Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Fyrst varðandi brtt. þá sýndist mér að hún væri svo skýr að ekki væri ástæða til að gera sérstaklega grein fyrir henni, en að gefnu tilefni mun ég reyna að gera það.
    Eins og hv. 17. þm. Reykv. gat um er hvatinn að þessari brtt. umsögn eða athugasemd frá Árna Vilhjálmssyni prófessor þar sem hann benti réttilega á að samkvæmt óbreyttu frv. yrði hlutafélagi ekki heimilt að bjóða út eigin verðbréf. Við veltum þessu fyrir okkur og kynntum okkur viðhorf --- ef hv. 17. þm. Reykv. mætti vera að því að hlusta á mig --- viðskrn. til þessa máls og viðskrn. benti á að möguleiki væri á að misfara með þessa heimild og nefndu dæmi úr fortíðinni þar sem hægt hefði verið að misfara með þetta. Og þannig er þetta verðbréfaþing, þessi eftirlitsþáttur, komið inn í tillöguna. Ég held að þetta sé ágæt lausn og að þarna sé ekki verið að níðast á neinum eða leggja óþarfa hindranir á eðlileg viðskipti. Samkvæmt þessu þarf að sækja um það til Verðbréfaþings Íslands að selja þessi verðbréf en að því samþykki fengnu getur fyrirtækið gert það. Ég tel að þarna sé komið með fullnægjandi hætti til móts við hugmynd Árna og tek það fram að nefndin var einhuga um þessa breytingu.
    Varðandi frv. um verðbréfaviðskipti, þ.e. þessar ,,glöggu upplýsingar``, þá er þar átt við að þarna sé um nafnskráningu að ræða, að það liggi ljóst fyrir hver þarna sé á ferðinni, ekki verið að hnýsast í fjölskylduhagi manna að bandarískri fyrirmynd eða skrásetja um þeirra einkalíf. Og tel ég að þeirri fyrirspurn sé svarað. Ég var búinn að gleyma því að hv. 17. þm. Reykv. óskaði eftir svari um þetta atriði frá því við 2. umr. Ég bið hann afsökunar á því að ég var búinn að gleyma því en vona að ég hafi svarað þessu hér með.