Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Það er dálítið merkilegt þetta málefni sem hér er til umræðu því það fer að slá í það bráðum, það fer að verða svo gamalt. En varðandi þessa yfirlýsingu í efnahagsmálum frá forsrh. langar mig til að ítreka hérna nokkkrar spurningar til hæstv. ríkisstjórnar.
    Fyrsti punktur í þessari yfirlýsingu er að afgreiða hallalaus fjárlög. Ég spyr hæstv. forsrh. að því: Var það einhvern tíma rætt í ríkisstjórninni að auðlindir í fjármunum landsmanna séu takmarkaðar? Halda þeir í Stjórnarráðinu að það sé bara hægt að rányrkja atvinnuvegi og launþega landsins endalaust, það séu engin takmörk fyrir því hvað þar séu stórir stofnar? Þessi setning um þessi hallalausu fjárlög tekur mið af því að menn hafi ekki hugmynd um hvernig heimurinn er eða hvað gerist við að láta greipar sópa um atvinnulífið eins og núna stendur í bólið.
    Ég vil líka minna á að það var minnkaður þorskkvótinn fyrir þetta ár um 10% og það eru margir fastir kostnaðarliðir í t.d. útgerð og fiskvinnslu sem ekki breytast þannig að tekjurnar hrapa verulega umfram þessi 10%. Undir þessum kringumstæðum eru auknar álögur lagðar á atvinnulífið. Þetta þýðir ekkert annað en skert lífskjör því að þetta rýrir getu fyrirtækjanna til að greiða almennileg laun fyrir utan að fógeti verður sendur til að loka fyrirtækjum þegar ekkert gengur að rupla í kassann og þá framkallar það atvinnuleysi.
    Ég get ekki gefið svona efnahagsstefnu neitt annað nafn en hreina rányrkju og mér er spurn hvort þeir hafi einhvern tíma spekúlerað í því í Stjórnarráðinu hvort þeir séu með löglegar leiðir.
    Í annan stað er yfirlýsing um að draga úr verðbólgu. Hvernig má það vera að menn geti lagt auknar álögur á þjónustuliði sem velta út í verðlagið og lenda síðan á undirstöðuframleiðslunni og láti sér detta í hug að þetta sé til að draga úr verðbólgu? Þetta er ekkert annað en að hella olíu á eldinn. Ef menn skilja að tvisvar sinnum tveir eru fjórir, þá er þetta jafnaugljóst. Það er varla að maður geti ætlað mönnum svo illt að þeir hafi hugmynd um hvað þeir eru að gera.
    Svo tala menn um að lækka vexti ofan í þetta allt saman. Hvernig geta vextir lækkað þegar allt annað hækkar og eftirspurnin eftir fjármagni vex með hverjum degi vegna tapreksturs í atvinnulífinu? Þetta gengur ekki upp. Og allt tal um frjálshyggju í þessu sambandi, að það sé frjálsræði að kenna hvernig komið er í efnahagsmálum Íslendinga, er álíka og maður fari að lesa bækur frá miðöldum þar sem var pumpað vatni í menn vegna þess að þeir héldu því fram að jörðin væri hnöttótt. Ég veit ekki betur en Svíar hafi nýlega verið að innleiða frjálsræði með því að láta seðlabankann hafa frjálsræði og ætla að fara að auka frjálsræði. Þeir hafa aldrei þótt mjög hægri sinnaðir í Svíþjóð. Það væri gaman að heyra vinstri sinna á Íslandi ræða þetta, spekúlera aðeins í þessu.
    Það væri ekki úr vegi af því að Norðurlandaráðsþing er fram undan að þeir í hæstv.

ríkisstjórn kæmu við í kauphöllinni í Gautaborg eða Stokkhólmi og skoðuðu umhverfið, frjálshyggjuna í ríki sósíalista.
    Það er ósköp fallegt að tala um að lækka vexti en vera á sama tíma að setja mikið fé í húsnæðismál. Auðvitað þurfa allir þak yfir höfuðið, en ég veit ekki til þess að neinn sé í þann veginn að verða úti. Er ekki nær að tala um staðreyndirnar eins og þær eru, að við verðum að hægja á ferðinni alls staðar, líka í þeim málaflokkum, ef við ætlum að ná jafnvægi. Það er ekki á einu sviði heldur öllum sem það er þveröfugt við það sem menn ætla sér. Svo er talað um að lagfæra raungengi íslensku krónunnar. Með hinni hendinni hafa menn hækkað álögur á milliliði, þjónustuliði, og launþega sem veldur þenslu í landinu, verðhækkun, verðbólgu, kom síðast fram í gær, hækkanir á vöxtum, þveröfugt við markmiðin sem þeir hafa sett sér.
    Þessi ríkisstjórn var mynduð til að bjarga atvinnulífinu. Hún eykur álögur á atvinnulífið, þjónustuliði, sem síðar fara beint yfir á framleiðsluna og þá má ekki laga gengið. Og svo er sagt: Markmiðið er að lagfæra raungengið. Ég held að það fyrirkomulag sem hér ríkir um gengisskráningu þyrfti að fara í rækilega endurskoðun. Mér finnst satt að segja fráleitt að ríkisstjórn sé að dæma í hagstjórninni hjá sjálfri sér með því að ákveða gengisskráningu. Það væri ekki úr vegi að skoða hvort við getum ekki farið svipaða leið og Svíar.
