Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Mig langar til að fara nokkrum orðum um það frv. sem hér er til umræðu og fjalla um nokkur atriði frv., en alls ekki að ræða það í heild sinni. Fyrst vil ég þó segja að ef það er rétt að það vanti gildistökugreinina í frv. verður frv. auðvitað að fara aftur til Ed. ef svo kynni að fara að flutt yrði brtt. við frv. í Nd. og gildistökuákvæðinu bætt við. Hitt er svo annað mál að líklega er hægt að samþykkja lögin án gildistökuákvæðanna og mundu þau þá ekki taka gildi en væntanlega verða prentuð sem lög frá Alþingi sem taka ekki gildi. Það væri svo sem kannski best við hæfi þegar fjallað er um ýmsar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar. Ég hygg að það sé ljóst að ef frv. hefur ekki verið breytt í Ed. verði það að fara aftur breytt til Ed. því að frv. er nákvæmlega eins prentað í dagskrá og það var lagt fram í upphafi.
    Þetta frv. er hluti af ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar og kom fram í svokallaðri tilkynningu um efnahagsmál sem forsrh. hefur lýst og nokkurn tíma hefur tekið að ræða á Alþingi. Sem fylgiskjal með frv. er samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 6. febr. 1989 um umþóttun í kjölfar verðstöðvunar. Hæstv. ráðherra hefur gert nokkra grein fyrir því sem þar stendur. Ég vil láta koma fram að mér finnst það til fyrirmyndar, sem hefur gerst á undanförnum árum, að Verðlagsstofnun hefur í meira mæli en áður látið fara fram verðkannanir. Ég er sannfærður um að slíkar almennar verðkannanir hafa haft góð áhrif fyrir neytendur í landinu, bæði er varðar verð og gæði á vörum og þjónustu. Að öðru leyti held ég að flest í þessu frv. sé spor aftur á bak og í raun og veru yfirklór til að láta líta svo út að nú ætli ríkisstjórnin að halda verðlagi í skefjum.
    Ég ætla ekki að gera athugasemd við 1. gr. frv., sem mér sýnist vera sjálfsögð breyting og er til leiðréttingar á lögum, en sú tillaga fjallar eingöngu um að heimilt sé að tilnefna varamenn í ráðið. Í 2. gr. er enn fremur ákvæði sem líta má á sem eins konar leiðréttingu á lögunum og varðar viðurlög. En 3. gr., sem er nánast eina greinin sem er þess virði að rædd sé, fjallar um orkuvinnslufyrirtæki og dreifiveitur.
    Ég hlustaði með athygli á hæstv. ráðherra og ég verð að segja honum til hróss að ræða hans bar keim af því að hann væri að afsaka flutning þessa frv. Ég skil það svo að hæstv. viðskrh. hafi ekki sjálfur haft frumkvæði að því að setja þessi höft í lögin heldur hafi hugmyndin komið annars staðar að. Hæstv. viðskrh. hefur verið í hlutverki varnarmannsins sem reynir að gera hugmyndir annarra hæstv. ráðherra sem veigaminnstar þegar komnar væru í lagalegan búning.
    Í 3. gr. frv. er sem sé sagt að á svokölluðu umþóttunartímabili, frá 1. mars til 1. september, skuli Verðlagsráð fjalla um verðbreytingar á raforku og annarri orku frá fyrirtækjum, bæði orkuvinnslufyrirtækjum og dreifiveitum. Síðan segir hæstv. ráðherra meginrökin fyrir því að þessi mál séu færð undir Verðlagsstofnun að sjaldnast sé um niðurgreiðslur að ræða á raforku og orku. Við skulum aðeins kanna þetta betur. Lítum t.a.m. á þá

orkunotkun sem er hvað viðkvæmust í landinu, það er raforkunotkun til húshitunar. Sú orka er niðurgreidd með tvennum hætti. Í fyrsta lagi hefur fjárveitingavaldið ákveðið að greiða niður sem samsvarar 63 aurum á kwst. og síðan hefur landsvirkjunarstjórn samþykkt að gefa afslátt, bæði til Rafmagnsveitna ríkisins og eins til Orkubús Vestfjarða, sem samsvarar 31 eyri. Samtals gerir þetta í niðurgreiðslur 94 aurar á kwst. Þessu til viðbótar skal það tekið fram að þessi tegund raforku er ekki skattlögð eins og raforka til annarra nota nema raforka sem framleidd er með dísilstöðvum í eigu ýmissa aðila.
    Það er jafnframt ljóst að verðlagning á orku frá Landsvirkjun er bundin í lögum og í þeim lögum, lögum um Landsvirkjun, er gert ráð fyrir að Þjóðhagsstofnun gefi álit sitt á verðhækkunartilefnum og síðan er því lýst hvernig með skuli fara eftir því hvort umsögn Þjóðhagsstofnunar er jákvæð til hugmynda Landsvirkjunar um verðbreytingu. Ég tel að með þessu frv. sé hæstv. ráðherra, sem sjálfur er fyrrverandi forstjóri Þjóðhagsstofnunar, að gera nokkuð lítið úr gildi þeirrar stofnunar. Ég er satt að segja hissa á hæstv. ráðherra að hafa fallist á að flytja tillögu þessa efnis.
