Lengd skólaárs og samfelldur skóladagur
Mánudaginn 06. mars 1989

     Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þær undirtektir sem þessi tillaga hefur fengið við þessa umræðu. Það er hvorki staður né stund til þess hér að taka upp almennar umræður um skólamál, en hæstv. menntmrh. greip á ýmsum þáttum skólamálanna sem æskilegt væri auðvitað að ræða betur en til þess gefst vafalaust tækifæri síðar. Ég minni t.d. á að ósvarað er af hans hálfu og mér heyrist að nú sé tilefni til þess að svara þeirri beiðni um skýrslu sem liggur fyrir til hæstv. menntmrh. þar sem óskað er eftir að hann geri grein fyrir þeim störfum sem unnin hafa verið varðandi aðalnámsskrá grunnskóla og hverjir eru þeir efnisþættir sem þar er helst um að ræða. Það gefst þá væntanlega tækifæri til þess að ræða það nánar.
    Það sem ég vildi hins vegar vekja sérstaka athygli á nú varðandi þessa tillögu er í fyrsta lagi að undirstrika að hún er ein tillaga af þremur þingmálum sem þingmenn Sjálfstfl. hafa flutt þar sem reynt er að grípa í heild á niðurstöðum þeirrar nefndar um fjölskyldumál sem fyrrv. hæstv. forsrh. skipaði. Í öðru lagi fjallar þessi þáltill. um atriði sem eru tiltölulega einföld í framkvæmd og eiga ekki að þurfa að kosta mikið fé. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því að það að koma á einsetnum samfelldum skóla um allt land er afar kostnaðarsamt verkefni og með þeirri lengingu skóladags sem því mundi fylgja. En hér er fjallað um atriði sem má segja að horfi til hagræðingar í skólastarfi, þ.e. að koma á samfelldum skóla sem víðast með þeirri aðstöðu sem nú þegar er fyrir hendi í skólunum.
    Nú er svo komið í Reykjavík að tæplega 75% nemenda á grunnskólaaldri njóta samfellds skóladags og 21% nemenda til viðbótar þarf ekki að fara nema eina aukaferð á viku í skólana. Það er t.d. verðugt verkefni að kanna hvað þarf að gera til þess að þessi 21% nemenda geti fellt niður þessa einu aukaferð á viku í skólana. Þá værum við hér í Reykjavík komnir með 96% nemenda í samfelldum skóladegi. Í Reykjaneskjördæmi er ástandið ekki eins gott. 60% nemenda þar njóta samfellds skóladags, rúmlega 12% þurfa að fara eina aukaferð á viku í skólann og tæplega 28% nemenda tvær aukaferðir á viku í skólann.
    Það eru ekki eins nákvæmar upplýsingar tiltækar um ástandið í skólum á landsbyggðinni, en þetta tel ég vera verkefni sem auðvitað er hægt að fara í án þess að kosta mjög miklu til og enginn vafi er á því að með hagræðingu í skólastarfi víða um land væri hægt að ná betri árangri í þessu efni heldur en við höfum náð í dag. Þessu vildi ég vekja sérstaka athygli á, en þakka að öðru leyti fyrir þá umræðu sem þessi tillaga hefur fengið.