn að það
var ekki talið, þegar ég kynnti mér þau mál, nauðsynlegt að setja hlutdeildarskírteinin inn í lánsfjárlög.
    Hv. þm. Júlíus Sólnes talaði um íslensku krónuna. Ég vil taka undir það sem hann sagði. Það er alveg stórkostlegt að eiga svona sterka krónu en dálítið furðulegt að atvinnuvegurinn sem skapar hana skuli vera á hvínandi hausnum. Ég verð enn að benda á mjög góða grein eftir hinn hálærða hagfræðing Gunnar Tómasson sem birtist í Morgunblaðinu 28. jan. sl. þar sem hann sagði nákvæmlega þetta: Það er ekki hægt að tryggja peningana fyrir öllum skakkaföllum en þetta er það sem menn eru að streitast á móti að verði breytt. Menn eru að streitast á móti og menn halda því fram í verðbréfasjóðum, kaupleigufyrirtækjum og ég veit ekki hvað á að kalla þessi gráamarkaðsfyrirtæki að þetta eigi allt að fá að fljóta ofan á eins og korktappi hvað sem gerist í þjóðfélaginu. Ég held satt að segja að þetta sé miklu alvarlegra mál heldur en við þingmenn höfum gert okkur grein fyrir og kannski miklu hættulegra, þessi frjálshyggjuvitleysa sem hér hefur viðgengist, en við höfum hingað til skilið.
    Það er t.d. fróðlegt með smábátaútgerðina. Hvað hefur gerst þar? Það er eitthvert gleggsta dæmið um stjórnlausa frjálshyggju sem hér hefur átt sér stað. Flestir þessir bátar eru keyptir í gegnum kaupleigur. Flestir þessara báta eru keyptir með þeim tveimur milljörðum sem hér var svindlað inn í landið, ef ég má orða það svo, 1987 umfram lánsfjáráætlun, og það er nú enn þá alvarlegra að kaupleigurnar leyfa sér að taka bakveð í eignum þessara manna. Af hverju er

ekki nóg að hafa veðin í bátunum? Þarna eru fjöldamargar fjölskyldur sem stefna beint á götuna ef svona heldur áfram. Ég fagna því þess vegna að Byggðastofnun tók þetta mál til athugunar en það er ekkert lítið mál. Mér heyrist hv. þm. vera að tala um 400 millj. kr. mál. ( Gripið fram í: 500.) 500 millj. kr. mál. Þetta er vitanlega stóralvarlegt mál og tek ég undir það með hv. þm. og við skulum láta þessa vitleysu okkur að lærdómi verða.
    Ég get líka tekið undir það sem hv. þm. sagði um bankakerfið. Það er allt of veikt. Að það skuli ekki ráða við mál eins og þetta Stálvíkurmál er hreint og beint ótrúlegt. Ég verð hins vegar að mótmæla því að ríkisstjórnin hafi ekki viljað sinna þessu máli. Þetta mál kom um miðjan janúar eða svo og ríkisstjórnin afgreiddi það jákvætt. Ríkisstjórnin tilkynnti bæði Iðnlánasjóði og Landsbankanum að hún væri reiðubúin að auka bakábyrgð þá sem lög gera ráð fyrir að ríkissjóður veiti í þessu sambandi. Ráðherrar í ríkisstjórninni lögðu meira að segja áherslu á að þetta yrði afgreitt jákvætt, og sagt var sem svo: Þessi trygging verður veitt enda komi fyrirtækið með nauðsynlega hluti. Og þannig afgreiddi Iðnlánasjóður málið en ekki Landsbankinn. Ég tek því undir það með hv. þm. að það er hroðalegt að þetta verkefni skuli, að því mér skilst, fara til Danmerkur að stærstu leyti og vitanlega vekur það upp spurningar um það hvort ekki verði að hleypa hér inn sterkum, öflugum erlendum banka. Mér þykir leitt að þurfa að segja það því að ég hræðist það. Ef þessir bankar eru hins vegar svona fara að vakna efasemdir um getu þeirra í íslensku þjóðfélagi.
    Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson talaði um það að birta útreikningana. Það er náttúrlega mjög alvarlegt mál. Þetta er trúnaðarmál og ég veit ekki hvort fyrirtækin vilja fallast á að leggja alla slíka útreikninga á borðið. Þess vegna var sú leið farin að biðja Ríkisendurskoðun að skoða hvert einstakt mál, en ef fyrirtækin heimila það er það vitanlega sjálfsagt mál. Það er ekkert því til fyrirstöðu. Hv. þm. sagði að við þyrftum að ræða um ástæður erfiðrar stöðu. Það mætti halda langa ræðu um það því að þetta hefur m.a. verið viðfangsefnið að skoða. Ég ætla aðeins að nefna það hér að hv. þm. hafa sumir fyrir framan sig þetta línurit sem hv. síðasti ræðumaður nefndi. Frá upphafi ársins 1986 til þriðja ársfjórðungs 1987 hækkaði verðlag frystra afurða mikið meira en raungengi. Og það er kannski von að menn spyrji hvað varð um þennan hagnað. Þrátt fyrir það kemur fram hér á tölum hjá Seðlabankanum að eigið fé hafi rýrnað. Hvernig stendur á þessu? Það eru einmitt svona spurningar sem ég hefði viljað fá svör við. Ég hef rætt þetta hvað eftir annað og afhent öllum þingflokkum þessar miklu tölulegu upplýsingar og skal ég ekki eyða tíma í það. Eitt er þó athyglisvert, að fjárfesting í fiskiskipum á þessu tímabili þrefaldast næstum því svo að augljóslega hefur þetta verið notað að verulegu leyti í slíka fjárfestingu, en það er ekki öll skýringin. Það er margt fleira. Og nú hefur raungengið lækkað um 10--12 af hundraði og þarf

væntanlega að lækka eitthvað meira, en það verður að gerast með samræmdum aðgerðum.
    Ég get einnig upplýst hér, af því að spurt er um afkomuna, að samkvæmt nýjustu tölum frá Þjóðhagsstofnun um afkomu botnfiskvinnslunnar --- miðað við 6% ávöxtun stofnfjár er hreinn hagnaður, eftir að búið er að ráðstafa þessum 6%, 2,4% í plús. Saltfiskurinn er talinn með 6,8% í plús, frystingin rétt um núllið, hér skráð í mínus 0,3. Þetta er náttúrlega mikil breyting frá því sem var. Ég held að ekki þýði að neita því þó við getum svo deilt um hitt, og reyndar er ég sammála því að hér er ekki tekið nægilegt tillit til fjármagnskostnaðar, en að heimta til viðbótar 10--13% gengisfellingu --- um
hvað eru mennirnir að tala? Ætla þeir að taka að sér að ráða við þann óróleika sem þá yrði á launamarkaðinum? Ætla þeir virkilega að taka að sér að flytja þetta fjármagn frá launþegum yfir til útflutningsgreinanna? (Gripið fram í.) Ég vil ekki vefengja Þjóðhagsstofnun í þessu sambandi. (Gripið fram í.) Fyrirgefðu, er þetta ekki 7,8 fyrir tolla? Það er dálítið óljóst þarna. (Gripið fram í.) Nei, 6,8% segir Þjóðhagsstofnun. Nei, ég held að hann sé ekki rekinn með svo miklum hagnaði af því að fjármagnskostnaður er meiri.
    Ég vil biðja menn að athuga það að 10--13% gengisfelling þýðir tilfærslu til botnfiskvinnslunnar upp á um 3 milljarða kr. Við erum að tala um það að bæta þurfi eiginfjárstöðu. Hv. sjálfstæðismenn töluðu í september um 1 milljarð kr. Ég get vel trúað því að til að bæta eiginfjárstöðu þurfi um 2 milljarða kr. Það er um 8% tilfærsla til þessara greina.
    Ég bað Þjóðhagsstofnun að skoða fyrir mig hvernig afkoman breyttist ef einn þriðji af lökustu fyrirtækjunum er ekki tekinn með og mér var sagt að hún mundi lagast um 2--3%. Mér sýnist því að áður en menn fara að hlaupa til og fella gengið um 13% og ætla sér að færa þannig frá launþegum yfir til útflutningsgreinanna sé vissara að skoða ýmsa aðra anga í þessu máli.
    Ég hef ekki tíma til að ræða þetta meira. Það er vitanlega alveg hárrétt sem hér hefur verið sagt. Við ræðum stöðugt um efnahagsmálin og ég tek undir það sem kom fram hjá hinum hv. ræðumönnum að það væri óskandi að við gætum komið þeirri stjórn á okkar efnahagsmál að þetta geti gengið slysalaust a.m.k. út árið og helst næstu 2--3 árin.