Verðbréfaviðskipti
Miðvikudaginn 22. febrúar 1989

     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi fagna því að þetta frv. er komið hingað til Ed. Ég tel að það sé að meginuppistöðu mjög gott og ætti að verða til þess að beisla þennan markað sem hefur verið kallaður ,,grái markaðurinn``.
    Miðað við það sem ég þekki til þá hafa átt sér stað á þessum markaði það sem sumir mundu telja ólögleg viðskipti. Aðrir mundu telja markaðinn vera að koma fram með það sem vantað hefur á peningamarkaði og sá skortur sem er á peningum komi þarna fram. Maður veit um það eða hefur haft um það grun að þarna eigi sér stað mjög mikil affallaviðskipti. Það eru lögmál markaðarins sem gilda á þessum ,,gráa markaði``, og það er svo sem ekkert óeðlilegt að svo sé þegar mjög mikill skortur er á peningum. Hér er alla vega verið að reyna að setja lög um þetta.
    Í 30. gr., sem ég held að sé mjög góð, er verið að mæla fyrir um ákveðna bindiskyldu, jafnframt því sem verið er að gefa Seðlabankanum ákveðnar heimildir til þess að grípa inn í og ákveða hver vaxtamunur megi vera. Ég tel þetta af hinu góða. Hins vegar hef ég þá trú að þetta geti leitt af sér að annar markaður verði stofnaður við hliðina, svokallaður ,,svartur markaður``. Ef við tökum sem dæmi að Seðlabankinn ákvarði að ekki megi vera meira en 15% afföll af ákveðnum skuldabréfum, ákveðnum áhættuflokki, eins og þarna er talað um, hvað á þá að gera með þau skuldabréf sem aðilar vilja koma þarna inn á og eru tilbúnir að selja með 25--30% afföllum? Hvað á að gera við svoleiðis viðskipti? Á að senda þau eitthvað annað, út á hinn svokallaða ,,svarta markað"?
    Ég vil í stuttu máli skýra það hvernig verðbréfamarkaðir urðu til og hvernig þetta hefur þróast á síðustu 4--5 árum, eins og ég þekki til. Ætli það hafi ekki verið fyrir svona 4--5 árum að Fjárfestingarfélagið byrjaði, síðan Kaupþing og Ávöxtun, að bjóða fólki upp á það að leggja inn til sín peninga sem þau ætluðu að ávaxta og þá aðallega með kaupum á svokölluðum þriðjamarspappírum, en það eru viðskiptavíxlar og viðskiptaskuldabréf, og gátu náð upp með þessum kaupum góðri ávöxtun fyrir þessa aðila sem lögðu peningana inn. Bankarnir sáu að þarna var mikinn vaxtamun að fá og sáu að þarna var gróðavænlegur atvinnuvegur. Tóku þeir upp á því að kaupa svona skuldabréf með afföllum og reyndu að fá ákveðinn hluta af þessum viðskiptum með þriðjamarspappíra. Og þannig hefur það orðið að bankarnir hafa breytt sinni starfsemi svolítið þar sem þetta tíðkaðist ekki fyrir 4--5 árum síðan að bankar keyptu svona pappíra með afföllum. Hins vegar eru þeir farnir að gera það nú í dag.
    Með því að bankarnir fóru að gera þetta skapaðist visst jafnvægi á markaðnum. Það var ekki þessi sami stimpill á verðbréfaviðskiptum og var áður, að þarna væri svona ,,grár markaður`` og verðbréfaviðskiptin fengu á sig heilbrigðari stimpil þar sem bankarnir tóku upp sömu viðskipti. Mér finnst því eðlilegt, þegar svona er komið að bæði bankar og verðbréfafyrirtæki

eru komin í visst jafnvægi, að settar séu mjög líkar reglur um þessi viðskipti. Ég tel að frv. sem hér er fjallað um geri það. Og mér finnst eðlilegt að það sé bæði lausafjárskylda og bindiskylda á verðbréfafyrirtækjunum þar sem þessi fyrirtæki hafa engar skyldur aðrar en þær að ávaxta peninga þeirra aðila sem leggja þarna inn. Bankarnir hafa hins vegar ýmsar skyldur og þá sérstaklega gagnvart atvinnulífinu, og ef við gerum verðbréfafyrirtækjunum hærra undir höfði er líklegt að peningar fari frá bönkunum og yfir á verðbréfafyrirtækin. Eftir því sem ég best veit hefur þessi áskókn í að leggja peninga inn í verðbréfafyrirtækin aðeins minnkað. Samt vil ég nú að þau séu til út af því að, eins og fram kom hjá hæstv. viðskrh., þau hafa aukið sparnað í landinu. Ég held að enginn vafi sé á því, að þarna gafst annar kostur. Hins vegar tel ég að sé ekki af hinu góða ef vöxturinn er of mikill hjá þessum verðbréfafyrirtækjum, þá á kostnað bankanna. Það getur komið til þess að fjari undan þeim. Þess vegna held ég að þessi ákvæði í 29. og 30. gr. séu einmitt mjög góð til að Seðlabankinn geti gripið inn í til að skapa þarna ákveðið jafnvægi á milli verðbréfafyrirtækja og bankastofnana.
    Ég vil samt hafa ýmsa fyrirvara varðandi seinni málsliðinn um það hvernig Seðlabankinn geti ákveðið þessa áhættuflokka þar sem verðbréf eru mjög mismunandi og það er mjög erfitt nema fyrir kunnáttumenn að setja sig inn í það í hvaða flokk á að setja svona verðbréf. Sum verðbréf eru eins og margir vita léleg og önnur eru góð. Það fer eftir því, sé um veðskuldabréf að ræða, hversu mikið hvílir á viðkomandi eign o.s.frv. Og ég held að markaðurinn eigi nú að ráða því sem slíkur.
    Ég held að frv., ef það verður að lögum, verði mikil vörn sérstaklega fyrir þá aðila sem leggja þarna inn fjármuni og geti skapað jafnvægi á milli verðbréfafyrirtækja og bankakerfisins. Eftir fljótlegan yfirlestur á frv. sé ég ekkert sérstakt ákvæði sem ég mundi setja fyrir mig. Ég vona svo sannarlega að frv. verði að lögum á þessu þingi.
    Fleira hef ég ekki um þetta að segja að sinni, en ég tek undir það sem hæstv. viðskrh. sagði, að fyrri lög, nr. 27/1986, eru nokkuð ófullkomin og þessi ákvæði sem hér er bætt við skýra og setja miklu ákveðnari reglur um það
hvernig og með hvaða hætti verðbréfamiðlun geti farið fram.