Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Hæstv. fjmrh. lauk máli sínu með því að hvetja hv. deild til þess að afgreiða frv. til lánsfjárlaga, sem hér liggur fyrir, hið allra fyrsta. Hæstv. ráðherra sagði að meðferð málsins hefði dregist af ýmsum sökum sem hv. alþm. væru kunnar. Ég segi það fyrir mína parta að mér eru þessar orsakir ekki sérlega kunnar. Hitt veit ég að lög kveða á um það að afgreiðsla lánsfjárlaga skuli fara fram samtímis fjárlögum þannig að samhengi sé í afgreiðslu mála í fjárlögum og lánsfjárlögum. Þetta hefur tekist nú á undanförnum að ég ætla 4--5 árum og var það mikilsverður áfangi í meðferð fjármála ríkisins og afgreiðslu mála er þau varða hér á hinu háa Alþingi.
    Það er sannarlega mikil afturför og alvarlegt gagnrýnisefni að hverfa frá þessari skyldu og hverfa frá þessari sjálfsögðu vinnureglu hér á hinu háa Alþingi í meðferð mála er varða fjármál ríkisins, bæði fjárlög og lánsfjárlög. Þetta hefur það í för með sér, eins og margoft hefur áður gerst, að fram eftir vetri er verið að þæfa um mál sem ekki hafa hlotið afgreiðslu þegar fjárlög eru afgreidd, það er verið að leitast við að hefna þess í lánsfjárlögum sem tapaðist í fjárlögum. Og sú er einnig raunin nú. Þegar þetta frv. til lánsfjárlaga er komið til seinni deildar, þá hafa komið hér inn ýmis þau mál sem hafnað var að taka inn við afgreiðslu fjárlaga.
    Það er svo enn gagnrýnisefni varðandi þessa meðferð mála að þegar fjárlög eru afgreidd og lánsfjárlagafrv. kannski komið fram og engin vissa hvernig það frv. verður afgreitt --- ef hæstv. fjmrh. hefur lokið fundi sínum þarna í öðrum enda salarins, þá get ég haldið áfram máli mínu --- ef afgreiðsla fjárlaga fer fram undir þeim kringumstæðum eins og nú er, lánsfjárlagafrv. er að vísu komið fram en engin vissa liggur fyrir um hvernig það verður afgreitt, þá skortir þá heildarsýn um meðferð mála er varðar fjármál ríkisins, bæði bein framlög, skattheimtu og lánsfjáröflun, sem nauðsynleg er þegar fjárlög eru afgreidd. Á mörgum sviðum er því þetta gagnrýnisefni og það er í raun hótfyndni af hæstv. fjmrh. að koma hér og biðja hv. deild að hraða afgreiðslu málsins þegar hann hefur brugðist þeirri skyldu sinni að leggja þetta mál fram á eðlilegum tíma og hlutast til um að þeirri skyldu sé sinnt að afgreiða frv. samtímis fjárlögum. Var þó afgreiðsla fjárlaga seinna á ferðinni nú en oftast hefur áður verið.
