Orlof
Þriðjudaginn 21. febrúar 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég fagna þessu frv. og tek undir efni þess. Hér leggja tveir reyndir verkalýðsforingjar til breytingar á lögum um orlof sem virðist vera réttlætismál sem ástæða er til að athuga og styðja og það er eina erindi mitt í þennan ræðustól. Eins og lögin eru núna er viss hætta á því að misfarið verði með orlofslaun, þ.e. að atvinnurekendur haldi þeim eftir, og þá er hættan vitanlega mest þar sem um ótryggan rekstur er að ræða. Við þekkjum mörg dæmi um það að atvinnurekendur freistist til þess að nota í reksturinn fé sem starfsfólkið á með fullum rétti, þ.e. launatengd gjöld, og það hefur oft kostað launafólk ómælda fyrirhöfn að ná rétti sínum hafi hann verið fyrir borð borinn. Það er því full ástæða til að tryggja að svo verði ekki hvað þetta mál varðar. Þetta er ekki flókið heldur einfalt og auðskilið réttlætismál og ég vil aðeins taka undir efni þess með þessum orðum og láta í ljós ósk um framgang málsins.