Gjaldþrotameðferð fyrirtækja
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 461 er þeirri fsp. beint til mín hvort ég muni hlutast til um að endurskoðuð verði lög og settar skýrari reglur en nú gilda um gjaldþrot fyrirtækja í því skyni að betur verði tryggt en nú að menn komi sér ekki undan ábyrgð og baki öðrum tjón. Á vegum dómsmrn. var um sl. áramót hafinn undirbúningur að því að semja frv. til l. um bann við atvinnustarfsemi sem m.a. á að tryggja betur en nú er að menn komi sér undan ábyrgð og baki öðrum tjón við gjaldþrot. Ég hef lagt á það áherslu að verkinu verði hraðað sem mest og með það að markmiði að hægt verði að leggja fram frv. um það efni á þessu þingi þótt það sé að sjálfsögðu ekki hægt að fullyrða um það á þessu stigi hvort það muni takast.