Viðskiptaráðherrra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 56 frá 16. maí 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, eins og það kemur frá hv. Ed.
    Frv. er flutt sem þáttur í þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur ákveðið í verðlagsmálum þegar tímabundinni verðstöðvun lýkur í lok þessa mánaðar. Þá er hér einnig flutt brtt. um skipan varamanna í verðlagsráð sem til er komin vegna þess hversu oft hefur reynst erfitt að ná saman löglegum fundum í þessari mikilvægu stofnun með skömmum fyrirvara.
    Í 1. gr. frv. er því lagt til að heimilt verði að skipa tvo varamenn fyrir hvern af þeim aðalmönnum sem skipaðir eru samkvæmt tilnefningu ýmissa samtaka í verðlagsráðið ef samtökin óska þess. Skulu þá varamenn taka sæti í ráðinu í þeirri röð sem þeir eru skipaðir. Hér er vitaskuld ekki um stórvægilega breytingu að ræða en tillagan er þó flutt vegna ítrekaðra tilmæla forstöðumanna þessara tilnefningaraðila sem mest umsvif hafa, einkum Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambandsins og verslunarráðsins, og virðast oft eiga erfitt með að mæta á fundum verðlagsráðsins með skömmum fyrirvara, en oft getur verið nauðsynlegt að kalla ráðið saman skyndilega. Hér veldur að sjálfsögðu margt, ekki síst þeirra samningastarf.
    Í 2. gr. frv. er hert á eftirrekstri með því að Verðlagsstofnun fái þær skýrslur og gögn sem hún óskar eftir og sem nauðsynlegt er að hún fái til að geta rækt sitt hlutverk. Ákvæði um dagsektir, sem nú eru í lögunum ef ekki er brugðist rétt við upplýsingaskyldu, hefur reynst lítils megnugt og ekki skilað árangri. Hér er lagt til að það falli niður, en að vanræksla á upplýsingum varði sömu refsingum og brot á verðlagsákvæðum laganna.
    Í 3. gr. frv., sem er kannski veigamest af þeim tillögum sem hér eru fluttar, er lagt til að verðlagning orkuvinnslufyrirtækja og dreifiveitna falli tímabundið undir ákvæði verðlagslaga, hin almennu verðlagslög, um sex mánaða skeið eftir að verðstöðvun lýkur, á þeim tíma sem ríkisstjórnin hefur nefnt umþóttunartíma í kjölfar verðstöðvunar. Þessi tillaga miðar að því að sams konar ákvæði gildi um opinbera aðila og einkafyrirtæki á þessu tímabili. Orkufyrirtækin eru í eðli sínu einokunarfyrirtæki og mikilvægt að þau lúti hinum almennu verðlagsreglum sem settar kunna að verða á umþóttunartíma í kjölfar verðstöðvunar. Þótt þessi fyrirtæki lúti pólitískum stjórnum, völdum af sveitarstjórnum og stundum með aðild ríkisfulltrúa, þá er við því hætt að hver og ein slík stjórn hafi ekki þá yfirsýn yfir verðlagsþróun sem verðlagsyfirvöld eiga að hafa. Vegna gengisbreytinga og hækkana á kostnaði innan lands þurfa orkufyrirtækin fyrirsjáanlega mörg hver að fá hækkun á gjaldskrá, en það er mikilvægt að þeirri hækkun verði haldið í hófi eins og frekast er kostur og í því sambandi er nauðsynlegt að huga að þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar fjárhagsáætlunum sveitarfélaga og fjárlögum á þessu ári.

    Það má segja að hér sé um það að ræða að gera þá tilraun að fela verðlagsráði og Verðlagsstofnun að fjalla um verðlagningu innlendra orkufyrirtækja í stað þess að fjalla um staðfestingu á verðskrám þessara fyrirtækja eingöngu í iðnrn. Ég tel mikilvægt að þessi tilraun verði gerð, ekki síst vegna þess að mjög oft hefur þess gætt þegar kjarasamningar hafa verið á döfinni að báðar hliðar þeirra mála, vinnuveitendur og verkalýðshreyfing, hafa gagnrýnt það að fyrirtæki, sem lúta opinberri stjórn, hafi tekið sér sjálf hækkun á gjaldskrám og lítt skeytt um það hvað öðrum sýnist eða líður þess vegna. Ég tel mikilvægt að eyða þeirri tortryggni sem þarna hefur ríkt og að það sé alveg ljóst að eitt gangi þarna yfir alla, jafnt einkafyrirtæki sem opinber fyrirtæki. Í þessu felst alls ekki að með þessu sé verið að taka verðákvörðunarréttinn af orkufyrirtækjunum. Ekki frekar en það er verið að taka verðákvörðunarréttinn af einkafyrirtækjunum með þeim lögum sem í gildi hafa verið sl. tíu ár eða rúmlega það, þ.e. verðlagslögunum hinum almennu frá árinu 1978, því í tillögum frv. felst það eitt að um sex mánaða skeið skuli opinber orkufyrirtæki, bæði orkuvinnslu og dreifingar, falla undir sömu ákvæði.
