Ríkisreikningur 1987
Miðvikudaginn 22. febrúar 1989

     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1987. Frv. er samið eftir ríkisreikningi fyrir það ár sem lagður var fyrir Alþingi í október 1988. Í kjölfar þess var í desember sl. lögð var endurskoðunarskýrsla Ríkisendurskoðunar og yfirskoðunarmanna ríkisreiknings. Með þessu móti er fullbúinn ríkisreikningur lagður fyrir Alþingi á næsta ári eftir reikningsárið.
    Eins og alþingismönnum er sjálfsagt kunnugt hefur til þessa tíðkast að leggja ríkisreikning fram tvisvar, þ.e. fyrst eins og hann kemur fyrir að loknu uppgjöri ríkisbókhalds og síðan aftur þegar yfirskoðunarmenn ríkisreiknings, sem eru trúnaðarmenn Alþingis, hafa lokið yfirferð sinni, en það hefur oft reynst hið tafsamasta verk að útbúa fyrirspurnir til ráðuneyta og stofnana, afla svara við þeim og ganga frá tillögum um úrbætur og ábendingum um það sem betur mætti fara. Þegar því starfi öllu var lokið var ríkisreikningi enn dreift á Alþingi og í kjölfar þess lagt fram frv. til staðfestingar á honum.
    Frv. til laga um staðfestingu á ríkisreikningi hafa til þessa einungis lotið að rekstrarhlið reikningsins, samanborið við 2. og 3. gr. fjárlaga, og öll endurskoðun á meðferð hans af hálfu yfirskoðunarmanna verið í samræmi við það. Nú bregður hins vegar svo við að birtur er efnahagsreikningur ríkisreiknings og má líta á það sem boðbera þess að framvegis verði endurskoðunin mun víðtækari en tíðkast hefur og nái til ríkisreikningsins í heild sinni eins og eðlilegt verður að teljast.
    Um sjálfa framsetninguna á ríkisreikningnum í frv. er ástæða til að geta þess að gjöldin eru sýnd með tvennum hætti. Annars vegar er það gert eins og hefðbundið er í almennu bókhaldi með flokkun í höfuðþætti og síðan eru þau sýnd aftur í eins konar skýringarlið, sundurliðuð eftir ráðuneytum, og dregur það dám af framsetningu þessa efnis í frumvörpum fyrri ára.
    Ég hef hér ekki fleiri orð að sinni, virðulegur forseti, en legg til að frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu og væri þá tækifæri til þess að fjalla ítarlegar um málið þegar hv. fjh.- og viðskn. hefur lokið umfjöllun sinni og málið kemur hér aftur til 2. umr.