Lánsfjárlög 1989
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Fyrr í dag höfðu fallið orð sem lutu að fjárhag Ríkisútvarpsins, en í þeim efnum höfðu nú verið teknar ákvarðanir sem breyta stöðu útvarpsins dálítið frá því sem var. Meginhluti þeirra ákvarðana beinist reyndar að því að borga upp gamlar skuldir og rétta við fjárhag útvarpsins en í allt of litlum mæli til nýrrar og aukinnar dagskrárgerðar frá því sem verið hefur.
    Varðandi þau framlög sem verið hafa til framkvæmda á vegum Ríkisútvarpsins og aðflutningsgjalda- og tollatekjur, sem nú renna í ríkissjóð, er það að segja að gert var ráð fyrir því að þessar tekjur færu fyrst og fremst til þess að byggja upp dreifikerfið. Nú er í þeim efnum hins vegar um að ræða alveg ný viðhorf sem stafa af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi þeirri að um er að ræða margar útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar sem eru ekki eingöngu á vegum ríkisins eins og áður var. Því tel ég að það komi til greina að kanna rækilega hvort ekki er skynsamlegra að Póstur og sími eigi þessi dreifikerfi og stöðvarnar fái aðgang að þeim. Hef ég beðið Ríkisútvarpið og Póst og síma um að kanna þetta mál sérstaklega.
    Ég vil líka benda á það í þessu sambandi að það er gert ráð fyrir því í skipunarbréfi þeirrar nefndar sem fjallar um málefni Ríkisútvarpsins og endurskoðun útvarpslaga að á þessum málum verði sérstaklega tekið og það er gert ráð fyrir því að þessi nefnd skili áliti varðandi endurskoðun útvarpslaganna 10. mars nk. Ég vænti þess því að það þing sem nú situr fái tækifæri til þess að afgreiða ný útvarpslög og þar með að taka á þessum málum.