Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í deilur stjórnarflokkanna um það hverjir séu af guðs náð kratar og hverjir réttbornir framsóknarmenn. Það hafa orðið allsnarpar deilur hér í þessari umræðu og hæstv. ráðherra hefur sætt allharkalegri gagnrýni. Hann kom hér upp til varnar sjálfum sér og þótti mér það heldur bera keim af kattarþvotti. Ég verð þó að segja það eins og er að ég er ekki sammála því efnisatriði sem hér hefur helst komið til umræðu, þ.e. verðlagshöftum á orkufyrirtækin. Þvert á móti hefur verið sýnt fram á það með skýrum rökum að einmitt þau hafa verið að lækka raunvirði á sölu sinnar þjónustu á undanförnum árum og hér hefur með skýrum rökum verið sýnt fram á að ef einhvers staðar á að treysta aðilum til frjálsrar verðmyndunar þá er það einmitt á þessu sviði.
    En hæstv. ráðherra kom hér upp og það fór ekki á milli mála að hann átti í vök að verjast. Og þó að ég telji það ekki skyldu mína að grípa til varna fyrir hans hönd, þá held ég að það sé alveg nauðsynlegt vegna þeirrar miklu gagnrýni sem hann hefur sætt út af þessu afmarkaða máli að skýra afstöðu hans í víðara samhengi því að með því einu móti fæst haldbær skýring á þeirri afstöðu sem hann kynnir og þeirri stefnu sem hann mælir hér fyrir.
    Sannleikurinn er sá að hæstv. ráðherra var til skamms tíma einn helsti málsvari fyrir frjálst hagkerfi á Íslandi, en hann hefur á síðustu mánuðum tekið stakkaskiptum í þessum efnum og er nú ásamt hæstv. fjmrh. helsti málsvari og forustumaður um allsherjarstefnubreytingu í íslenskum efnahagsmálum sem miðar að því að færa efnahagskerfi Íslendinga frá frjálsræði sem hér hefur ríkt til meiri miðstýringar. Hæstv. ráðherra er þannig ásamt hæstv. fjmrh. helsti forustumaður um auknar niðurgreiðslur, helsti forustumaður um auknar uppbætur og millifærslur til atvinnuveganna með þeim skattahækkunum sem af því leiða. Hæstv. ráðherra er helsti forustumaður nú um stundir um handstýringu vaxta og fjármagnsmarkaðar. Hæstv. ráðherra er helsti forustumaður um það að breyta hlutverki bankaráða í þá veru að þau verði að eins konar kommissarastjórnum í þágu ráðherranna.
    Þannig verður að horfa á þetta mál að hæstv. ráðherra hefur á öllum sviðum tekið að sér forustu um aukna miðstýringu og fráhvarf frá frelsi. Og hann væri ósamkvæmur sjálfum sér ef hann á þessu afmarkaða sviði væri ekki þeirrar skoðunar að hér ætti að fella mál undir aukna miðstýringu og aukið eftirlit. Ég held að það sé einmitt þetta sem er meginskýringin á afstöðu hæstv. ráðherra í þessu máli. Það verður til nokkurrar málsbótar fyrir hæstv. ráðherra að draga þessa heildarmynd fram. Síðan gætum við auðvitað sett á langar umræður um gildi þeirrar stefnu og afleiðingar en til þess gefst ekki tími. En mér fannst alveg nauðsynlegt, vegna þess hversu máttvana vörn ráðherrans var, að draga þessa heildarmynd fram í dagsljósið.