Umferðarfræðsla í grunnskólum
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Í málefnasamningi ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar er að finna þessi orð: ,,Fræðsla um umferðarmál verður aukin í grunnskólum og framhaldsskólum.``
    Í tilefni af þeirri yfirlýsingu lét ég taka saman yfirlit um umferðarfræðslu í skólum í októbermánuði sl. og dreifði í ríkisstjórninni og mun afhenda hv. fyrirspyrjanda það plagg í tilefni af þessari fsp.
    Varðandi einstök atriði fyrirspurnarinnar er þetta að segja:
    Fyrst er spurt: Hvernig er háttað umferðarfræðslu í efri bekkjum grunnskólans? Svarið er: Í 6. bekk grunnskólans sem og hjá yngri nemendum virðast aðstæður til umferðarfræðslu vera allgóðar að því er varðar verkefni, námsefni og aðgerðir. Árlega fer fram getraun meðal allra 12 ára skólanemenda um umferðarmál. Umferðarfræðsla í efri bekkjum grunnskólans hefur hins vegar verið lakari. Erfiðara er að því er virðist að nálgast 13 og 14 ára unglinga í þessu efni. Þeir eru mikið til hættir að nota reiðhjól, en ökunám á ýmis farartæki er þeim hins vegar nokkuð fjarlægt markmið.
    Reynsla annarra Norðurlandaþjóða gagnvart nýtingu námsefnis í umferðarfræðslu 7.--9. bekkjar hefur í raun og veru verið sú að mjög erfitt sé að ná til þessa fólks. Samt sem áður er eitt og annað reynt til að koma á framfæri umferðarfræðslu við þessa aldurshópa, bæði almennt og eins með sértækum aðgerðum. Árlega eru haldin námskeið í dráttarvélaakstri á Hvanneyri fyrir nemendur í grunnskólum á Vesturlandi og í Reykjavík fyrir nemendur á Suðvesturlandi. Alls hafa milli 200 og 250 nemendur sótt þessi námskeið, en þau eru annars vegar fornámskeið fyrir 13--15 ára nemendur og hins vegar réttindanámskeið fyrir 16 ára og eldri.
    Undanfarinn áratug hafa verið haldnir fræðslufundir tveggja tíma í 9. bekk margra grunnskóla um umferðarmál þar sem m.a. eru veittar upplýsingar um ökunám, ungt fólk í umferð og slys nýliða í akstri. Þeir sem standa að þessum fundum eru auk námsstjóra umferðarfræðslu lögreglan og í sumum tilvikum ökukennarar. Þessi fræðsla nær til 60--70% nemenda í 9. bekk árlega samkvæmt upplýsingum sem ég hef undir höndum.
    Í nokkrum grunnskólum er umferðarfræðsla boðin sem valgrein, 16--20 tíma námskeið. Stuðningur við fræðslu vegna undirbúnings vélhjólaprófs er fyrir hendi en víðast munu lögregla og ökukennarar annast þennan þátt í sameiningu. Enn fremur hefur verið nokkur þátttaka í starfsvikum eða umferðardögum skólanna og hafa umferðaröryggismál fengið þar allgóða umfjöllun.
    Í öðru lagi er spurt: Hversu miklum tíma er varið til umferðarfræðslunnar? Svarið er þetta: Óhætt er að fullyrða að marka þarf betur ákveðinn tíma í efri bekkjum grunnskóla vegna þessa þáttar en með bættu námsefni og betra skipulagi samkvæmt nýrri væntanlegri viðmiðunarstundaskrá sem nú er unnið að og verður gefin út í vetur og nýrri skólanámsskrá sem

einnig verður gefin út í vetur skapast bætt skilyrði til að sinna umferðarfræðslu. Ekki er hægt að gefa upp nákvæman meðaltíma í umferðarfræðslunni í 7.--9. bekk, en flestir eru sammála um að auka beri þessa fræðslu m.a. í ljósi aukinnar umferðar, vaxandi hraða og fjölbreyttari ferðahátta ungs fólks.
    Í þriðja lagi er spurt: Hversu miklu fé er varið til námsefnisgerðar í umferðarfræðslu? og ég geri ráð fyrir að hv. fyrirspyrjandi eigi hér við grunnskóla. Svarið er þetta: Í ár er varið alls um 2,4 millj. kr. til námsefnisgerðar af ýmsu tagi vegna grunnskólanemenda, hjá Námsgagnastofnun 1,3 millj. kr., hjá Umferðarráði 880 þús. kr. og auk þess veitir menntmrn. styrki til þýðinga og fleiri þátta, 220 þús. kr. Um er að ræða bæði nýtt námsefni og endurprentun á eldra námsefni fyrir umferðarfræðslu.
    Loks er spurt: Er að dómi ráðherra ástæða til að efla þennan þátt skólastarfs? Og svarið er: Full ástæða er auðvitað til þess að efla umferðarfræðslu á sem flestum sviðum. Í þessu sambandi hefur því verið beint til Námsgagnastofnunar að gerð verði kennslubók fyrir 8.--9. bekk í umferðarfræðslu þar sem m.a. verði lögð áhersla á hinn mannlega þátt í umferðinni.
    Ég vil að lokum geta þess, virðulegi forseti, í tilefni af þessari fsp. að ég tel í rauninni að það langbrýnasta í þessu efni sé að efla stórlega umferðarfræðslu á framhaldsskólastigi, sérstaklega hjá því fólki sem er um það bil að komast á þann aldur að geta tekið ökupróf. Í þessu sambandi vil ég minna á að fljótlega eftir að núv. ríkisstjórn var skipuð skipaði hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra nefnd þar sem m.a. var gert ráð fyrir að fyrirkomulag ökuprófa yrði tekið til endurskoðunar og fyrirkomulag ökukennslu, þar á meðal hugsanlega þáttur framhaldsskólans í hinum bóklega hluta námsins, þannig að sá þáttur mála er í endurskoðun. Ég tel í rauninni að það sé það albrýnasta að það unga fólk sem fljótlega getur fengið réttindi til að fara út í umferðina verði brýnt á þeim reglum sem þar þurfa að gilda og þar þarf að hafa í heiðri.
    Ég bendi að lokum á í þessu sambandi að í grannlöndum okkar hafa verið sett í umferðarlög ákvæði sem hvetja til aðhalds með þeim sem nýlega hafa lokið ökuprófi sem stendur allt að einu ári upp í reyndar eitt og hálft ár eftir að ökuprófinu er lokið þannig að þetta fólk hafi sérstakar skyldur og geti búist við því að með því sé fylgst með sérstökum hætti í umferðinni. Þessi mál og önnur tel ég brýnast að taka fyrir í þessu efni.