Fræðsluátak um áfengismál
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur fyrir tvær fyrirspurnir sem hún hefur lagt fram um má segja svipað ef ekki sama málefni og ég var sjálfur með rétt áðan. Það hljómar og virðist kannski einkennilegt að ég sem flm. að bjórfrv. og stuðningsmaður þess að sjálfsögðu skuli vera að flytja slíka fsp., en við því er einfaldlega það að segja að ég studdi allan tímann fræðslu- og forvarnarstarf og gerði ekki lítið úr því og þess vegna var það sem ég lagði fram fsp. um hvernig þeim málum væri hagað.
    Ég veit fyrir víst þrátt fyrir ágæta upptalningu ráðherra áðan að í allmörgum skólum hefur nákvæmlega engin fræðsla farið fram, ekkert forvarnarstarf farið fram. Ég get nefnt skóla eins og Verslunarskóla Íslands. Ég talaði við yfirkennara skólans og hann hafði ekki heyrt minnst á neitt slíkt. Sama er að segja úr Hafnarfirði. Sama er að segja í Árbæ þar sem ég á nú krakka. Hvergi þarna hefur neitt forvarnar- eða fræðslustarf farið fram þannig að það virðist vera víða pottur brotinn í þessu efni, enda viðurkennir hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin eða hans ráðuneyti hafi staðið sig illa í þessum málaflokki og var nokkuð athyglisvert að heyra þá yfirlýsingu og ekki síður athyglisvert að heyra að ráðherra og ráðuneyti eru gersamlega ráðþrota. Það er mjög sorglegt til þess að vita.
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki tefja þetta lengur. Ég ítreka bara þakkir mínar til hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur.