Orlof
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Flm. (Björn Grétar Sveinsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 30 frá 1987, um orlof, þskj. 499. Flm. auk mín er hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.
    Sú meginbreyting sem frv. þetta felur í sér er á þann veg að í þessu frv. er gert ráð fyrir því að varsla orlofslauna í bönkum eða sparisjóðum verði meginregla og skylda. Í núgildandi lögum er meginreglan sú að orlofslaun séu í vörslu atvinnurekenda sem greiðir þau kauptryggð þegar launþegi fer í orlof. Aftur á móti er heimildarákvæði í núgildandi lögum um vörslu orlofslauna í bönkum og sparisjóðum. Það heimildarákvæði tryggir ekki að stéttarfélögin eða einstakir launþegar hafi með það að gera hvor leiðin er valin.
    Reyndin hefur orðið sú að varsla orlofslauna í öruggum peningastofnunum hefur orðið sú leið sem aðilar hafa talið æskilega og betri fyrir launamanninn, enda hlýtur það að vera grundvallaratriði og hugsun orlofslaga á hverjum tíma að gæta hagsmuna hans því þetta er hluti af launum, að lágmarki 10,17%, sem er ætlað til að taka sér eðlilega hvíld frá brauðstriti og hversdagsleika.
    Ástæðan fyrir þessari lagabreytingu er fyrst og fremst sú að þannig eru orlofslaunin varðveitt með tryggasta hætti og eru ávallt til reiðu þegar að orlofstöku kemur. Það er komin reynsla á þessa aðferð og hún hefur gefist vel.
    Einnig er í þessu frv. gert ráð fyrir að stéttarfélögin verði ávallt beinn aðili að ákvörðunum um varðveislu orlofslauna sem er nauðsynlegt til þess að þau geti sinnt þeirri skyldu, sem þeim ber, að fylgjast með og ganga úr skugga um að sem best sé tryggður réttur launafólks, en í núgildandi orlofslögum skortir mjög á að svo sé.
    Þá er í þessu lagafrv. gerð sú breyting að því aðeins séu launamanni greidd áunnin orlofslaun við ráðningarslit að samið hafi verið um vörslu þeirra hjá launagreiðanda.
    Virðulegur forseti. Með frv. þessu telja flm. að varðveislu orlofslauna sé best fyrir komið eins og það kveður á um. Þetta er byggt á þeirri reynslu sem nú þegar er komin á núgildandi orlofslög og ekki síður á vilja launafólks að sá hluti launa sem ætlaður sé til orlofs sé ætíð til reiðu þegar að orlofstöku kemur, en við óttumst að þar geti orðið mikill misbrestur á ef farið er eftir aðalreglu núgildandi orlofslaga.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú skýrt í nokkrum orðum tilgang þessa lagafrv. Ég vænti þess að málið fái góða umfjöllun og afgreiðslu og verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. félmn.