Flugfargjöld
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvað líði aðgerðum í framhaldi af samþykkt Alþingis á þáltill. um ástæður fyrir háum fargjöldum í innanlandsflugi og samanburði á fargjöldum á flugleiðum innan lands og til útlanda.
    Þessu máli hefur verið þannig sinnt af hálfu samgrn. að á sl. sumri, stuttu eftir að umrædd þáltill. var samþykkt, var Flugmálastjórn skrifað og óskað eftir ítarlegri greinargerð um þetta efni og ítarlegri athugun á flugfargjöldum til og frá landinu og innan lands og samanburði við það sem annars staðar gerist. Síðan hefur á undanförnum tveimur mánuðum verið ýtt á eftir því að þessari vinnu yrði skilað og þannig hefur verið að þessu staðið að samin hefur verið á vegum Flugmálastjórnar sérstök greinargerð sem send var Flugleiðum og óskað eftir skýringum á ýmsum atriðum sem þar koma fram. Á vegum Flugleiða hefur verið samin sjálfstæð greinargerð og hvort tveggja hefur borist samgrn., greinargerð Flugmálastjórnar þó ekki fyrr en 13. febr. sl. og hefur því ekki mikill tími gefist til að athuga þau plögg. Þó er ljóst að niðurstöður þessara tveggja greinargerða stangast allverulega á þar sem í niðurstöðum Flugmálastjórnar kemur fram eða er fullyrt að fargjöld séu allverulega hærri frá Íslandi, sérstaklega til Evrópulanda, en á sambærilegum flugleiðum að lengd til í Evrópu.
    Í greinargerð Flugleiða er hins vegar hinu gagnstæða haldið fram, þ.e. að meðalfargjöld séu lægri á þessum flugleiðum okkar Íslendinga en á sambærilegum leiðum í Evrópu. Hér stendur því í raun fullyrðing á móti fullyrðingu og af lauslegri athugun á þessum gögnum kemur skýrt fram að samanburður af þessu tagi er vandasamur og nauðsynlegt er að allar forsendur liggi ljósar fyrir. Ég hef því ekki hugsað mér að láta staðar numið að svo stöddu og láta við það sitja að senda þessar tvær greinargerðir eins og þær líta nú út athugasemdalaust af hálfu ráðuneytisins sem svar eða viðbrögð við þessari þál. Ég tel ljóst að hér þarf að fara fram frekari og vandaðri vinna til þess að um raunhæfan og traustan samanburð að þessu leyti sé að ræða. Það er nú í athugun í samgrn. hvernig verði best að því staðið og hvort e.t.v. sé nauðsynlegt að fá enn til nýjan óháðan aðila til að gera á þessu sérstaka úttekt, m.a. bera saman þær mismunandi niðurstöður sem flugrekstraraðilarnir sjálfir annars vegar komast að og hins vegar sá sérfræðingur sem vann þessa vinnu á vegum Flugmálastjórnar.
    Þessu verki hyggst ég láta hraða mjög og tel eðlilegast að gera Alþingi að nýju grein fyrir niðurstöðu málsins þegar hún liggur fyrir í skýrara formi, væntanlega með því að láta taka saman ítarlega skýrslu um málið í heild sinni þar sem birtar verði álitsgerðir Flugmálastjórnar og Flugleiða sem og þær athugasemdir eða sú athugun sem ég hyggst láta gera á þessu tvennu sérstaklega. Hversu langan tíma það kann að taka þori ég ekki að fullyrða á þessu stigi málsins, en hér er um vandasaman samanburð að ræða

sem öllum er fyrir bestu að byggi á traustum grunni og sé á óvefengjanlegum forsendum gerður.