Sjúkraliðar
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Jóhanna Þorsteinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umræðu er frv. til l. um breytingu á lögum nr. 58/1984, um sjúkraliða. Mig langar til að gera örstutta grein fyrir störfum sjúkraliða.
    Það eru rúm 20 ár síðan þetta starfsheiti kemur inn í heilbrigðisstéttirnar og var upphaflega gert til að mæta mjög aðkallandi þörf innan heilbrigðisstéttanna þar sem skortur á hjúkrunarkonum var og er víst enn þar innan dyra. Þetta námskeið var upphaflega þrír mánuðir, þá níu mánuðir, síðan eitt ár og nú er það komið í þriggja ára nám í fjölbrautaskólunum. Endurmenntun sjúkraliða hefur verið fyrir hendi síðan 1979 og síðustu ár hafa námskeið verið haldin bæði til geðfræðslunáms, barnahjúkrunar, hjúkrunar aldraðra og heimahjúkrunar. Það sem verið er að tala um í sambandi við þetta frv. er að það er kannski ekki verið að gera lítið úr sjúkraliðum eða hjúkrunarfræðingum en það er verið að halda niðri ákveðinni kvennastétt. Það vill svo til að það er kannski ekki eina starfið sem verður fyrir þessu, en það er mjög oft í sambandi við umönnunar- og hjúkrunarstörf sem eru illa launuð. Mér þykir rétt að það komi skýrt fram að ef sjúkraliði starfar á hjúkrunarsviði og vinnur undir stjórn þess hjúkrunarfræðings sem fer með yfirstjórn viðkomandi stofnunar, þá takmarkar þetta dálítið starfssvið sjúkraliða þar sem hjúkrunarkona eða hjúkrunarfræðingur á hverri deild á að bera ábyrgð á störfum sjúkraliða sem er út af fyrir sig engan veginn sæmandi því það ber hver og einn ábyrgð á sínum störfum hvar og hvenær sem er.
    Þá vil ég líka nefna á að sjúkraliðar eru farnir að vinna á miklu fleiri stofnunum en upphaflega var gert ráð fyrir. Ég er hérna með reglugerð fyrir Sjúkraliðaskóla Íslands. II. kaflinn er um starfsréttindi og starfssvið. Þar er ýmislegt tekið til sem sjúkraliðum er ætlað að starfa. Þetta er ósköp venjuleg aðhlynning sem er í sjálfu sér sjálfsagt grunnur að þeirri vinnu sem sjúkraliðar framkvæma en auðvitað hafa breyttir tímar kallað á breytta reglugerð eða breytta starfshætti.
    Mér finnst líka að það hafi svolítið að segja í sambandi við 2. mgr. frv. þar sem talað er um að ráðuneytið geti heimilað að sjúkraliði beri ábyrgð á störfum sínum. Mér finnst þetta líka vafasamt því þessi heimild getur verið með ýmsu móti. Ef við setjum okkur hreinlega í spor sjúkraliðanna er það fyrsta hugsun hjá öllu því fólki sem fæst við uppeldis- og umönnunarstörf: Hvað gera sjúkraliðar meðan þeir bíða eftir þessari heimild? Það hefur verið svo í þau 20 ár sem sjúkraliðar hafa verið starfandi innan heilbrigðisstéttanna að án þess að ég leggi nokkrum illt til er ég ansi hrædd um að heilbrigðisstofnanir hafi hreinlega gengið á því að sjúkraliðar hafa verið til staðar til að vinna verk sem hjúkrunarkonur hafa hreinlega ekki verið til til að vinna. Ekkert nema ágætt um það að segja. Einhver verður að vinna þessi störf. En mér finnst að það þurfi að koma sérstaklega fram hér að svona lagað, eins og heimild um að

sjúkraliði megi vinna og bera ábyrgð á sínum störfum, kemur fyrst og fremst niður á skjólstæðingum okkar sem eru þeir sem við erum að vinna við, þ.e. sjúklingar. Það eru þeir sem yrðu þá að gjalda fyrir það. Svo verður líka að segjast eins og er að hjúkrunarfræðingar eru alls ekki á öllum þeim stöðum þar sem sjúkraliðar hafa starfað og eru í starfi. Þetta á við t.d. um hina ýmsu staði innan heilbrigðiskerfisins. Þá á ég t.d. við tannlækna, ég er að tala um heimahjúkrun, ég get verið að tala um öldrunarheimili og annað sem er stór punktur, fjölfötluð börn. Það vill nefnilega þannig til að þar eru yfirmenn þroskaþjálfar. Það segir okkur beinlínis að sjúkraliðar geti þá alls ekki unnið á þeim stofnunum því þar er ekki um hjúkrunarfræðing að ræða sem sjúkraliðar gætu unnið hjá eða ekki hjúkrunarfræðingar sem gætu borið ábyrgð á störfum sjúkraliða þar.
    Það er líka erfitt að sætta sig við þessa heimild því að hún takmarkar í rauninni endurnýjun á reglugerð og starfsréttindum og starfssviði sem eftir því sem ég les þessa reglugerð þarf örugglega að taka til rækilegrar endurskoðunar.
    Ef ég mætti orða 1. mgr. svona: ,,Sjúkraliðar sem starfa á hjúkrunarsviði vinna undir stjórn þess hjúkrunarfræðings sem fer með yfirstjórn viðkomandi stofnunar, deildar eða sviðs og bera ábyrgð á störfum sínum gagnvart honum``, þ.e. bætt væri þarna inn í þessu litla orði ,,sem``, breytti það afskaplega miklu. Það breytir t.d. því fyrir sjúkraliða sem starfa á hjúkrunarsviði að þar með opnast svið sem ekki er bara innan sjúkrahúsanna heldur eins og ég gat um áðan opnast atvinna t.d. í sambandi við fjölfötluð börn, leið fyrir sjúkraliða til að vinna þar að heilbrigðismálum. Að vinna undir stjórn þess hjúkrunarfræðings sem fer með yfirstjórn viðkomandi stofnunar er í rauninni hægt að sætta sig við ef það er einungis þessi eini hjúkrunarfræðingur, en það hefur ábyggilega verið mjög erfitt fyrir hjúkrunarfræðinga, sem eru kannski tíu og tólf á hverri vakt, að vita undir hvers stjórn hver á að vinna.
    Svo vil ég líka taka annað fram, sem er alveg dæmigert líka fyrir þessar stéttir og sjúkraliðar hafa mjög fundið fyrir, en það er að þetta er vaktavinna sem er yfirleitt mjög erfið og er mjög slæmt hve ör og mikil skipti eru innan þessara stétta. Þá á ég bæði við hjúkrunarfræðinga og eins sjúkraliða. Það gefst sjaldan tóm til að skapa eitthvert samband á milli sjúklingsins annars vegar og þess hjúkrunarfólks sem hann þarf að vera hjá tímabundið og það þykir mér mjög miður. Ég held að það væri vert að athuga að þessi tengsl eru mjög mikils virði.
    Ég ætla svo sem ekkert að fjalla meira um þetta, en ég vona að það komi til umræðu aftur og þá getum við rætt fleiri möguleika á þessu sviði. En ég vildi vekja athygli á því að það sem felst í frv. núna er það sem t.d. sjúkraliðar geta ekki sætt sig við. Það hefur komið í ljós að þeir vilja fella þarna inn eitt orð sem skiptir mjög miklu, finnst mér, og taka út önnur, þ.e. ,,getur ráðuneytið heimilað``. Það væri gaman að

heyra frá t.d. heilbrmrh. hvernig hann hugsi sér þessa heimild í framkvæmd.