Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Mig langar aðeins til þess að leggja orð í belg og vildi helst að fjmrh. færi ekki langt. Mig langar til að spyrja hvaða forsendur séu fyrir þessari lánsfjáráætlun að teknu tilliti til þeirrar stöðu sem atvinnulífið er í um þessar mundir. Hvaða athugun hefur farið fram með tilliti til veikrar stöðu atvinnulífsins? Eru einhver slík plögg til og þá hvaða plögg? Eða er bara látið vaða og ekkert spekúlerað í því hver staðan er á íslenskum vinnumarkaði?
    Það er stutt síðan hæstv. forsrh. gaf yfirlit yfir stöðu efnahagsmála þar sem hann sagði að rýrnun eigin fjár í sjávarútvegi síðasta ár hefði verið 13 milljarðar eða samsvarandi 17 Ólafsfjarðarjarðgöngum. Er í lagi í þeirri stöðu að láta vaða og sópa meiru í kassann, bæði í formi hækkandi skatta og meira lánsfjár? Er það rökrétt? Eru til einhver gögn um þetta, hæstv. fjmrh.? Til sjós nota menn dýptarmæla og radar. Hvað notið þið í fjmrn. þegar þið eruð að gá í kringum ykkur? Það sem við höfum á borðinu er að kvóti fiskiskipaflotans var skertur á síðasta ári um 10%. Í ljósi þess hver eiginfjárrýrnunin varð og tapreksturinn varð mikill voru skattar síðan hækkaðir. Það er alltaf hækkað og hækkað, lánsfé og skattar.
    Ég hef reynslu af því að hæstv. fjmrh. er ekkert voðalega hrifinn af því að svara spurningum en vildi hann kannski vera svo vænn að svara mér einni hógværri spurningu. Svo maður tali við hann á máli sem hann kynni kannski að skilja, fiskistofnar eru til, svo eru til peningastofnar. Skilurðu það? Það er ekki til nema takmarkað magn af peningum, nema ef þú gætir náttúrlega bara prentað takmarkalaust. Það er kannski líka hægt? Eru skattstofnar takmörkuð auðlind eða ekki? Er hægt að fá svar við því? Eru einhvers staðar mörk og hvar eru þau þá? Hefur farið fram einhver athugun á því, kannski í Háskólanum því þar er nú ýmislegt stúderað? Hvenær er hámarksafrakstur? Það er hámarksafrakstur í fiskifræði þegar stofnarnir eru svo og svo stórir. En er alveg sama hvað er ruplað og rænt af íslenskum fyrirtækjum?
    Ég vil meina að þessi skattastefna og þessi efnahagsstefna sem birtist í þessari lánsfjáráætlun sé á hreinni íslensku ekkert annað en rányrkja. Það er verið að skerða möguleikana til bættra lífskjara í landinu. Þetta þýðir ekkert annað en skert lífskjör því það minnkar getu fyrirtækjanna í landinu til að borga sæmileg laun þegar það er ruplað og rænt af þeim vegna þeirrar staðreyndar að skattstofnar eru takmörkuð auðlind að mínu áliti. Síðan er þetta læknað fyrir horn með því að moka erlendu lánsfé inn í landið og íslenskir peningar eru prentaðir í staðinn. Það er náttúrlega reynt að deyfa áhrifin af þessari fíflastefnu með því að moka erlendum gjaldeyri inn í landið og veðsetja þegnana. Telur fjmrh. að hann hafi veðleyfi í íslenskum þegnum? Hefur þú fengið veðleyfi? Ekki hjá mér.
    Ég ætla að leyfa mér að spá því, það kemur svo í ljós hver niðurstaðan verður, að þessi stefna sem er rekin núna í ríkisfjármálum leiði til þess að gatið hjá hæstv. fjmrh. í árslok verður svona 10--15 milljarðar

þrátt fyrir allt sóknarmarkið sem hann leyfir sér. Það er ekki víst að allir fiskarnir eða seðlarnir komi. Svona fjárlög og lánsfjáráætlun gera ekkert annað en að auka spennuna í þjóðfélaginu. Rýrnandi höfuðstólar í íslenskum atvinnuvegum leiða til skertra lífskjara og það er þangað sem þú ert að stefna, hæstv. fjmrh. Þú ert að leiða þjóðina til skertra lífskjara. Samkeppnishæfni og greiðslugeta fyrirtækjanna rýrnar, eftir því sem meira er ruplað af þeim, til þess að borga fólkinu sæmileg laun í landinu. Þvílík stefna þýðir minnkandi afrakstur, það hægist á öllu og þú færð minna í kassann. Þetta er ekki flókið, en það er alltað verið að flækja þetta í einhverjum pappírum sem standa í stöflum og enginn skilur í.
    Ef hæstv. fjmrh. vildi vera svo hógvær að svara því hvort hann telji að íslenskir peningastofnar séu ótakmörkuð auðlind, að það séu engin takmörk fyrir því hvað menn láta vaða. Það á bara að ryksuga í kassann og senda fógetann á fyrirtækin og skapa atvinnuleysi.