Varaflugvöllur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Það var ánægjulegt að heyra að hv. fyrirspyrjandi hafði orðið sér úti um orðrétt ummæli mín í Sjónvarpinu. Hann hefði betur gert það áður en hann samdi fyrirspurnina því að hún er ekki í samræmi við það sem ég sagði í Sjónvarpinu. Það sem ég sagði og kom skýrt fram í því sem hv. 2. þm. Norðurl. e. las var að herflugvöllur, flugvöllur byggður með þátttöku NATO eða bandaríkjahers, væri ekki á dagskrá í samgrn. Það er rétt og er svo enn og stendur.
    Varaflugvöllur í Aðaldal er hins vegar sérstaklega á dagskrá og var einn af fjórum flugvöllum sem ég skrifaði flugmálastjóra og bað um að gerð yrði sérstök úttekt á hvort flugvöllur í Aðaldal ásamt með stöðunum Sauðárkróki, Akureyri og Egilsstöðum væri vænlegur kostur fyrir okkur Íslendinga til að leysa okkar mál í þessu sambandi. Niðurstaða þeirrar úttektar varð sú að það er nokkuð dýrara að byggja flugvöllinn í Aðaldal, enda er hann stystur þeirra valla sem þarna eiga hlut að máli, og af því leiðir að menn horfa frekar til annarra staða í þessu sambandi. Svona liggur þetta mál, er skýrt og einfalt og ef hv. fyrirspyrjandi hefði haft fyrir því að kynna sér málið betur hefði hann áttað sig á því hvernig þetta liggur. Sem sagt, herflugvöllur í Aðaldal er ekki á dagskrá í samgrn., en að sjálfsögðu er Aðaldalsflugvöllur eins og aðrir álitlegir staðir inni í myndinni og til athugunar hvað varðar varaflugvöll fyrir okkar þarfir og fyrir þarfir almenns farþegaflugs.
    Það er þó rétt að geta þess og minna á það í þessu sambandi, skyldi það hafa gleymst hv. fyrirspyrjanda, að nokkuð þarf að hyggja að umhverfinu hvað snertir Aðaldal. Bæði er þar um að ræða sérstök lög um verndun Laxár og Mývatns og viðkvæma náttúru að öðru leyti. Þess vegna er það svo að það skiptir máli hvaða stærðargráðu menn eru þarna að tala um.
    Ég hef ástæðu til að ætla að lenging núverandi flugbrautar í viðunandi horf rúmist með ágætum innan þeirra takmarkana sem þarna er eðlilegt að setja. En mannvirki af þeirri stærðargráðu sem verið er að tala um í sambandi við herflugvöll er nokkuð annar handleggur, enda hafa landeigendur á þessu svæði þegar lýst sig andvíga því eins og ég veit að hv. fyrirspyrjanda er kunnugt um.
    Önnur samgöngumannvirki eru almennt talað á dagskrá í samgrn. eins og samgöngumálin yfirleitt. Þessi spurning er útúrsnúningur, virðulegur forseti, sem sæmir auðvitað engum, ekki einu sinni hv. fyrirspyrjanda. Varðandi veginn yfir Brekknaheiði er hann líka á dagskrá. Það er einmitt ætlunin að reyna að koma honum inn á vegáætlun, a.m.k. endurskoðaða langtímaáætlun. Þar vona ég að sjáist í það að þær framkvæmdir komist á dagskrá. En það er ekki ætlunin að láta bandaríkjaher borga þann veg á meðan ég verð í samgrn. Hafi það verið það sem hv. fyrirspyrjandi var að óska sérstaklega eftir að fá hér upplýst er svarið nei. Það verður ekki gert með mínum stuðningi að þeir aðilar sem eiga og reka

þessa radarstöð á Gunnólfsvíkurfjalli leggi veginn yfir Brekknaheiði. Það getur vel verið að það sé komið á stefnuskrá hv. fyrirspyrjanda og e.t.v. upplýsir hann það hér á eftir og er þá komið nýtt stig í stefnu fyrirspyrjanda og e.t.v. flokks hans í viðskiptum við herinn.