Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Af því ég spurði hæstv. forsrh. spurningar áðan og fékk ekki svar við henni verð ég að leyfa mér að spyrja aftur. Hann talaði um að eiginfjárrýrnun í sjávarútvegi hafi verið 13 milljarðar á síðasta ári. Hvaðan eru þessar upplýsingar? Hérna er grg. frá Þjóðhagsstofnun frá 15. desember og það er verið að nota þessar upplýsingar alltaf í sambandi við ákvarðanatöku, hvað eigi að gera fyrir íslenska atvinnuvegi. Samkvæmt þessu á útkoman 1988 að vera 1,3 milljarðar í halla og ákvarðanir eru alltaf teknar eftir upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun. Síðan kemur forsrh. hér og segir að hallinn á síðasta ári hafi verið 13 milljarðar, tíu sinnum meiri. Og hæstv. sjútvrh. sagði á fundi fyrir nokkrum dögum að hallinn væri 2--3 milljarðar. Hver segir rétt frá? Þarf að fá löggiltan endurskoðanda til að fara yfir mismunandi upplýsingar frá ráðherrum? Hæstv. forseti. Það skiptir máli hvort menn eru með mismunandi útgáfur í upplýsingum upp á marga milljarða. Það er ekki hægt að ætlast til þess að maður gleypi svona tölur sitt á hvað hrátt.
    Ég verð að segja í leiðinni að sú rányrkja sem fer fram á höfuðstólum íslenskra atvinnuvega er bara ávísun á rýrnandi kaupmátt á Íslandi. Svo segja menn að það verði að reka ríkissjóð hallalausan og það er aðalinntakið í stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er allt í lagi þótt allt atvinnulífið sé rekið með bullandi halla. Það verður að reka ríkissjóð hallalausan. Ríkissjóður á að vera og ríkissjóður á að vera og ríkissjóður á að vera. Hvað með atvinnuvegina og fólkið sem vinnur í þessum atvinnuvegum? Hvað heldur það lengi vinnunni ef það verður haldið svona áfram?
    Þessi umræða getur ekki bara verið út og suður. Við erum að ræða framtíð íslenskra atvinnuvega. Hvað á að vera lengi að klára þessa höfuðstóla miðað við þær skattahækkanir sem voru gerðar fyrir jól og velta út í verðlagið og valda aukinni verðbólgu og neita svo að viðurkenna það í formi gengis? Hvað er lengi verið að ryksuga það sem eftir er? Það tekur ekki nema nokkra mánuði.
    Þessi stjórn efnahagsmála er álíka gáfuleg og maður gæti ímyndað sér ef Eiríkur Fjalar mundi stjórna Sinfóníuhljómsveit Íslands.