Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Matthías Bjarnason):
    Herra forseti. Það sem hér er um að ræða er það hvort færa eigi þessi mál til Verðlagsráðs, sérstakrar nefndar sem staðsett er hér í höfuðborginni, eða hvort þessi mál eigi að fá sína umfjöllun og afgreiðslu hjá hitaveitum og rafmagnsveitum almennt. Hitaveiturnar sem og rafmagnsveiturnar eru reknar sem þjónustufyrirtæki. Þær eru almenningsfyrirtæki eða í eigu viðkomandi sveitarfélaga og stjórnað af fulltrúum þeirra sem kjörnir eru af fólkinu og síðar af sveitarfélögunum. Þessar stjórnir hafa fram til þessa ákvarðað nauðsynlegar hækkanir á gjaldskrám hverju sinni og tilkynna þær viðkomandi ráðuneyti sem er iðnrn.
    Ég get ekki annað séð en að hagsmunir notenda séu nægilega tryggir hvað snertir ákvarðanatöku þessara orkufyrirtækja. Við vitum það að margar hitaveitur eru í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum og hafa fengið fjárhagsaðstoð frá ríkinu. Ég held að það sé rétt munað hjá mér að í frv. til lánsfjárlaga séu núna um 330 millj. kr. sem er ætluð heimild til að taka lán fyrir allmargar hitaveitur, fyrir utan það fjármagn sem Landsvirkjun er leyft að taka að láni erlendis. Aðstoð hefur verið veitt með því skilyrði að veiturnar létu gjaldskrár í framtíðinni fylgja verðlagi.
    Verðstöðvun hefur núna verið í fimm mánuði. Á sama tíma hefur byggingarvísitalan hækkað um 4,18%, dollarinn um 8,77% og SDR enn meira eða um 11,96%. Nú vita það allir menn að stærsti hlutinn af skuldum þessara orkufyrirtækja er í erlendum lánum og því hafa þær hækkað á verðstöðvunartímanum á meðan gjaldskrár hafa staðið í stað. Því held ég að engum sé betur treystandi til þess að meta og vega hvað orkuverðið á að vera heldur en fyrirtækjunum sjálfum. Og ef ríkisvaldið --- og það getum við sagt þó að það fari í hendur Verðlagsráðs --- að þá er Verðlagsráðið styrkt að mörgu leyti af ríkisvaldinu sem á oddamann og stjórnar þar aðgerðum. Ef það á að fara að stýra með þeim hætti að halda niðri orkuverði þannig að taprekstur þessara fyrirtækja verði aukinn mjög verulega, þá er illa farið að mínum dómi.
    Með allri virðingu fyrir öllum þeim sem eiga sæti í Verðlagsráði treysti ég miklu betur sveitarstjórnarmönnum og kjörnum fulltrúum víðs vegar úti um land að ákveða hvað er hófleg gjaldskrá fyrir þessi fyrirtæki. Eða er þetta allt það sama sem er að ske, að það má ekkert lengur vera í friði sem er úti um landið? Það verður að koma því undir sérstaka miðstýringu þar sem stutt er á milli ráðuneytis og Verðlagsstofnunar. Ég fyrir mitt leyti tel þetta algjöra öfugþróun og skil eiginlega ekki í þessu. Ef ríkisstjórnin vænir þessi orkufyrirtæki í landinu um það að þau ætli að okra á notendum get ég skilið það. En hvaða ástæðu hefur hún til þess miðað við þær gjaldskrárbreytingar sem orðið hafa áður en verðstöðvun tók gildi? Ég held að hóflega hafi verið farið með þessi mál, bæði hvað snertir hitaveiturnar sem ég gerði að umræðuefni áðan. Og þá má einnig

minna á raforkuverðið, að á tímabilinu frá 1984 til 1988 lækkaði rafmagnsverð í samanburði við ýmsa aðra þætti. Orkuverð Rafmagnsveitna ríkisins, Rafmagnsveitu Reykjavíkur, Landsvirkjunar og fleiri raforkuveitna hækkaði þá um 64,5--75,5% á sama tíma og framfærsluvísitala, vísitala byggingarkostnaðar og lánskjaravísitalan hækkaði um 157--177%. Raunverð raforku frá fyrirtækjum lækkaði því um 30--39% á þessu tímabili. Ef við berum svo þessa þróun í orkuverði, bæði hjá hitaveitum og rafmagnsveitum, saman t.d. við það sem ríkisstjórnin hefur lagt til hér við þessa hv. stofnun, Alþingi, frá desember og fram til þessa, á verðstöðvunartíma, er það slæmur samanburður fyrir ríkisstjórnina. Þá var ekki verið að hafa miklar áhyggjur af því að verið væri að bæta nýjum þungum böggum á heimilin í landinu, því það stóð ekkert á --- áður en snjókoman byrjaði fyrir alvöru byrjaði hún frá ríkisstjórninni, þá snjóaði hér skattafrumvörpum á allan almenning í landinu. Og þá sá maður ekki þessa umhyggju hæstvirtra ráðherra fyrir því að það þurfi að koma í veg fyrir hækkanir. Nei, þá stóð ekki á því, þingmenn stjórnarliðsins voru píndir áfram sárnauðugir, veslingarnir, og ríkisstjórnin náði þessum skemmtilega árangri sem þá var markaður hér fyrir jólahátíðina.