Varaflugvöllur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):
    Hæstv. forseti. Hæstv. samgrh. vildi sem minnst tala um hvaða minni háttar hernaðarframkvæmdir það væru sem ríkisstjórnin getur hugsað sér hér á landi. Ítreka ég þá fyrirspurn til hans, vegna þess að honum verður svo tíðrætt um herflugvöll í Aðaldal, ef sá varaflugvöllur sem þar er verður myndarlegur. Hins vegar ítreka ég það, sem ég hef áður sagt um þessi mál, að það er ekki í huga sjálfstæðismanna og það er ekki í huga þeirra þjóða sem standa á bak við mannvirkjasjóð Atlantshafsbandalagsins að byggja herflugvelli sem víðast í löndum Vestur-Evrópu. Það er síður en svo að allir flugvellir nema tveir í Noregi séu herflugvellir. Allt er þetta hinn argasti útúrsnúningur þessa hæstv. samgrh. sem við vitum að hefur borið fyrir brjósti hag ýmissa annarra þjóða en þeirrar þar sem mannréttindi eru mest í veröldinni, en hjarta hans á hinn bóginn slegið með þeim mönnum sem standa fyrir kúgun Pólverja, fangelsun mannréttindamanna í Tékkóslóvakíu eða hafa barist í Afganistan.
    Það sem við erum að fara fram á hér er mjög einfalt. Við teljum nauðsynlegt, sjálfstæðismenn, að vera í Atlantshafsbandalaginu vegna þess varnarviðbúnaðar sem það stendur fyrir og eru samtök frjálsra þjóða, frjálsra þegna sem virða mannréttindi. Það eru þessar frjálsu þjóðir sem hafa komið sér saman um að standa á bak við nauðsynlegar framkvæmdir í þessum frjálsu löndum til að verjast ásókn frá öðrum löndum. Við vitum og þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það að Sovétríkin hafa verið með ásælni til þeirra ríkja sem eru við landamærin. Það þarf ekki um það að ræða. Sagan sannar það. Þessi mannvirkjasjóður hefur komið við sögu í öllum löndunum í kringum okkur. Það er síður en svo hægt að skjóta sér svo undan sem hæstv. samgrh. gerir. Flugvöllur sem gegnir því eina hlutverki að vera varaflugvöllur þeirra flugvéla sem halda uppi öryggisgæslu á hafsvæðunum umhverfis landið er ekki hernaðarmannvirki. Flugvöllur sem gegnir því hlutverki að auðvelda okkur Íslendingum vöruflutninga með flugvélum til annarra landa er ekki hernaðarmannvirki. En um leið og styrjöld er brostin á og um leið og her fer að nota mannvirki til árásar eða í þvílíkum tilgangi er það mannvirki orðið hernaðarmannvirki hvað svo sem olli því að mannvirkið var upphaflega reist eða smíðað. Öll ummæli hæstv. samgrh. um þessi efni bera þess keim að hann er andstæðingur þess varnarbandalags sem frjálsar þjóðir hafa staðið að, stofnað og rekið en ekki keim af hinu að hann sé að gæta öryggishagsmuna Íslendinga.