Björgunarþyrla
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég tel rétt að minna á í sambandi við björgunarstörf á Íslandi að það er ekki mikið að láta fara fram könnun á því hvort hér sé hægt að taka í notkun stærri þyrlu en við höfum. Það er ekki kostnaðarsamt eða ýkja flókið fyrirbæri. Ég er ekki í neinum vafa um að allur þingheimur hefur á því áhuga að búnaður til björgunar á Íslandi, miðað við staðsetningu landsins, sé sem bestur, svo að maður tali ekki um með vísan til þeirrar veðráttu sem hefur verið í landinu að undanförnu og minnt okkur öll hressilega á hvar við erum stödd á hnettinum. Það er fyllsta ástæða til að við skoðum svona mál gaumgæfilega því að tíminn líður hratt og það eru örar framfarir í heiminum og við verðum að sjálfsögðu að fylgjast vel með og hafa íslenskan björgunarútbúnað eins góðan og kostur er hverju sinni.