Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég vildi láta það koma fram, að að fengnum þessum skýringum hæstv. viðskrh. á orðalagi í þessari brtt. og merkingu þeirra setninga sem skotið hefur verið þarna inn í, drögum við athugasemdir okkar til baka, við hv. 1. þm. Reykv., og föllumst á þetta eins og það er úr garði gert með þeim skýringum sem fram eru komnar.
    Ég vil til viðbótar, herra forseti, aðeins fagna því að hv. 3. þm. Norðurl. e. kom hér og bauð upp á breytingar á 2. gr. Mér er kunnugt að hann hefur í samráði við varamann þess þm. sem upphaflega flutti þessa brtt. unnið að því að útbúa orðalag sem við öll, a.m.k. þrjú, gætum sætt okkur við og ég veit ekki annað en að hann sé að ganga frá því. Þannig að ég held að það væri kannski ágætt að fresta málinu stutta stund á meðan beðið er eftir þeirri tillögu ef forseti gæti sætt sig við það. Ef það næðist fram sýnist mér að allur ágreiningur, smár og stór, í þessu máli sé til lykta leiddur mjög farsællega.