Launavísitala
Fimmtudaginn 23. febrúar 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Við 1. umr. um þetta mál kom fram stuðningur, einnig frá stjórnarandstöðunni, við setningu laga um launavísitölu. Það var að vísu óháð því að hún yrði notuð eins og nú er gert ráð fyrir í sambandi við lánskjaravísitölu. Ég er þessu sammála. Launavísitala er reiknuð í dag og er notuð og því eðlilegt að setja um hana lög. Ef þetta frv., sem samið var af hagstofustjóra, er að einhverju leyti gallað, þá treysti ég nefndinni fullkomlega vel til þess að lagfæra það.
    Nú hefur stjórnarandstaðan hins vegar lagt til að máli þessu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og vísar þá til þeirrar deilu sem er á milli ríkisstjórnarinnar og fyrst og fremst lífeyrissjóða um hina nýju lánskjaravísitölu. Viðræður fara nú fram á milli ríkisstjórnar og lífeyrissjóða og hafa lögfræðiálit verið lögð fram. En mér finnst sjálfsagt að verða við því sem felst í tillögu minni hl., að mál þetta verði ekki afgreitt fyrr en úr þessari deilu fæst skorið og ég vil leyfa mér að leggja hér til að mál þetta verði látið bíða.