Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég hef vanist því að menn geri grein fyrir sínum brtt. hér í deildinni. Mér sýnist að þessi brtt. á þskj. 526 sé til komin vegna þeirra ábendinga sem ég setti fram við 2. umr. um þetta atriði, þ.e. það sem snýr að útboðum hlutafélaga á hlutabréfum í sjálfum sér.
    Ég gerði mínar athugasemdir vegna tilskrifs sem hv. fjh.- og viðskn. hafði borist frá Árna Vilhjálmssyni prófessor þar sem hann færði mjög sterk rök fyrir því að eins og frv. var úr garði gert væri þarna um að ræða mjög alvarlega frelsisskerðingu og gjörsamlega óþarfan hlut þegar kæmi að útboðum hlutabréfa. Þar var gert ráð fyrir að aðrir mættu ekki hafa slík bréf til kaups en verðbréfafyrirtæki.
    Nú hefur náðst einhvers konar samkomulag í hv. fjh.- og viðskn., að mér skilst, um að taka tillit til þessarar athugasemdar, og ég fagna því. Mér sýnist hins vegar, á meðan ekki eru komnar fram aðrar skýringar frá frsm. nefndarinnar, að sú breyting sem hér er verið að gera sé fullþröng. Hér segir, með leyfi forseta: ,,Þó er hlutafélögum, er hafa til þess heimild Verðbréfaþings Íslands, heimilt að annast sjálf útboð markaðsverðbréfa sinna.`` Það liggur ekki alveg ljóst fyrir hvers vegna þörf er á að blanda Verðbréfaþingi Íslands inn í þessi mál. Það má vera að á því séu eðlilegar skýringar, en þær hafa ekki komið fram. Ég vænti þess að hv. 1. þm. Norðurl. v. muni útskýra þetta.
    Í öðru lagi vildi ég nota tækifærið fyrst hann er hér á leiðinni í pontuna og ítreka þá fyrirspurn mína sem ég beindi til hans við 2. umr., og gaf honum reyndar frest til að svara því við 3. umr., um það hvernig bæri að skilja 2. gr. frv. Því eins og ég vakti athygli á, virðulegi forseti, við 2. umr., þá segir hér eftir að búið er að samþykkja brtt. frá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni, eða þá till. sem upprunalega er frá honum komin, að þeir sem lög þessi skuli taka til og hafa atvinnu af viðskiptum með verðbréf skuli afla glöggra upplýsinga um hverjir viðskiptamenn þeirra eru og skrá nöfn þeirra, kennitölur o.fl. á sérstaka reikninga. Og ég beindi þeirri fyrirspurn til frsm. nefndarinnar, hv. 1. þm. Norðurl. v. Páls Péturssonar, hvernig bæri að skilja þetta orðalag: glöggar upplýsingar um hverjir viðskiptamenn fyrirtækjanna eru. Ég held að öllum sé ljóst að það er sjálfsagður hlutur að nafnskrá þessi bréf og fá eðlilegar upplýsingar um nafn, kennitölu og heimili og fleira þess háttar. En hvaða ,,glöggu upplýsingar`` eru það til viðbótar sem þessi fyrirtæki eiga að afla um sína viðskiptamenn?
    Ég held að nauðsynlegt sé vegna túlkunar þessarar greinar í framtíðinni að það liggi fyrir hér í þingtíðindum hver skilningur nefndarinnar er og formanns hennar á þessu orðalagi. Það voru hér uppi ýmsar kenningar og tilgátur við 2. umr. um hvað þetta gæti þýtt, hvort þarna væri um að ræða upplýsingar um ætt og uppruna, lánstraust eða alls kyns persónulega hagi, eins og menn spyrjast fyrir um í

þingnefndum vestan hafs þegar verið er að veita mönnum embætti. Þessu hefur ekki verið svarað. Nú vildi ég sem sé ítreka fyrirspurn mína til hv. formanns fjh.- og viðskn. og óska eftir því að hann veiti glöggar upplýsingar um það hvað þetta orðalag þýðir, þannig að það megi verða þeim til upplýsingar og leiðbeiningar sem þessi lög þurfa að túlka í framtíðinni.