    Ég mun ekki rekja í mörgum atriðum þær breytingar sem orðið hafa á þessu frv. frá því sem var þegar það var lagt fram og frá því sem gert var ráð fyrir þegar fjárlög voru afgreidd. Hæstv. fjmrh. gat þess að vísu að nokkru og skýrði það sumt, en það mun verða tekið fyrir og athugað nánar í meðferð þessa máls í hv. fjh.- og viðskn. Ég vil þó byrja á því að minna á að það var annar tónn í hæstv. fjmrh. nú en var á haustdögum þegar hann lagði fram og mælti fyrir frv. til fjárlaga. Þá sagði hæstv. fjmrh. með nokkru stærilæti að nú væru breyttir tímar, nú yrðu teknir upp nýir siðir í meðferð fjármála ríkisins, nú ætti ekki að taka eina einustu krónu að láni erlendis

til A-hluta ríkissjóðs. Þetta þóttu að vonum góð tíðindi, bæði mér og öðrum. Við afgreiðslu fjárlaga er þetta hins vegar breytt á þann máta að þá er gert ráð fyrir því að taka í erlendum lánum til A-hluta ríkissjóðs 4 milljarða 635 millj. kr. Það hafði breyst sem því nam á fáum vikum. Og enn er þetta breytt. Þegar þetta frv. til lánsfjárlaga kemur til seinni deildar er gert ráð fyrir að erlendar lántökur ríkisins á þessu ári til A-hluta ríkissjóðs verði 5 milljarðar 135 millj. kr. Heildarlántökur A-hluta ríkissjóðs samkvæmt þessu frv. eins og það liggur fyrir í dag, og enginn veit hvað það verður þegar það verður afgreitt, verða um 10,4 milljarðar kr. eins og hæstv. ráðherra sagði hér áðan.
    Auðvitað á þetta sínar skýringar. En hér er eitt dæmið um það hversu það er rangt, hversu það er röng málsmeðferð að afgreiða lánsfjárlög á allt öðrum tíma en fjárlög eru afgreidd og sýnir nauðsyn þess að láta þetta fylgjast að eins og skylt er, eins og gert hefur verið síðustu 4--5 árin þannig að samhengi sé í afgreiðslu þessara mála. Aðrar erlendar og innlendar lántökur samkvæmt þessu frv. eins og það stendur í dag eru eftir því sem hæstv. ráðherra hefur hér skýrt um 36,5 milljarðar kr., þar af yfir 20 milljarðar af erlendum lánum. Auk þessa eru í frv. opnar heimildir til lántöku innan lands og erlendis bæði fyrir hæstv. fjmrh. og fyrir einstakar stofnanir, m.a. til eins konar skuldbreytinga á afborgunum af erlendum lánum yfir í ný lán þannig að þessir 36,5 milljarðar kr., sem hér eru taldir sem heildarlántökur samkvæmt þessu frv., er óviss tala í hæsta máta og getur orðið miklu hærri ef hinar opnu heimildir frv. verða notaðar sem væntanlega má reikna með miðað við hvílíkt hald hefur verið í orðum hæstv. ráðherra fram til þessa varðandi þessi mál.
    Nú er því ekki að leyna að þessar miklu lántökur, bæði innlendar og erlendar, hafa mikil efnahagsleg áhrif. Í fyrsta lagi hafa innlendar lántökur mikil áhrif á lánamarkaðinn innan lands. Þær miklu innlendu lántökur, sem gert er ráð fyrir samkvæmt þessu frv., þrengja vitaskuld að á innlendum lánamarkaði og þar er þó ærið þröngt fyrir. Orsakir þeirra þrenginga þarf ekki að fjölyrða
um hér. Þær eru m.a. til komnar vegna þess mikla hallareksturs sem nú er í atvinnuvegum landsmanna sem hafa orðið að sæta því að taka lán í lánastofnunum svo sem mögulegt hefur verið til þess að fleyta sér áfram frá einum mánuði til annars. Sú staða er alvarleg. Svo alvarleg að það sætir furðu að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki hafa séð ástæðu til þess að grípa til markvissari aðgerða en gert hefur verið til þessa til að koma atvinnuvegunum á réttan kjöl og skapa þannig grundvöll til þess að þeir í fyrsta lagi geti farið að vinna sig upp frá þeim mikla hallarekstri sem þeir standa nú í til sæmilegrar afkomu og geta þá um leið haft áhrif á það að atvinnuvegirnir þurfi ekki í jafnríkum mæli að leita á innlendan sem erlendan lánamarkað eins og nú er og valda þeim miklu þrengingum og þeirri miklu spennu sem er á lánamarkaði í landinu. Því er nú ekki að heilsa hjá

hæstv. ríkisstjórn. Hæstv. ríkisstjórn virðist láta sér það nokkuð í léttu rúmi liggja þó að svo gangi áfram hjá atvinnuvegunum og, eins og hæstv. forsrh. hefur sjálfur sagt, að ýmis þeirra fyrirtækja muni verða gjaldþrota og ekki neinir tilburðir til þess að rétta við stöðu þeirra þannig að hjá því verði komist.
