Lengd skólaárs og samfelldur skóladagur
Mánudaginn 06. mars 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu svo mjög. Við höfum oft rætt þessi mál, sem hér eru til umfjöllunar, bæði í hv. Sþ. og í hv. Ed., en ég gat þó ekki staðist það að lýsa ánægju minni með þau viðhorf sem hafa komið fram hjá hæstv. menntmrh. til þessara mála og ekki síst með tilliti til þess að um er að ræða framhald af vinnu sem unnin hefur verið á undanförnum árum í menntmrn. undir forustu forvera hans í ráðherrastóli, tveggja síðustu hæstv. menntmrh. eins og komið hefur fram.
    Það sem mig langaði aðeins að ítreka og benda hæstv. menntmrh. á, af því að það hefur komið fram bæði í hans máli hér áðan og eins í fréttum, að hann hefur tekið upp samstarf við foreldra og skóla út um land allt. Þetta hefur verið gert áður, að vísu með nokkuð öðrum hætti, en ég vildi benda honum á, ef hann hefur ekki gert það nú þegar, að kynna sér vel þessar tvær skýrslur sem hv. 2. þm. Reykv. hefur vitnað til og fjalla um þessi mál og var haft samráð við foreldra og nemendur skóla. Í þessum skýrslum sem vitnað er til og voru gefnar út í okt. 1984 og í jan. 1986, önnur varðandi þéttbýli og hin dreifbýli, koma fram niðurstöður, spurningar og svör þeirra foreldra, nemenda og skólamanna sem tóku þátt í þessum könnunum. Ég vildi aðeins árétta að sá vinnuhópur sem vann að þessum skýrslum hafði samráð bæði með því að boða aðila á fundi nefndarinnar og eins með því að senda fyrirspurnir til allra þeirra aðila sem hafa með skólamál að gera. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að hæstv. ráðherra hefur tekið upp þráðinn og heldur þessu starfi áfram, en ég vildi líka árétta það við hann að kynna sér vel það sem er í þessum skýrslum sem tiltækar eru í ráðuneytinu.