Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra svör hans sem ég verð að harma. Að ekki skuli hafa unnist tími til að fara í þessa könnun eða athugun vegna fjárlagagerðar hlýtur að segja manni að það verður þá aldrei tími því að fjárlagagerðin er árlegur viðburður og ef þetta hefur ekki náðst á þessu eina ári, sem er núna allt að því liðið, sé ég hreinlega ekki fram á að þeir hafi nokkurn tíma tíma til þess. Ég gagnrýni harðlega að ekki hafi verið farið í þetta verkefni af fullum krafti.
    Það hlýtur að vekja upp spurningar þess eðlis hvort það sé yfir höfuð gerandi að vera að leggja á sig vinnu í kringum þingsályktanir þar sem þær virðast ekki vera virtar af hinu opinbera, af ríkisstjórninni. Þær fá að liggja í ráðuneytunum og er nánast alls ekki sinnt nema til komi þá fyrirspurnir sem ýti eitthvað við kerfinu. Ég hef orðið var við þetta varðandi aðrar þingsályktanir sem hafa verið samþykktar og gagnrýni harðlega að svo skuli vera.
    Það hefur heyrst að það þurfi jafnvel að leigja þyrlu vegna komu páfans í júní. Nú veit ég ekki hvort það er rétt, en ráðherra getur væntanlega staðfest það. Ég verð að segja að það hlýtur að vera tilvalið, ef það er rétt, og þá reyni ríkisstjórnin að stýra því í þann farveg að slík þyrla sem tillagan gerir ráð fyrir verði leigð. Nú veit ég ekki hver mundi greiða slíkt, hvort það væri Vatíkanið eða íslenska ríkið, það kannski skiptir ekki máli, en ég tel að það væri tilvalið að sækjast eftir að leigja sams konar þyrlu. Við fengjum þá strax nasasjón og einhverja reynslu af því tæki sem við hefðum áhuga á að kaupa. Hitt er svo annað mál að væntanlega væri framleiðandinn sennilega tilbúinn að lána hana endurgjaldslaust þó ekki væri nema í auglýsingaskyni. En það eru alls konar möguleikar til að kaupa slíka þyrlu og veit ég fyrir víst að framleiðendum er það mikið í mun þar sem hér er um mjög dýr tæki að ræða að fá hvern einasta sölusamning sem hægt er og eru því alls konar greiðslumöguleikar uppi á borðinu. Þó að hér sé talað um verulega stórar upphæðir hlýtur það að vera umhugsunarefni ef íslenska þjóðin á að þurfa að missa eina áhöfn og kannski eitt stykki togara með til að það veki ráðamenn til umhugsunar til þess að fara í það að kaupa almennileg björgunartæki fyrir íslensku þjóðina.
    Ég vil segja það, hæstv. forseti, að ég er hræddur um að svo verði og við verðum að færa allmiklar fórnir til þess að íslenska ríkið, íslenska ríkisstjórnin vakni af sínum djúpa draumi. Ég vil segja að ef svo heldur sem horfir fljótum við að feigðarósi.