Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Á síðasta þingi lagði ég fram till. til þál. ásamt hv. þm. Borgfl., þeim Guðmundi Ágústssyni og Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur, er gerði ráð fyrir að ríkisstjórninni yrði falið að festa kaup á fullkominni björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Eftir meðferð í tilheyrandi þingnefnd var tillagan samþykkt svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera athugun á kostnaði við kaup og rekstur á björgunarþyrlu af bestu fáanlegri gerð fyrir Landhelgisgæsluna.
Samþykkt á Alþingi 11. maí 1988.``

    Hæstv. forseti. Nú þykir mér fyllilega tímabært að inna hæstv. ráðherra eftir því hvað þessi athugun, sem ríkisstjórninni var falið að gera, leiddi í ljós. Því hef ég leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. dómsmrh. á þskj. 437 sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Hvað líður framkvæmd ályktunar Alþingis frá 11. maí 1988 um athugun á kostnaði við kaup og rekstur á björgunarþyrlu?``