Fræðsla og forvarnir í áfengismálum
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Það skal verða örstutt. Ég ætla aðeins að segja það við hv. 5. þm. Vesturl. að ég mun að sjálfsögðu láta nefndina athuga hvernig þessi dreifing á kynningarefni í skólum hefur farið fram. Við munum af fremsta megni og eftir því sem fjármunir og tök leyfa reyna að halda áfram því starfi sem er í gangi, reyndar er í fullum gangi og ítreka að það er samstarf við ýmsa aðila sem hafa unnið að þessum forvarnarmálum og áróðurskynningu að undanförnu og við munum reyna að styrkja það þannig að það geti síðan haldið áfram þó að störfum þessarar nefndar ljúki.
    Í þriðja lagi vil ég segja það út af því að aðeins hefur verið hnýtt að fjölmiðlum að ég vil þó taka það skýrt fram, nefndi það reyndar áðan, að fundur sem ég átti með fjölmiðlafólki í gær um reglugerð um bann við áfengisauglýsingum var góður fundur og þar sýndu fréttamenn mikinn áhuga á efninu. Ég hafði hins vegar ekki mikil tök á að fylgjast með fréttum í gærkvöld né að líta svo yfir blöð í morgun að ég viti hversu góð skil þeir hafa síðan gert því. En við verðum að treysta á gott samstarf við þessa aðila, svo og auðvitað almenning í landinu.
    Að lokum vil ég segja við hv. fyrirspyrjanda að það verður auðvitað reynt að fylgjast með framhaldinu og þróuninni og bregðast við í samræmi við það. Við héldum nýlega sérstakan fund um áfengismálarannsóknir þar sem til voru kvaddir sérfræðingar á því sviði og þeir aðilar sem hafa unnið að því verkefni. Og þeim fundi sýndu reyndar fjölmiðlar líka áhuga.