Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Vegna spurningar hv. 5. þm. Austurl. um eigið fé atvinnuveganna vil ég segja að ég leit satt að segja svo á að hv. þm. hefði svarað henni sjálfur áðan þegar hann sagði að þessar upplýsingar mundu vera frá Seðlabanka Íslands komnar. Það er hárrétt. Seðlabanki Íslands lét ríkisstjórninni í té skýrslu um peningamál í kringum 20. janúar sl. og þar kom þetta mjög greinilega fram. Ég skal útvega hv. þm. þá skýrslu. ( KrP: Hvað er rétt af þessu?) Ég féll í þá gryfju að trúa Seðlabanka Íslands. Nú hefur verið óskað eftir því að þetta verði endurskoðað. M.a. hefur hæstv. sjútvrh. gert það. Í nýlegu blaði sem kom frá Seðlabankanum staðfestir hann að miðað við nýtt mat sem sett hefur verið á eignir sjávarútvegsins megi draga verulega úr rýrnun eiginfjár og hún sé kannski um fjórðungur af því eða þriðjungur af því sem Seðlabankinn hafði talið áður, sú virðulega stofnun. Það er mjög alvarlegt mál að fá svona upplýsingar frá æðstu stofnun landsins í peningamálum, mjög alvarlegt mál. Ég hef því óskað eftir því að þetta verði vandlega kannað og dregið fram hvað veldur svona vitleysu. Ég tek undir með hv. þm. að þetta þarf að liggja á hreinu og ég hef lagt drög að því að svo verði.
    Ég þakka hv. þm. Albert Guðmundssyni fyrir stuðninginn. Við höfum lengi verið sammála um að við þurfum að ná okkur út úr þeirri peningahyggju sem hér hefur ríkt. Ég tek undir það sem hann sagði um tvískinnungsháttinn sem að ýmsu leyti leikur lausum hala.
    Hv. 1. þm. Suðurl. spurði um þann lið í tilkynningu ríkisstjórnarinnar sem fjallar um mótun hins íslenska fjármálakerfis á grundvelli efnahagsyfirlýsinga ráðherra Norðurlandanna. Það er rétt að í tilkynningunni segir að ríkisstjórnin muni á næstu missirum leggja áherslu á að móta hið íslenska peningakerfi á grundvelli þessa samkomulags. Í næstu setningu er jafnframt tekið fram að ríkisstjórnin muni því leggja áherslu á að hið íslenska bankakerfi þróist og þroskist þannig að það verði samkeppnisfært og sambærilegt við það sem fram undan er á sameinuðum fjármálamarkaði í Evrópu, m.a. með tilliti til vaxta og trygginga. Þetta verður vitanlega að lesa saman. Sá fyrirvari sem hefur komið fram hjá fjmrh. á fundum ráðherra Norðurlandanna vísar nákvæmlega til þess sem þessi síðari setning, sem ég nokkurn veginn orðrétt fór með, vona ég, segir. Við teljum að áður en hið íslenska banka- og peningakerfi geti tekið þátt í þeirri samkeppni sem þarna verður um að ræða þurfi það að eflast mjög og samkeppnisstaða þess, vaxtamunur og margt fleira verða miklu betri en er. Þetta kann að taka nokkur missiri eins og kemur fram í fyrri setningunni.