    Rafmagnsveitur ríkisins hafa hingað til þurft á samþykkt iðnrn. að halda til að hækka sinn taxta og ég veit ekki betur en hæstv. viðskrh., sem flytur þetta frv., sé sjálfur æðsti yfirmaður orkumála, sé sjálfur iðnrh. og geti sem slíkur komið í veg fyrir hækkanir á taxta Rafmagnsveitna ríkisins án þess að þetta frv. sé samþykkt. Ég vek sérstaka athygli á því. Þumalputtareglan er að þegar Landsvirkjun þarf að hækka raforkuverð til Rafmagnsveitna ríkisins þurfa þær með sjálfvirkum hætti u.þ.b. 65% af þeirri hækkun. Þetta er sú þumalputtaregla sem við hefur verið stuðst. Ég staðhæfi það sem fyrrum ráðherra þessara mála að sveitarfélagaveiturnar hafa fylgt þessu verðlagi nokkurn veginn og bendi ég á að Orkubú Vestfjarða hefur sömu verðlagningu og Rafmagnsveitur ríkisins og svo er um flestar aðrar rafveitur í landinu.
    Þá kemur kannski að meginspurningunni og hún er sú: Er eitthvað sem gefur tilefni til þess að ætla að þessi fyrirtæki hækki sína þjónustu eða hækki
orkuna umfram það sem eðlilegt getur talist? Eru einhver dæmi um það? Er eitthvað í bígerð sem bendir til þess? Ég verð að segja að ég hef ekkert heyrt sem lýtur að því að það sé nauðsynlegt að binda þessar stofnanir, þessi fyrirtæki, í verðlagslöggjöfina með þeim hætti sem hér er ráð fyrir gert. Ég veit satt að segja, get tekið svo djúpt í árinni, að hér er verið að láta undan, ég ætla ekki að nafngreina neinn, einum af hæstv. ráðherrum sem reyndar starfaði með okkur í fyrrv. ríkisstjórn, mér og hæstv. viðskrh., og ég lýsi undrun minni á því að það skuli gert með þessum hætti að tilefnislausu. Ég vil þó leyfa mér í þessu sambandi að spyrjast fyrir um hvort Landsvirkjun hafi beðið um hækkun og hve sú hækkun er mikil. Ég hef grun um að hækkunarþörf

Landsvirkjunar sé um það bið 10% eða þar um bil, liggur á bilinu 9--11%, sem er mjög auðvelt að finna út því að verð á orku frá Landsvirkjun hefur staðið í stað langtímum saman. Á sama tíma hafa orðið gengisbreytingar, en milli 80 og 90% af útgjöldum Landsvirkjunar eru afborganir og vextir erlendra skulda fyrirtækisins.
    Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að ef ríkisstjórnin ætlar ekki að hækka raforkuna frá Landsvirkjun í takt við breytingu á genginu er verið að safna erlendum skuldum. Það gerist þannig að Landsvirkjun getur ekki greitt skuldir sínar eins og til var ætlast. Erlendar skuldir safnast upp og verða meiri en ráð var fyrir gert. Þetta hefur síðan það í för með sér að það verður meira af erlendu fjármagni hér í umferð en ætla mátti. Slíkt, eins og allir vita, verður til þess að fjármagnskostnaður fyrirtækja og almennings í landinu hækkar. Þetta er samkvæmt hagfræðikenningum sem hæstv. ráðherra þekkir mun betur en ég.
    Hitaveiturnar í landinu hafa á undanförnum árum þurft á því að halda að leita til ríkisvaldsins um fyrirgreiðslu og í því máli sem við ræddum fyrr á þessum fundi, þ.e. þegar við ræddum um frv. til lánsfjárlaga, er í 5. gr. þess frv. rætt um að það sé heimilt að skuldbreyta fyrir sveitarfélög og fyrirtæki þeirra og síðan eru taldar upp einar sex hitaveitur og opin heimild til fleiri hitaveitna. Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Getur það verið rétt að þegar skuldbreytingar eru leyfðar og þegar breytingar voru gerðar á hitaveitufyrirtækjum fyrir nokkrum mánuðum hafi það verið gert með því skilyrði að verðlagning á heitu vatni frá þessum fyrirtækjum yrði þannig að fyrirtækin söfnuðu ekki upp óhóflegum skuldum? Ég get svarað þessari spurningu því að á þeim tíma er ég starfaði í ráðuneytinu var þetta gert og þetta var gert að skilyrði og hafði verið gert þá nokkur ár á undan. Ég held að þetta sé enn gert að svo miklu leyti sem slík starfsemi fer fram enn þá, en nú hefur svokölluð hitaveitunefnd verið lögð niður.
    Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að ef Verðlagsstofnun, vegna afskipta stjórnvalda, ætlar að halda verði niðri á þessum fyrirtækjum er ríkisstjórnin að gera þessum fyrirtækjum ókleift að standa við þá samninga sem gerðir voru við sjálft ríkisvaldið. M.ö.o.: Hægri hönd ríkisvaldsins veit ekki hvað sú vinstri gerir. Þetta er afar alvarlegt mál af því að þetta þýðir að ríkisvaldið tekur ekki mark á eigin samningum við þau fyrirtæki sem það hefur sjálft verið að gera samninga við. Ég ætla ekki að lesa bréf frá Sambandi ísl. hitaveitna, en þar kemur mjög sterklega fram að engin ástæða er til að binda þetta í lögum. Þar er bent á að hækkanir hitaveitna og reyndar annarra orkuveitna hafa á undanförnum árum verið mun minni en hækkun á verðlagi almennt í landinu. Ég vil geta þess hér að á árunum 1984--1988, þegar lánskjaravísitalan hækkaði um 157--177%, hækkaði raforkuverð hér á landi um 75,5% eða um helminginn af lánskjaravísitöluhækkuninni. Og ég spyr: Hvaða tilefni er til þess að taka þessi fyrirtæki fyrir sérstaklega núna?

    Hv. iðnn. Nd. bað Orkustofnun um að reikna út hvert sé verð á raforku og hvert hafi verið verð á raforku á undanförnum árum. Ég er með þessa skýrslu hérna fyrir framan mig. Þar er skýrt sýnt með dæmum frá hlutlausri stofnun að orkuverð hér á landi hefur ekki á þessum áratug verið lægra og til húshitunar aldrei verið lægra, þ.e. raforka til húshitunar. Og ég spyr: Hvaða tilefni er til að setja þessi fyrirtæki sérstaklega í þessi bönd þegar ljóst er, og taki nú hæstv. ráðherra vel eftir, að einmitt þegar sveitarfélögin sjálf tóku ákvörðun um gjaldskrár og þegar þessi fyrirtæki voru látin sjálf sjá um sig lækkaði raforkan og þá lækkaði yfirleitt hitaveitutextinn meira en áður. Þá undanskil ég Hitaveitu Reykjavíkur sem var rekin með dúndrandi tapi á árum áður vegna þess að það var eina hitaveitan sem mældist í vísitölunni og það þekkir hæstv. ráðherra.
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að kæmi fram. Ég vil enn fremur bæta því við að nú er verið að undirbúa að greiða niður orku til sumra fyrirtækja en ekki annarra. 100 millj. kr. eða þar um bil eiga að ganga úr ríkissjóði til þess arna. Það á enn að skekkja orkuverð á milli fyrirtækjanna í landinu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hann að það að skekkja verð á milli fyrirtækja geti með þessum hætti án þess að um venjulegar gjaldskrárbreytingar sé að ræða komið lagi á þessa hluti? Og að allra síðustu ætla ég að spyrja ráðherrann: Man hæstv. ráðherra eftir því 1983 þegar stíflan brast, þegar búið var að
halda niðri verði á orkunni í landinu og stíflan brast með þeim ósköpum að verð á orku varð að hækka verulega sem varð til þess að íþyngja verulega bæði einstaklingum og fyrirtækjum í landinu? Man hæstv. ráðherra hvers vegna þetta gerðist? Það gerðist vegna þess að stjórnvöld voru að reyna að hemja verðhækkanir, en bjuggu til stíflugarð sem var dæmdur til þess að bresta í tímans rás. Síðan hafa stjórnvöld haft vit á því að skipta sér ekki af þessum málum heldur láta þá sem eru kjörnir til þess, annaðhvort sveitarstjórnarmenn eða aðra kjörna, þar á meðal kjörna af Alþingi eins og stjórnendur Landsvirkjunar, sjá um þessi mál með þeim árangri að aldrei hefur verið betur haldið á þessum málum. Það getur vel verið að það sé frekt og ósvífið að spyrja með þessum hætti, sérstaklega hæstv. viðskrh. sem ég veit að skilur þetta öðrum ráðherrum betur, en samt sem áður er þetta hans málaflokkur jafnvel þótt hann hafi ekki fundið upp á þessum ósköpum. Ég tel að um leið og ríkisvaldið ætlar að taka að sér að hafa svona strangt eftirlit með verðlagningu á þessum hlutum leiði það einungis til þess að hætta verður á að það verði farið að spila póker við ríkisvaldið um verðlagninguna eða að öðrum kosti að verðhækkunartilefnin hlaðast upp. Síðan brestur stíflan með þeim afleiðingum sem við þekkjum.
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði að ræða fyrst og fremst þetta atriði sem ég skil illa hvers vegna er verið að setja í lög þó að ég hafi hlustað mjög vel á afsökunarræðu hæstv. ráðherra.