Lengd skólaárs og samfelldur skóladagur
Mánudaginn 06. mars 1989

     Flm. (Birgir Ísleifur Gunnarsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um lengd skólaárs og samfelldan skóladag sem flutt er af þremur þingmönnum Sjálfstfl., þeim hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur, 3. þm. Reykv., Þorsteini Pálssyni, 1. þm. Suðurl., auk mín.
    Till. er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma til framkvæmda eftirfarandi atriðum varðandi skólastarf í landinu.
     1. Að gera sérstaka athugun á því hvers vegna skólaár sé styttra en 9 mánuðir á sumum stöðum á landinu og gera ráðstafanir til úrbóta þar sem ekki eru full rök fyrir styttra skólaári.
     2. Að setja á fót starfshóp við hverja fræðsluskrifstofu landsins sem hafi það verkefni að vinna að því að koma á samfelldum skóladegi í öllum skólum fræðsluumdæmisins.``
    Mér þykir rétt áður en ég vík efnislega að tillögunni að greina nokkuð frá aðdraganda hennar. Í stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar var ítarlega fjallað um fjölskyldu- og jafnréttismál. Þar segir m.a. að unnið verði að því að treysta stöðu fjölskyldunnar með markvissri fjölskyldustefnu, fyrst og fremst með velferð barna fyrir augum.
    Í ágúst 1987 skipaði Þorsteinn Pálsson, þáv. hæstv. forsrh., samstarfsnefnd ráðuneyta um fjölskyldumál, en í þeirri nefnd áttu sæti fulltrúar þeirra ráðuneyta sem þessi mál varða. Formaður var skipaður án tilnefningar Inga Jóna Þórðardóttir. Þessi nefnd skilaði í ágúst árið 1988 áfangaskýrslu þar sem fjallað var um skóla- og dagvistarmál. Helstu tillögur nefndarinnar um skólamál eru eftirfarandi:
     1. Nefndin telur æskilegt markmið að allir grunnskólanemar njóti skólavistar a.m.k. 6 klukkustundir á dag. Þessu markmiði verði náð í fjórum áföngum þannig að skóladagur verði lengdur úr 22--35 stundum á viku í 30--36 stundir á viku.
     2. Með skipulögðum aðgerðum innan fræðsluumdæmanna verði komið á skólaathvörfum þar til tillögur um lengingu skóladags verða komnar til framkvæmda.
     3. Lokið verði við að koma á samfelldum skóladegi miðað við núverandi húsakost skólanna skólaárið 1989--1990.
     4. Forskóladeildum við grunnskóla verði breytt þannig að allir njóti sama kennslustundafjölda óháð fjölda barna.
     5. Skólaráð, sem í eigi sæti fulltrúi foreldra, starfi við hvern grunnskóla.
     6. Fræðsluskrifstofur hafi yfirlit um starfsemi foreldra- og kennarafélaga.
     7. Staða umsjónarkennara við 7.--9. bekk verði styrkt.
     8. Kannað verði rækilega hvað valdi því að skólaár er enn víða styttra en 9 mánuðir.
    Þetta nál. var rætt í þingflokki Sjálfstfl. og niðurstaða varð sú að þingmenn flokksins hafa flutt þrjú þingmál þar sem fjallað er um og teknar upp

