Tekjuskattur og eignarskattur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1989

     Flm. (Albert Guðmundsson):
    Virðulegi forseti. Ég verð nú að lýsa furðu minni á þessum vinnubrögðum. Það er nýbúið að ganga frá því að sameina nefskatta á aldraða og staðgreiðsluna og eins og hæstv. ráðherra sagði er þetta ekki innheimt sem nefskattur sérstaklega, heldur er það inni í staðgreiðslunni. Á ég að trúa því að ríkisstjórnin sé svona skömmu eftir afgreiðslu fjárlaga og afgreiðslu skattalaga að tala um að taka upp nefskattinn aftur sérstaklega til viðbótar við upphæðina sem var sett inn í staðgreiðsluna? Hvar eru takmörkin fyrir því sem ríkisstjórnin getur lagt á fólk? Það er heildarupphæðin sem fólkið greiðir sem skiptir það máli, ekki hvort það er inni í þessari upphæð eða inni í annarri upphæð, að það sé ekki alltaf sett á ný vegna þess að lögin hafa ekki verið felld úr gildi eins og þau voru áður en staðgreiðslan kom. Þetta bara gengur ekki. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar en þessi vinnubrögð ganga ekki. Það eru takmörk fyrir því hvað fólk þolir af viðbótarsköttum og ég veit, af því að ég hef unnið með og unnið nokkuð lengi núna með hæstv. heilbr.- og trmrh., eða tel mig vita að þetta er ekki að hans skapi. Það getur ekki verið.