Fyrirspurn um varaflugvöll
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegur forseti. Það er að verða nokkuð vandlifað hér í sameinuðu þingi og það er ekki sök forseta. Þannig var að um það var talað að fyrirspurnir yrðu teknar fyrir í kippum þannig að ráðherrar gætu svarað þeim fyrirspurnum sem til þeirra er beint. Það er verklag sem hefur verið talið nokkuð gott í þessu efni. Vandinn hefur hins vegar verið sá að þingmenn Sjálfstfl. hafa ekki vaknað á morgnana til þess að taka hluti fyrir með eðlilegum hætti. Þannig var ekki hægt að taka fyrir 1. mál á dagskrá vegna þess að fyrirspyrjandinn var ekki kominn til þingstarfa. Það er auðvitað mjög slæmt og truflar störf Alþingis. Vil ég beina því til hv. þm. Sjálfstfl. að þeir skipuleggi fótaferð sína betur framvegis en gerðist í dag.