Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegi forseti. Sú fsp. sem hér er beint til dómsmrh. byggir á ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 38/1988, um breytingu á áfengislögum, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ráðherra skal skipa fimm manna nefnd til að gera tillögur er stuðlað gætu að því að draga úr heildarneyslu áfengis. M.a. ber nefndinni að fjalla um verðlagningu áfengis og leiðir til að vara við hættum sem fylgja neyslu þess, t.d. með áprentuðum upplýsingum um áfengishlutfall og ákvæði umferðarlaga. Einnig skal nefndin gera tillögu um sérstaka fræðsluherferð um áfengismál, einkum meðal skólafólks, er hefjist eigi síðar en mánuði áður en lög þessi koma til framkvæmda.``
    Nefndin sem vitnað er til var skipuð af heilbr.- og trmrh. Hún hefur m.a. fjallað um fræðslu um áfengismál meðal skólafólks, en sá þáttur hefur þó verið í umsjá menntmrn. Dómsmrn. er því ekki í stakk búið til að gefa svar við fsp. hv. 5. þm. Vesturl. og á efni hennar erindi við ráðherra heilbrigðismála og menntamála. Vakin er athygli á því að á dagskrá þingsins eru tvær fyrirspurnir, þskj. 488 og 489, frá hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur er varða sama efni og er beint til ráðherra heilbrigðismála og menntamála. Vænti ég þess að hægt sé að hafa þá skipan mála að hv. fyrirspyrjandi geti tekið þátt í umræðu um þetta mál sem full ástæða er til að ræða er þær fyrirspurnir verða teknar hér fyrir.