    Ég ítreka að ég tel það mjög mikilvægt að þessi tilraun verði gerð til að freista þess að draga úr þeirri óvissu, koma í veg fyrir að mikil skyndihækkun verði á þessum mikilvæga kostnaðarlið heimilanna og fyrirtækjanna í landinu nú þegar verðstöðvuninni lýkur.
    Um gjaldskrá fyrir aðra opinbera þjónustu en orku er það að segja að hún er yfirleitt ólíkt orkunni í miklum mæli niðurgreidd úr ríkissjóði eða sveitarsjóðum og því erfitt fyrir verðlagsyfirvöld, sem venjulega meta tilefni til verðlagsbreytinga á grundvelli kostnaðarþróunar, að taka afstöðu til þeirra mála þar sem fólkvaldir fulltrúar ákveða hversu mikið skuli styrkja tiltekna þjónustu. Svo ég taki dæmi: dagvistunarstofnanir eða strætisvagnar sem hvort tveggja er í mjög miklum mæli ekki háð venjulegri kostnaðarverðmyndun heldur miklu fremur því hvað sveitarstjórnir og í sumum tilfellum ríkissjóður og fjárveitingavaldið ákveða að leggja til slíkrar
þjónustu. Það er því erfitt fyrir verðlagsyfirvöld að taka að sér að veita aðhald að slíku verði ef afleiðingarnar eru halli hjá viðkomandi stjórnvaldi sem það hefur ekki sjálft ákveðið. Ríkisstjórnin hefur hins vegar þegar tekið upp viðræður við Samband ísl. sveitarfélaga um aðhald að hækkun þjónustugjalda eins og frekast er kostur á næstu mánuðum og missirum.
    Í samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 6. febr. sl., sem fjallar um umþóttun í kjölfar verðstöðvunar, var verðlagsráði og Verðlagsstofnun sérstaklega falið að fylgjast með verðákvörðunum einokunar- og markaðsráðandi fyrirtækja. Jafnframt er þeim falið að fylgjast náið með verðlagsþróun í einstökum greinum og beita tímabundið ýtrustu heimildum verðlagslaga ef verðhækkun virðist umfram það sem brýn kostnaðartilefni og afkoma fyrirtækjanna gefa tilefni til. Það er eðlilegt að um það sé spurt hvað í þessu felist. En í því felst að verði verðlagsyfirvöld vör við

hækkun sem ekki er hægt að rökstyðja með kostnaðarhækkun eða mjög slæmri stöðu fyrirtækjanna og ekki tekst samkomulag um að girða fyrir hana verður ákvæðum 8. gr. verðlagslaganna beitt eftir því sem við á. En í þessari grein segir m.a., og með leyfi forseta vitna ég til lagagreinarinnar: ,,Nú er samkeppni takmörkuð að mati verðlagsráðs á sviði þar sem verðlagning er ekki undir verðlagsákvæðum eða samkeppni er ekki nægileg til að tryggja sanngjarnt verðlag eða horfur eru á ósanngjarnri þróun verðlags og álagningar og getur verðlagsráð þá ákveðið hámarksverð, hámarksálagningu, verðstöðvun ... ,, Ég ætla ekki að lesa meira en þarna er greinilega heimild fyrir verðlagsráðið að grípa til verðstöðvunar í slíkum tilfellum eða að neita um verðhækkun ef þannig stendur á.
    Eðli málsins samkvæmt mun þetta eftirlit með einokunar- og markaðsráðandi fyrirtækjum fyrst og fremst beinast að þeim greinum þar sem þessa gætir. Ég nefni þar líka gjaldskrár sem ákveðnar eru af samtökum heilla starfsgreina sem oft geta haft fullkomna einokunaraðstöðu. Verðlagsyfirvöld munu að sjálfsögðu móta framkvæmd þessa máls, en það er ljóst t.d. að á þessum grundvelli verður fylgst náið með fyrirtækjum í samgöngum, byggingariðnaði, nokkrum iðngreinum og stærri verslunarfyrirtækjum. Þá falla líka undir það sem ég vil kalla einokun og markaðsráðandi aðstöðu ýmsar þjónustugreinar, þar á meðal taxtar tannlækna, arkitekta og ýmissa annarra sérfræðistétta sem segja má að hafi svipaða stöðu og iðngildin höfðu á miðöldum, þau setja sínar eigin gjaldskrár.
    Að lokum, virðulegur forseti, langar mig að benda á að svo virðist eins og frv. er prentað í dagskrárskjali að þar sé ekki prentuð nein gildistökugrein. Hér hlýtur að vera um prentvillu að ræða. Í frv. ætti að vera 4. gr. sem í segði: Lög þessi öðlast þegar gildi, eins og venja er. Ég bið hv. fjh.- og viðskn. að athuga þetta mál. En við lok þessarar umræðu legg ég til að þetta mál fari til hv. fjh.- og viðskn. ( Forseti: Það vekur athygli mína í tilefni af þessum ummælum viðskrh. að ég sé ekki að þetta sé heldur í frv.)