Fyrirspurn um varaflugvöll
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Hæstvirtur forseti. Samkvæmt þeirri röð sem er á dagskrá á ég þá fyrirspurn sem næst ætti að koma, nr. 9, sem varðar varaflugvöll, til samgrh. Hann er hér í húsinu og hann spurði mig að því áðan hvort ég væri reiðubúinn að mæla fyrir fyrirspurninni. Ég vil fara fram á að sú fyrirspurn sitji fyrir. Það er enn svo að mér hefur ekki unnist tími til þess á venjulegum fundatíma að ljúka ræðu sem ég er með í miðjum klíðum um skýrslu forsrh. og stendur þó gömul þinghefð til þess að menn sem eru í miðjum klíðum í ræðum sínum fái hið fyrsta tækifæri til að ljúka máli sínu og séu ekki skildir eftir til hins síðasta. Nú sagði sá forseti mér áðan sem hér sat í sæti hæstv. forseta fyrir stundu að sú fyrirspurn sem ég er að tala um verði tekin fyrir á réttum tíma. Ég fer því fram á að fyrirspurn mín til samgrh. verði tekin fyrir áður en 14. mál á dagskránni verður tekið fyrir.