Lengd skólaárs og samfelldur skóladagur
Mánudaginn 06. mars 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegur forseti. Ég tel ástæðu til þess að leggja hér orð í belg í tilefni af þeirri till. sem hér var mælt fyrir af hv. 2. þm. Reykv.
    Hér er komið að mjög stóru og þýðingarmiklu máli sem flokkarnir sem hér eiga fulltrúa hafa fjallað um allir með einum eða öðrum hætti á undanförnum árum. Ég hygg að segja megi að að því er varðar lengri skóladag sé á því skilningur og rík samstaða um nauðsyn þess að lengja skóladaginn, aðallega fyrir yngstu börnin. Það sem hefur hins vegar strandað á í þessum efnum eins og mörgum öðrum er skortur á fjármunum, en kostnaður við að ná því markmiði sem hér var m.a. gerð grein fyrir er 500--600 millj. kr. á ári. En heildarkostnaður við grunnskólann á þessu ári, 1989, er liðlega 3000 millj. kr. Menn sjá því að hér er auðvitað hreyft gríðarlega stóru verkefni, erfiðu verkefni, sem örugglega tekur tíma að ná utan um þannig að skaplegt sé.
    Þegar ég í þessu sambandi ræddi um kostnað var ég einungis að tala um rekstur og laun. Ég er ekki að tala um byggingar á nýjum stofum. Það er hins vegar augljóst mál að til að ná því marki sem gert er ráð fyrir í sambandi við einsetinn skóla verður að gera verulegt átak í þeim efnum. Þó er það þannig að ef það fé sem nú er varið til skólabygginga, grunnskóla á þessu ári, 1989, færi allt í að byggja nýjar stofur til þess að ná þessu marki, þetta væri gagngert partur af þessu átaki, tæki það í raun og veru 7--8 ár eins og fjárlögin eru núna fyrir árið 1989, og þá hef ég dregið frá þann hluta sem merktur er grunnskólanum en er notaður til þess að byggja upp íþróttamannvirki við grunnskólana. Ég held að það sé nauðsynlegt og við höfum unnið þannig í ráðuneytinu að við höfum reynt að átta okkur á kostnaðinum við þetta verkefni og viljum síðan raða verkefnunum í forgangsröð og átta okkur á því hvað það er sem menn vilja gera, hvað viljum við taka fyrst og hvað svo o.s.frv., vegna þess að við verðum auðvitað að átta okkur á því í þessu máli eins og mörgum öðrum að við höfum engin tök á að gera allt í einu. Við verðum að raða þessu upp í forgangsröð. Og þá er auðvitað skynsamlegt að reyna að kanna, bæði meðal þjóðarinnar og auðvitað þingsins, um hvað getur orðið samstaða við að mynda þessa forgangsröð. Hvaða mál vilja þingmenn og þjóðin hafa fyrst? Í því skyni hefur menntmrn. beitt sér fyrir því að það stendur yfir könnum á viðhorfum skólamanna, foreldra, stéttarsamtaka og fleiri aðila um allt land um þessar mundir ---- en við sendum eyðublaðið til um 450 aðila víðs vegar í þjóðfélaginu --- þar sem við biðjum þetta fólk að gera grein fyrir því hver mikilvægustu verkefnin séu í skólamálum á næstu árum, næstu 10 árum. Og við biðjum fólk um að nefna 4--10 verkefni sem er brýnast að fara í. Þegar þessi könnun er búin, og hún er langt komin því að svörum átti að skila í kringum 20. febr., munum við senda þær úrlausnir til Félagsvísindastofnunar Háskólans, biðja hana að fara vandlega yfir þetta, kanna hvaða verkefni eru oftast nefnd, raða þessu upp með eðlilegum hætti og síðan

fara aftur til skólanna og fólksins í foreldrafélögunum og segja: Hvaða röð viljið þið hafa á þessu? Við gerum ráð fyrir að niðurstaða úr þessum könnunum liggi fyrir á miðju þessu ári. Þar með er forgangsröðin ljós að því er þessa aðila varðar. Og ég tel að það sé afar mikilvægt í sambandi við skólamál að á þeim sé haldið þannig að um þau geti verið sem allra víðtækust samstaða. Ég hef talað um nauðsyn þess að ná samstöðu um íslenska skólann, forsendur hans og framtíðarmarkmið. Ég held að við eigum að vinna þannig. Og mér finnst að sú umræða sem oft hefur farið fram hér á hv. Alþingi um skólamál sýni það að það sé vilji til þess að stilla þarna saman strengina og þannig viljum við vinna að þessum málum í menntmrn.
    Það er auðvitað alveg augljóst mál að fyrir utan þau atriði sem nefnd eru hér í þáltill. eru óskaverkefni okkar varðandi þróun íslenska skólans mörg og mjög stór. Ég nefni í því sambandi verkefni sem verður að taka á sérstaklega á næstu árum. Það er menntun kennara, efling Kennaraháskóla Íslands á grundvelli þeirra laga m.a. sem samþykkt voru hér á síðasta þingi. Það er spurningin um dreifða kennaramenntun, þannig að kennaramenntun geti farið fram víðs vegar í landinu og inni í skólunum sjálfum jafnhliða því starfi sem þar er unnið. Það eru námsráðgjafar. Það er óhjákvæmilegur hlutur að gera ráð fyrir námsráðgjöfum inni í skólunum, bæði grunnskólunum og framhaldsskólunum, í stórauknum mæli á komandi árum til þess að geta hjálpað fólki áleiðis í sambandi við val á framhaldsáföngum og starfi og þess háttar þáttum. Ég nefni Námsgagnastofnunina sem er auðvitað þannig stödd að henni eru ætluð risavaxin verkefni sem hún er mjög vanbúin til að takast á við af því að við höfum ekki haft nema takmarkaða fjármuni til að veita til hennar. Hér hef ég þó aðeins nefnt mál sem sérstaklega snerta grunnskólann og ætla ekki að fara út í að ræða hér undir þessum dagskrárlið málefni forskólans og framhaldsskólans og endurmenntunina og tengsl framhaldsskólans við atvinnulífið sem er geysilega mikilvægt að við tökum á með myndarlegum og heildstæðum hætti.
    Ég vil skýra frá því að lokum, virðulegur forseti, að í dag voru mér afhent drög að nýrri aðalnámsskrá grunnskóla. Þegar ég kom í ráðaneytið hafði talsvert verið unnið í því verki. Ég ákvað þá að kalla til fulltrúa kennarasamtaka og foreldrafélaga, Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands og fleiri aðila í samstarfsnefnd til að skrifa drög að nýrri aðalnámsskrá grunnskóla og mér voru afhent þessi drög núna í morgun. Ég geri ráð fyrir því að það verði unnt að gefa út nýja aðalnámsskrá grunnskólans fyrir árið 1989--1990, þannig að unnt verði að taka tillit til þess við skipulagningu skólastarfsins á næsta skólaári. Þetta þýðir það að gefa verður út námsskrána í síðasta lagi um miðjan næsta mánuð.
    Ég taldi rétt, virðulegi forseti, í tilefni af þessari tillögu að láta þessar upplýsingar koma fram.