    En ofan á þessa stöðu atvinnuveganna og ofan á þær miklu þrengingar sem eru á lánamarkaði landsmanna, þá boðar þetta frv. stórauknar þrengingar. Það boðar eins og ég áður sagði 36,5 milljarða í nýjar lántökur, þar af yfir 16 milljarða á innlendum lánamarkaði. Einhvers staðar verður nú þröngt fyrir dyrum hjá einkaaðilum sem þurfa að fá lán til smávægilegra hluta, t.d. til að koma sér áfram í sínum húsnæðismálum þó ekki séu nefnd önnur atriði. Þessi mikla spenna á lánamarkaði mun auðvitað fjarri því styðja þau yfirlýstu markmið hæstv. ríkisstjórnar að lækka fjármagnskostnað í landinu eða reyna að ná því fram að lækka vexti. Þessi mikla spenna á lánamarkaði mun á hinn bóginn þrýsta á að vextirnir hækki og er mikil óvissa um það hvort nokkuð getur orðið úr þeim málamyndamarkmiðum hæstv. ríkisstjórnar að ná niður vaxtakostnaði í landinu. Í þessum miklu lántökum felst sem sé mikil tilhneiging til spennu, ekki einungis á lánamarkaði heldur hefur það einnig áhrif í verðlagsmálum.
    Hæstv. ráðherra sagði hér að samkvæmt nýrri þjóðhagsspá væri gert ráð fyrir því að halli á utanríkisviðskiptum yrði 9,6 milljarðar kr. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir einum og hálfum mánuði síðan var gert ráð fyrir því að halli á utanríkisviðskiptum yrði 14 milljarðar og hefði þá hækkað um 2,5 milljarða frá því sem varð á síðasta ári, en þá var gert ráð fyrir að halli á utanríkisviðskiptum þjóðarbúsins yrði um 11,5 milljarðar. Nú eru mér ekki að fullu ljósar þær skýringar sem hæstv. ráðherra vék afar lauslega að, í hverju það væri fólgið að gert sé nú ráð fyrir því að afkoma þjóðarbúsins verði þó þetta skárri en talið var þegar fjárlög voru afgreidd. En þær miklu erlendu lántökur sem hér er gert ráð fyrir munu sannarlega hafa áhrif á þessa niðurstöðu, ekki áhrif í þá átt að draga úr viðskiptahallanum heldur hið gagnstæða. Og þó að hæstv. ráðherra segi að nú standi spár til þess að viðskiptahallinn verði einungis 9,6 milljarðar, sem er þó hrikaleg tala, þá uggir mig að mikil hætta sé á því a.m.k. að þessi halli verði miklu meiri miðað við þær gífurlegu lántökur sem hér er verið að gera ráð fyrir.
    Hæstv. ráðherra sagði að á þessu ári væri gert ráð fyrir að greiðslubyrði af erlendum lánum yrði 18,8% af útflutningstekjum. Í töflu með lánsfjárlagafrv. er gert ráð fyrir að greiðslubyrði af erlendum lánum verði 18,9% af útflutningstekjum og skakkar þarna litlu, en hann gat þess jafnframt að með þeim auknu lántökum sem þetta frv. gerir ráð fyrir þá sé hætt við að þessi greiðslubyrði fari enn vaxandi. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að það er sannarlega alvarlegt ef við þurfum að verja fimmtu hverri krónu og kannski meira til af útflutningstekjum okkar til

þess að borga vexti og afborganir af erlendum lánum. Það kann ekki góðri lukku að stýra.
