Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegi forseti. Ég mótmæli því að fyrirspurnum og þingsályktunartillögum sé ekki sinnt í ráðuneytunum. Það er mikil vinna fyrir ráðuneytin að svara ýmsum spurningum sem koma frá þinginu og ekkert nema eðlilegt við það. Hitt er svo annað mál að ráðuneytin eru í mörgum efnum vanbúin til að sinna margvíslegum erindum sem þeim berast.
    En ég vil sérstaklega mótmæla því að það sé verið að ræða þetta mál með jafnósmekklegum hætti og hv. þm. gerði. Hann var að gefa í skyn að mönnum standi á sama um öryggi okkar sjómanna, að ríkisstjórn Íslands hafi engan áhuga á því máli. Ég mótmæli slíkum orðum.
    Það er hins vegar alveg ljóst eins og hann sagði að hér er um mjög kostnaðarsama aðgerð að ræða. Það er verið að tala um kaup á þyrlu sem kostar sennilega í kringum 700--800 millj. ef vel á að vera og er jafnframt mjög dýr í rekstri. Það er jafnframt rekin björgunarsveit á Keflavíkurflugvelli sem er ekki eingöngu fyrir þá aðila sem þar dvelja, þ.e. ameríska herinn, heldur er sú björgunarsveit jafnframt alþjóðleg.
    En ég mótmæli því að það sé verið að gefa í skyn að íslenska ríkisstjórnin og íslenska þjóðin yfirleitt sé áhugalaus um þessi mál. Það væri merkilegt ef satt væri, en sem betur fer er það ekki satt. Hv. þm. á ekki að tala um þessi mál eins og hann sé eini maðurinn í landinu sem hefur áhuga á þessum málum. Sem betur fer er fjöldi fólks í hverju einasta byggðarlagi hringinn í kringum landið sem sinnir þessum björgunarmálum af miklum áhuga, eljusemi og dugnaði og þar hafa verið unnin mikil afrek.