Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Albert Guðmundsson:
    Hæstv. forseti. Þetta er furðulegt hjá hæstv. ráðherra. Hann talar eins og það sé verið að gagnrýna þá sem hafa staðið að björgunarmálum. Það er talað um það líka að þáltill. sem er orðin ársgömul í ráðuneytinu hafi ekki komist í athugun vegna þess að ráðuneytið hefði svo mikið að gera. Hann talar og gefur í skyn eins og einn og sami maðurinn í ráðuneytinu taki við öllum þingsályktunartillögum og því sem Alþingi samþykkir til að vinna úr. Það er Landhelgisgæslan sem tekur þetta mál sérstaklega til athugunar. Ég held að ráðherra ætti að gæta tungu sinnar og hugsunar þegar hann kemur hér upp og talar eins og hann talaði sem svar til ungs þingmanns sem hefur áhuga fyrir framförum í landinu. ( Gripið fram í: Getur hann ekki svarað fyrir sig sjálfur?) ( IBA: Og ætlar að gera það.) Hann getur svarað fyrir sig sjálfur jú, en það hefur hver þingmaður leyfi til að taka til máls í hvaða máli sem er og ráðherra takmarkar það ekki neitt. Þetta er hin almenna málstofa og þau mál sem eru á dagskrá eru hér til umræðu. ( Forseti: Ég vek athygli á að hv. 5. þm. Vesturl. hefur talað tvisvar svo að hann getur ekki tekið til máls aftur.)