    Á síðustu árum hefur verið keppt að því að ná niður greiðslubyrði af erlendum lánum. Og þó að það hafi ekki gengið eins og skyldi og viðskiptahallinn verið allt of mikill þá hefur þó greiðslubyrði af erlendum lánum farið lækkandi frá því sem var t.d. á árunum 1983 og einkanlega á árinu 1984. Það er því enn eitt dæmið um að nú horfir í öfuga átt, alvarlegar horfir en fyrr, að erlendar lántökur eru það miklar og vaxandi að greiðslubyrði af erlendum lánum hækkar enn, að sögn hæstv. fjmrh. um 2% frá því á árinu 1988. Þetta frv. eins og það liggur fyrir sannar það að þessi greiðslubyrði muni fara vaxandi frá því sem hér er gert ráð fyrir. Þetta eru alvarleg atriði í meðferð fjármála ríkisbúsins sem er ástæða til að vekja athygli á.
    Ég held að ég fari ekki að ræða mörg einstök atriði þessa frv. Þó að það hafi komið fram fyrr í umræðum hér á hinu háa Alþingi, þá vil ég enn spyrjast fyrir um það hvar sé ætlast til að taka fé til þess að standa straum af 800 millj. kr. framlagi til frystideildar Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins sem notað er til verðuppbóta á sjávarafurðir. Ekki er gert ráð fyrir því í fjárlögum og ég fæ ekki séð að það sé gert ráð fyrir því í þessu frv. Ég veit að ef grannt er skoðað þá kunna að vera ýmis atriði sem vantar inn í það dæmi sem hér liggur fyrir, sem sýnir að það er ekki allt talið sem þarf að koma fram í framlögðum málum hjá hæstv. ráðherra, og staðan því enn verri en þetta
frv. og þessi gögn bera með sér.
    Ég vil því ítreka þá spurningu, sem raunar hefur hvað eftir annað komið fram áður, hvar ætlunin sé að taka fé til að standa straum af þessum greiðslum. Hæstv. sjútvrh. hefur gefið það í skyn að einnig það fé sem varið er til Atvinnutryggingarsjóðs verði ekki greitt af lántakendum heldur verði það greitt af opinberri hálfu og þá er einnig ástæða til að spyrja: Hvar á að taka fé til þess?
    Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, og eru þar nokkur kaflaskipti eins og vakin var athygli á við afgreiðslu fjárlaga, að tekið sé fé af sérmerktum tekjustofnum Vegagerðar ríkisins sem lögum samkvæmt eiga að renna til vegamála. Það er skert og tekið til ríkissjóðs. Í frv. er gert ráð fyrir því að skerða þessa tekjustofna um 680 millj. kr. Nú voru fjárlög afgreidd með þeim hætti að gert var ráð fyrir því að þessi fjárhæð væri hærri sem ekki yrði skilað til vegasjóðs eða vegaframkvæmda á þessu ári, eða í fyrsta lagi 600 millj. kr. samkvæmt fjárlagafrv., 90 millj. kr. samkvæmt sérstakri sparnaðaráætlun ríkisstjórnarinnar, sem er 690 millj. kr., en auk þess var ekki gert ráð fyrir því að skila af innheimtum tekjum síðasta árs 180 millj. kr. og halda því eftir í ríkissjóðsreksturinn. Þarna var sem sagt gert ráð fyrir því að ekki skyldi skilað til þeirra verkefna sem lög kveða á um 870 millj. kr. til vegaframkvæmda í landinu og þetta fé notað til þess að standa straum af rekstri ríkissjóðs og verkefna á hans vegum.