tillögur nefndarinnar.
    Hv. 6. þm. Reykn. Salome Þorkelsdóttir hefur flutt frv. um þann þátt í nál. sem snertir samskipti foreldra og skóla, en það er reyndar byggt á eldra nál., þ.e. áliti nefndar sem Ragnhildur Helgadóttir, þáv. hæstv. menntmrh., skipaði árið 1983 um það efni sem þessi nefnd gerði síðan að sínum tillögum.
    Þá hafa nokkrir þingmenn Sjálfstfl. í Nd. flutt frv. sem snertir skóla og fræðsluskyldu 6 ára barna og lengingu skóladags. Það frv. er flutt á þskj. 90 og sem fylgiskjal með því frv. er þetta nál. birt í heild sem ég hef verið að vitna hér til, þ.e. um skóla- og dagvistarmál.
    Í þessari þáltill. er fjallað um atriði sem eru fyrst og fremst framkvæmdaatriði en krefjast ekki lagabreytinga. Fjallar annað atriðið um lengd skólaárs en hitt um skipulegar aðgerðir til að koma á samfelldum skóladegi. Fyrri tölul. till. fjallar um lengd skólaársins. Um það er fjallað í nál. og þar segir að í 41. gr. grunnskólalaganna sé kveðið á um starfstíma grunnskóla, að reglulegur starfstími grunnskóla skuli vera 7--10 mánuðir. Nánar sé kveðið á um skipan þessara mála í reglugerð nr. 79/1976. Þá er í nál. gerð grein fyrir mismunandi starfstíma grunnskóla í hinum einstöku fræðsluumdæmum landsins. Ég sé ekki ástæðu til að rekja það hér en vitna til grg. með þáltill. En niðurstaðan er sú að samtals eru 9 mánaða skólar 81 með 32.135 nemendur, eða 75,7% nemenda. Átta og hálfs mánaðar skólar eru 35 með 5621 nemanda, eða 13,2%. Átta mánaða skólar eru 91, með 4603 nemendur, eða 10,8%. Sjö og hálfs mánaðar skólar eru 2 með 27 nemendum, 0,1%, og sjö mánaða skólar eru 7 með 63 nemendum, 0,2%.
    Ákvarðanir um starfstíma grunnskóla er í höndum skólanefnda á hverjum stað. Margvísleg rök hníga eflaust að því að skólaárið sé mismunandi langt eftir stöðum. T.d. má nefna fámenna skóla og ýmsar staðbundnar ástæður. Hins vegar hljóta spurningar að vakna um hvort ástæða sé til að þrengja heimildir til styttri skólatíma. Má í því sambandi minna á umræður um að nemendur landsbyggðarinnar standi höllum fæti gagnvart nemendum á höfuðborgarsvæðinu.
Það kann að vera að styttri skólatími hafi einhver áhrif á þetta án þess að ég leggi á það sérstakan dóm.
    Það er hins vegar erfitt að sjá réttmæt rök fyrir því að t.d. grunnskólanemendur á Selfossi og Egilsstöðum fái ekki jafnlangan skólatíma og jafnaldrar þeirra á Sauðárkróki og Ísafirði eins og nú er. Það er rétt að vekja athygli á því að fastur kennslukostnaður er sá sami hvort sem um er að ræða átta mánaða eða níu mánaða skóla. Það er einungis við sjö og sjö og hálfs mánaðar skóla sem fastur kennslukostnaður lækkar. Þess vegna er lagt til í till. að gerð sé sérstök athugun á því hvers vegna skólaárið sé styttra en níu mánuðir á sumum stöðum á landinu og gerðar ráðstafanir til úrbóta þar sem ekki eru full rök fyrir styttra skólaári.
    Síðari tölul. í till. fjallar um samfelldan skóladag. Ég ætla ekki að ræða ítarlega um þau rök sem liggja að baki nauðsyninni á samfelldum skóladegi, en till. fjallar um það að miðað við núverandi húsnæði

skólanna, sem er auðvitað mismunandi eins og við vitum en á hverju ári eru þó miklar framkvæmdir í skólabyggingum, er sem sagt gert ráð fyrir því að fræðsluskrifstofurnar fari rækilega ofan í það verkefni með skipulagsbundnum hætti að koma á samfelldum skóladegi í öllum skólum fræðsluumdæmisins, miðað við þær aðstæður sem nú eru á hverjum stað.
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki fjalla frekar um þessa till. Ég vitna að öðru leyti til grg. með henni. En ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til félmn. Sþ.