    Síðan er talað um að kanna vandlega stöðu atvinnuveganna. Það þarf alltaf að vera að kanna það betur og betur og eftir því sem meiri tíma er eytt í að kanna það versnar ástandið. Það er til mikið af skýrslum um þessa stöðu.
    Það kemur fram á bls. 3 í þessari yfirlýsingu að eigið fé hafi fallið úr 26 milljörðum í 13 milljarða. Ég verð að leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. að því: Hvaðan eru þessar upplýsingar fengnar og getum við fengið að sjá þessar staðreyndir? Geta þingmenn fengið að sjá þetta svart á hvítu? En á næstu hæð við það sem þessar yfirlýsingar koma frá, eftir því sem forsrh. segir, þessar upplýsingar koma frá Seðlabankanum, er Þjóðhagsstofnun. Hér er greinargerð frá 15. des. um hag atvinnuveganna á síðasta ári. Þar kemur fram að hallarekstur í sjávarútvegi verði 1,3 milljarðar, en hæstv. forsrh. segir 13. Hvernig stendur á því að það er svona mismunur milli hæða? Þarf orðið að fá löggiltan
endurskoðanda til að endurskoða það sem hæstv. forsrh. er að segja? Á hverju á maður að taka mark?
    Svo segir hæstv. sjútvrh. að eiginfjárrýrnun hafi verið 2--3 milljarðar, sagði það í þinginu í fyrradag. Hvernig stendur á því að menn eru að tala um svona gífurlegar fjárhæðir í mismun? Það gengur ekki að það sé verið að upplýsa menn um hluti út og suður. Það er þá ástæða til að fá löggilta endurskoðendur, sem hafa starfsreynslu og víðtæka þekkingu á rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, til að gefa skýrslu um þetta mál.
    Síðan er punktur um að lagfæra skuldastöðu

atvinnuveganna. Það er gott og blessað. Það er búið að gera það nokkrum sinnum undanfarin ár. En ég vil spyrja að því: Var ekki Byggðastofnun og Byggðasjóði heimilt að gera allt það sem Atvinnutryggingarsjóður og hlutafjársjóður eiga að gera ef þeir hefðu fengið peninga? Ég vil gjarnan fá svar við þeirri spurningu. Ég hef ekkert á móti því að það sé reynt að greiða götu íslenskra atvinnuvega, en þarf alltaf að vera að fjölga sjóðum og stofnunum og auka ríkisútgjöld svoleiðis? Er ekki nóg af þessum sjóðum til, nóg til af bönkum? Hvað með Fiskveiðasjóð og Byggðasjóð og viðskiptabankana? Þeir hafa getað skuldbreytt hingað til með góðum árangri. Þarf alltaf að vera að stofna nýjan sjóð? Ég næ ekki upp í svona röksemdafærslu.
    Svo þarf að fara að hyggja að því eftir allar þessar skuldbreytingar hver greiðslubyrðin skyldi vera orðin af öllum þessum lánum. Það er tímabært að fá kannski eina skýrslu í svo sem hálfa stresstösku með svoleiðis upplýsingum.
    Síðan er síðasti punkturinn hér að undirbúa varanlegri aðgerðir í atvinnu- og efnahagsmálum. Hverjar eiga þær að vera? Er það varanlegri aðgerð í atvinnu- og efnahagsmálum að láta ríkissjóð kaupa upp fyrirtæki landsmanna í gegnum hlutafjársjóð? Ætlar forsrh. að fara að gera út? Hann ætlar að skipa þrjá menn í stjórn hlutafjársjóðs. Er öllu starfsfólki og stjórn Byggðastofnunar vantreyst? Af hverju var það fólk ekki nógu hæft til þess að annast þessi málefni? Af hverju þarf sérstaklega nýja menn? Það eru ný ríkisútgjöld, meiri útgjöld. Hvers vegna? Er þetta vantraust á fólk í Byggðastofnun?
    Ég held ég verði að segja eina ferðina enn að það er meiri háttar áfall að verða vitni að svona vitleysisgangi. Menn mynda ríkisstjórn og segja að Róm sé að brenna, allt sé að fara norður og niður, eiginfjárrýrnun svo rosalega mikil, blóðvöllur og ýmislegt fleira og síðan eru hækkaðar álögur á atvinnulífið. Á sama tíma er samdráttur í kvóta. Það er verið að lifa á kostnað framtíðarinnar í stórum stíl. Hvernig eigum við svo að halda uppi sómasamlegum lífskjörum og kaupmætti í framtíðinni þegar búið er að rýra stórkostlega höfuðstól atvinnuveganna? Þetta er nákvæmlega sama og að rányrkja fiskistofnana. Það er bara verið að lifa á kostnað framtíðarinnar.
    Samkeppnishæfni fyrirtækjanna minnkar bæði til að greiða betri laun og eins til að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni, sem alltaf er að harðna, við svona álögur. Það er farið alveg þveröfugt að við það sem hefði þurft að gera. Það hefði þurft að draga úr álögum á atvinnulífið til að halda sömu lífskjörum og leyfa fyrirtækjunum að byggja sig upp sjálf en ekki að miðstýra þeim og kúga út úr þeim fé, senda fógetann á liðið, hæstv. fjmrh. notaður í það, og rupla í kassann og skeyta hvorki um skömm né heiður.
    Ég er alveg meiri háttar hneykslaður á svona stefnu.