    Þetta er í fyrsta sinn sem lánsfjárlög fela í sér ákvæði um skerðingu á þessum lögum um fjáröflun til vegagerðar. Það eru nokkur tímamót í því fólgin sem eru í fyrsta lagi býsna alvarleg fyrir alla þá sem hafa áhuga fyrir því að samgöngur verði greiðar á Íslandi og að framkvæmdir í vegamálum gangi fyrir sig með sambærilegum hætti og gerst hefur að undanförnu og það er líka býsna alvarlegt áfall þegar sú stífla brestur sem staðið hefur verið vörð um á undanförnum árum, því það hefur oft verið að því sótt að taka vegafé til þarfa ríkissjóðs í stað þess að láta það ganga til þeirra verkefna sem lög kveða á um.
    Ýmis fleiri ákvæði í II. kafla frv. eru með sama hætti býsna alvarleg. Það má nefna þar t.d. stórkostlega skerðingu á framlögum til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Atvinnuleysi er nú meira en verið hefur í mörg ár og því er spáð að atvinnuleysi fari vaxandi nú á útmánuðum er mikil þörf á því að Atvinnuleysistryggingasjóður geti sinnt þeirri skyldu sinni að standa straum af atvinnuleysisbótum til launafólks sem missir vinnu sína.
    Mér er spurn: Ef svo fer, sem allar horfur eru á og spár standa til um, að atvinnuleysi verði svo mikið á þessum vetri og þörf fyrir atvinnuleysisbætur það miklar að það verði Atvinnuleysistryggingasjóði ofviða að sinna sínu hlutverki, hvar hyggst þá hæstv. ríkisstjórn taka fé til þess að greiða verkafólki atvinnuleysisbætur?
    Þetta er býsna alvarlegt mál vegna þess að hér er um að ræða fé sem er samningsbundið og lögbundið fé Atvinnuleysistryggingasjóðs og fé sem samið hefur verið um í kjarasamningum og síðan staðfest með löggjöf að skuli vera til reiðu ef atvinnubrestur verður fyrir fólkið í landinu. Ég hlýt að líta svo á að það sé býsna alvarlegt, ekki síst þegar svo horfir sem nú, að þetta fé skuli skert með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.
    Ég ætla að geyma mér önnur atriði þessa frv. til síðari umræðna, t.d. skerðingu á framlögum til landbúnaðarins og ýmis önnur ákvæði sem það hefur inni að halda og ekki fara frekar ofan í einstök atriði þess en lýk máli mínu með því að endurtaka að þær gífurlegu lántökur sem hér er gert ráð fyrir eru vitaskuld alvarlegar. Í fyrsta lagi vegna þess að þær fela í sér að stefnt er að nýju þensluástandi, stefnt er að þensluástandi á lánamarkaði sem kemur í veg fyrir yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar um lækkun vaxta. Þær hafa í för með sér að halli á utanríkisviðskiptum verður meiri en ella og greiðslubyrði af erlendum lánum fer á ný stórum vaxandi. Og þær hafa væntanlega í för með sér, a.m.k. mikla hættu á því, að nýtt þensluskeið, ný spenna myndist í þjónustugreinum landsmanna á meðan undirstöðugreinar alls þjóðarbúsins, undirstöðuatvinnuvegirnir eru látnir svelta. Ef svo gengur fram að undirstöður þjóðarbúsins, undirstöðuatvinnuvegirnir fá ekki að bera sig, fá ekki að búa við þau kjör að þeir geti skilað sæmilegri afkomu þá hrynur þessi þjóðfélagsbygging fyrr eða

síðar og það mun hún gera ef þessi hæstv. ríkisstjórn heldur áfram með sama hætti og hún hefur gert til þessa. Þá verður ekki hjá því komist að fyrirtækin í undirstöðugreinum landsmanna fara á höfuðið, verða gjaldþrota eins og hæstv. forsrh. segir, og þá er okkur öllum hætt, í hvaða stöðu sem við stöndum annars í þessu þjóðfélagi. Ef undirstöðurnar bresta þá er yfirbyggingunni hætt og það ætti þessi hæstv. ríkisstjórn að hafa í huga þegar hún leggur fram sín mál hér á hinu háa Alþingi.